Mannréttindabrot í Íran

Mahmoud Salehi hefur lengi mátt þola ofsóknir íranskra yfirvalda og verið fangelsaður nokkrum sinnum vegna lögmætra og friðsamlegra aðgerða sem verkalýðsfrömuður og baráttumaður fyrir mannréttindum.

Mahmoud Salehi hefur lengi mátt þola ofsóknir og mannréttindabrot íranskra yfirvalda og verið fangelsaður nokkrum sinnum vegna lögmætra og friðsamlegra aðgerða sem verkalýðsfrömuður og baráttumaður fyrir mannréttindum. Hann hóf afplánun vegna síðasta dóms síns þann 9. apríl 2007. Amnesty International álítur hann samviskufanga og hefur áhyggjur af heilsu hans.

Mahmoud Salehi hefur átt við veikindi að stríða um langa hríð. Beiðni læknis hans í maí 2007 að hann fengi meðferð sérfræðings utan fangelsins hefur verið hafnað. Hann stríðir við þrálátan nýrnasjúkdóm og þarf á nýrnaskilun að halda. Einnig er talið að hann sé hjartveikur. Nýlega kom í ljós að hann er með bjúgur eða bólgur í þörmum, sem getur tengst nýrnasjúkdómnum. Kona hans, Najibeh Salehzadeh, sagði þann 18. desember:

„… heilsa maka míns er mjög slæm. Annað nýra hans er hætt að starfa og hitt nýrað er í hættu vegna þess að hann fær ekki viðunandi læknisaðstoð. Hann missir rænu um tvisvar á dag. Blóðþrýstingur hans sveiflast til og blóðsykurinn hækkar stöðugt. Hjartað er í hættu því hann fær ekki fullnægjandi læknisaðstoð vegna nýrnaveikinnar. Fætur hans eru bólgnir og honum líður mjög illa vegna þess hve oft hann hefur verið sprautaður með róandi lyfjum….“

 

Skrifaðu til íranskra yfirvalda vegna mannréttindabrota gegn Mahmoud Salehi

 

Bakgrunnur

 

Eftir að hann var sendur í Tohid-spítala í Sanandaj-borg í Kordestan-héraði var Mahmoud Salehi sendur í heilaskönnun. Þá kom í ljós að æðar í heila hans höfðu skemmst.

Mahmoud Salehi var meðal 20-30 fanga sem færðir voru gegn vilja sínum frá einni álmu til annarar í Sanandaj-fangelsi þann 4. desember síðastliðinn. Fangarnir höfðu lítinn tíma til að taka föggur sínar og Mahmoud þurfti meiri tíma en aðrir fangar til þess vegna bágrar heilsu sinnar. Vegna þessa var hann skammaður og hótað lífláti. Blóðþrýstingur Mahmoud Salehi jókst, líklega vegna streitunnar sem fylgdi flutningnum og hann var fluttur á Tohid-spítala skömmu síðar. Þar var hann hlekkjaður við rúm sitt og sprautaður með róandi lyfjum, en síðar fluttur aftur í fangelsið.

Fjölskyldu og lögfræðingi Mahmoud Salehi hefur verið meinað að heimsækja hann. Fjölskylda hans, sem býr 400km frá Sanandaj, hefur getað rætt við hann símleiðis. Hann var handtekinn eftir friðsamlega kröfugöngu þann 1. maí 2004. Í nóvember 2005 var hann dæmdur í fimm ára fangelsi og þriggja ára útlegð innanlands í Ghorveh-borg í Kordestan. Saksóknari við réttarhöldin bar hann að sögn þeirri sök, meðal annars, að hafa unnið í þágu verkalýðsfélaga, og vísaði til fundar sem hann átti með fulltrúum frá Alþjóðasambandi frjálsra verkalýðsfélaga í apríl 2004, skömmu fyrir kröfugönguna 1. maí.

Dómi hans var hnekkt fyrir æðra dómstigi, en eftir að réttað var aftur í máli hans var hann dæmdur þann 11. nóvember 2006 í fjögurra ára fangelsi fyrir „samsæri um að fremja glæpi gegn þjóðaröryggi“. Mahmoud Salehi var frjáls ferða sinna þar til æðra dómstig felldi úrskurð sinn þann 11. mars 2007. Þá var hann dæmdur í eins árs fangelsi og þrjú ár skilorðsbundin að auki. Hann hóf afplánun sína 9. apríl 2007.

 

Lestu meira um mannréttindabrot gegn verkalýðsfrömuðum í Íran