Íslandsdeild Amnesty International fagnar framkominni þingsályktun um að fordæma mannréttindabrot og hvetja bandarísk yfirvöld til að loka fangabúðunum í Guantanamo.
Íslandsdeild Amnesty International fagnar framkominni þingsályktun um að fordæma mannréttindabrot og hvetja bandarísk yfirvöld til að loka fangabúðunum í Guantanamo.
Amnesty International hefur allt frá því að fyrstu fangarnir voru færðir til fangabúðanna við Guantanamo flóa á Kúbu hinn 11. janúar 2002 barist fyrir því að grundvallarmannréttindi þeirra verði virt. Samtökin hafa ítrekað hvatt íslensk yfirvöld til að fordæma þau mannréttindabrot sem viðgangast í hinu svokallaða „stríði gegn hryðjuverkum“ og m.a. leitað til þingmanna um stuðning við áætlun samtakanna um lokun fangabúðanna við Guantanamo flóa.[1] Tuttugu og þrír íslenskir þingmenn úr öllum flokkum ljáðu áætluninni lið. Alþingi Íslendinga mun með samþykkt umræddrar þingsályktunartillögu leggja baráttunni fyrir mannréttindum mikilvægt lið og sýna raunverulegan vilja til að verjast mannréttindabrotum í Guantanamo og víðar í nafni „stríðsins gegn hryðjuverkum“.
Amnesty International hefur gefið út fjölda rannsókna um mannréttindabrot í „stríðinu gegn hryðjuverkum“[2]. Einnig hafa samtökin tekið upp mál einstaklinga. Vegna þeirrar baráttu hafa fangar verið leystir úr haldi og aðrir sem hafa „horfið“ komið fram.
Amnesty International hefur bent á að viðbrögð margra ríkisstjórna við hryðjuverkum hafi falist í árásum á mannréttindakerfið og vanvirðingu við grundvallarréttindi í stað þess að byggja aðgerðir gegn hryðjuverkum á mannréttindum og virðingu fyrir lögum. Í „stríðinu gegn hryðjuverkum“ hafa bandarísk stjórnvöld beitt leynilegu varðhaldi, „mannshvörfum“, langri einangrunarvist, fangelsisvist um óskilgreindan tíma án ákæru, handa-hófskenndum fangelsunum, pyndingum og annarri ómannlegri eða niðurlægjandi meðferð. Þessi stefna bandarískra stjórnvalda er skýrt brot á alþjóðalögum.
Íslandsdeild Amnesty International vill því hvetja þingheim allan til að fordæma mannréttindabrot og hvetja til lokunar Guantanamo og sýna þannig stuðning við virðingu fyrir alþjóðlega viðurkenndum mannréttindum.
Áætlun Amnesty International til að binda enda á ólöglegt varðhald í „stríðinu gegn hryðjuverkum“[3]
· Bandaríkin ættu að loka varðhaldsstöðinni við Guantanamo-flóa.
· Binda ætti enda á leynivarðhaldskerfi Bandaríkjanna undir eins og fyrir fullt og allt. Öllum leynilegum varðhaldsstöðvum ætti að loka, hvar svo sem þær eru staðsettar.
· Öllum föngum í „stríðinu gegn hryðjuverkum“, líka þeim sem haldið er í Guantanamo, ætti að sleppa undir eins nema þeir verði ákærðir og fái réttlát réttarhöld.
· Bandaríkin ættu að lýsa því yfir opinberlega að þau muni ekki stuðla að leynilegu varðhaldi, ólöglegu framsali eða mannshvörfum í málum grunaðra hryðjuverkamanna.
· Þeim sem sleppt er skal ekki snúið til landa þar sem hætta er á að þeir sæti alvarlegum mannréttindabrotum.
· Mál hvers fanga ætti að meta á sanngjarnan og gagnsæjan hátt til að meta hvort þeir geti snúið aftur til heimalands síns eða hvort leita ætti annarra úrræða.
· Þeir sem sæta réttarhöldum ættu að vera ákærðir fyrir viðurkenndan glæp og hljóta réttlát réttarhöld fyrir sjálfstæðum og hlutlausum dómstól, t.d. alríkisdómstól í Bandaríkjunum. Ekki skal dæma ákærðu til dauða.
· Engar upplýsingar fengnar með pyndingum eða annars konar ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu ættu að teljast leyfilegar fyrir dómi, nema gegn þeim sem sakaðir eru um pyndingar.
· Allir bandarískir embættismenn ættu að hætta að gera ráð fyrir að menn handteknir í „stríðinu gegn hryðjuverkum“ séu sekir þar til sakleysi þeirra er sannað.
· Lög um herdómstóla (Military Commissions Act 2006) ætti að afnema eða breyta í samræmi við alþjóðalög þar sem þau tryggja nú ekki réttinn til réttlátra réttarhalda, neita föngum um habeas corpus og ýta undir refsileysi fyrir mannréttindabrot.
· Bandarísk yfirvöld ættu að bjóða fimm sérfræðingum Sameinuðu þjóðanna (fjórum sérstökum eftirlitsfulltrúum og formanni vinnuhóps um geðþóttavarðhald) að heimsækja Guantanamo og aðrar varðhaldsstöðvar Bandaríkjamanna án takmarkana. Það ættu ekki að vera neinar hömlur á einslegum samræðum milli sérfræðinga og fanga.
· Alþjóðleg mannréttindasamtök, m.a. Amnesty International, ættu einnig að fá slíkan aðgang.
· Bandaríkin ættu að veita saklausum föngum bætur, bæði í formi peninga og endurhæfingar.
[1] Sjá fylgiskjal
[2] Sjá nánar á slóðinni http://www.amnesty.org/en/campaigns/counter-terror-with-justice
[3] Sjá nánari lýsingu á áætluninni: USA: Abandon military commissions, close Guantánamo, AI Index AMR 51/118/2007
http://web.amnesty.org/library/Index/ENGAMR511182007
