Stjórnvöld í Pakistan halda áfram að handtaka fjölmiðlafólk og aðra vítt og breitt um landið í hróplegri mótsögn við tilkynningar stjórnvalda þess efnis að þúsundir mótmælenda hafi verið leystir úr fangelsi.
Stjórnvöld í Pakistan halda áfram að handtaka fjölmiðlafólk og aðra vítt og breitt um landið í hróplegri mótsögn við tilkynningar stjórnvalda þess efnis að þúsundir mótmælenda hafi verið leystir úr fangelsi.
Á meðan heimspressan greindi frá því að sleppa ætti 3.400 manns, sem handteknir voru eftir aðgerðir stjórnvalda gegn friðsömum mótmælum í landinu, réðst lögregla í Karachi á og handtók 100 fjölmiðlamenn og konur þriðjudaginn 20. nóvember. Þessar handtökur grafa undan trúverðugleika fullyrðinga Musharraf hershöfðingja að verið sé að koma á fjölmiðlafrelsi á ný.
Lögregla handtók blaðamennina þegar þeir mótmæltu banni gegn sjónvarpsstöðinni Geo og öðrum takmörkunum á starfi fjölmiðla. Eftir mótmæli fyrir utan fjölmiðlaklúbbinn í Karachi hélt fjölmiðlafólkið í átt að skrifstofu fylkisstjóra Sindh-fylkis og freistaði þess að ná tali af ráðamönnum. Lögregla stöðvaði för hópsins og réðst á göngufólk með kylfum. Fleiri en 5 fjölmiðlakonur voru í þessum hóp.
Fregnir herma að byrjað sé að sleppa fjölmiðlafólkinu úr haldi, en það og annað fjölmiðlafólk í Pakistan á frekari ofsóknir, varðhaldsvist og mögulega illa meðferð yfir höfði sér. Frá því að neyðarstjórn var komið á þann 3. nóvember hafa þeir sem reynt hafa að mótmæla neyðarstjórninni með friðsamlegum hætti mátt þola ítrekaðar handtökur.
Óháðir fjölmiðlar í Pakistan fengu einna fyrst að kenna á neyðarlögunum 3. nóvember. Útsendingar allra óháðra sjónvarpsstöðva, þeirra á meðal alþjóðlegra kapalstöðva, voru rofnar nokkrum klukkutímum áður en gripið var til neyðarstjórnar. Takmörkunum á fréttaflutningi alþjóðlegra fréttastöðva hefur verið aflétt, en óháðum stöðvum, sem senda út frá Pakistan, er enn meinað að senda út.
Auk þess var gildandi fjölmiðlalögum breytt til að takmarka enn frekar tjáningarfrelsi. Viðurlög við brotum á þeim lögum eru fangelsisdómar og háar fjársektir.
Búast má við frekari ofsóknum og handtökum gegn fjölmiðlafólki. Þann 17. nóvember handtóku lögreglumenn í borgaralegum klæðum ritstjóra dagblaðsins Tulu í Islamabad á skrifstofu hans. Bundið var fyrir augu hans meðan á varðhaldsvistinni stóð, farið var með hann á óþekktan stað og hann yfirheyrður um skrif sín. Honum var tjáð að hann hefði verið handtekinn samkvæmt tilmælum háttsettra embættismanna. Honum var sleppt úr haldi þann 19. nóvember.
