Frumvörp til laga um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla

Íslandsdeild Amnesty International hefur borist til umsagnar eftirfarandi frumvörp sem öll lúta að skólastarfi á Íslandi.

Íslandsdeild Amnesty International hefur borist til umsagnar eftirfarandi frumvörp sem öll lúta að skólastarfi á Íslandi.

1.      Frumvarp til laga um leikskóla, þskj.321-287. mál.

2.       Frumvarp til laga um grunnskóla, þskj. 319-285.mál.

3.       Frumvarp til laga um framhaldsskóla, þskj. 320-286. mál.

4.       Frumvarp til laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla,þskj.322-288. mál.

Amnesty International eru alþjóðleg mannréttindasamtök sem vinna að vernd og framgangi  mannréttinda. Samtökin gera ekki athugasemdir við einstakar greinar ofannefndra frumvarpa en vilja aftur á móti vekja athygli á því að samkvæmt þeim er ekki gert ráð fyrir að í lögunum verði ákvæði um að kennsla í mannréttindum skuli verða hluti af lögbundnu námi  barna og unglinga.  Þetta telur Íslandsdeild Amnesty International að samræmist illa alþjóðlegum skuldbindingum Íslands.

Rétturinn til mannréttindafræðslu er settur fram í fjölmörgum alþjóðlegum mannréttindasamningum og yfirlýsingum[1] þar sem kveðið er á um að ríkisstjórnir skuli tryggja menntun í víðasta skilningi til handa öllum borgurum, þar á meðal börnum og ungu fólki.  Þá segir í 26.gr. Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna: „Menntun skal beina í þá átt að þroska persónuleika einstaklinganna og innræta þeim virðingu fyrir mannréttindum og mannhelgi.  Hún skal miða að því að efla skilning, umburðarlyndi og vináttu meðal þjóða, kynþátta og trúarflokka og að efla starf Sameinuðu þjóðanna í þágu friðarins.“

Sameinuðu þjóðirnar hafa lagt sérstaka áherslu á mannréttindafræðslu og  var áratugurinn milli 1994-2004 tileinkaður mannréttindafræðslu og lagt að ríkisstjórnum að lögbinda slíka fræðslu og kennslu. Kennsla í mannréttindum hefur það að markmiði að auka skilning á þeim réttindum og skyldum sem hver og einn hefur og þarf að njóta og uppfylla. Þeir alþjóðasamningar sem vísað er til hér að ofan eru lagalega bindandi fyrir íslenska ríkið sem hefur fullgilt þá og leggja þeir áherslu á skyldur ríkisstjórna til  að veita mannréttindafræðslu á öllum skólastigum, og tryggja að öll menntun stuðli að virðingu og viðgangi mannréttinda. Mannréttindakennsla í skólum verður æ mikilvægari, ekki síst í ljósi þess að víða í heiminum er nú vegið að grundvallarmannréttindum. Þá er hafið yfir vafa að aukin samskipti milli ólíkra þjóðernishópa, fjölgun innflytjenda og þar með aukin hætta á mismunun gerir mannréttindafræðslu afar brýna á öllum skólastigum.  Slík fræðsla mun stuðla mjög að þekkingu og skilningi á réttindum og skyldum, bæði eigin og annarra og þar með auka líkur á því að allir fái notið slíkra réttinda og virði rétt annarra til að njóta þeirra.

Með vísan til þess sem rakið er hér að ofan hvetur Íslandsdeild Amnesty International Alþingi til að breyta 2.gr. frumvarps um grunnskóla, 2. gr. frumvarps um framhaldsskóla og 2. gr. frumvarps um leikskóla á þann veg að skýrlega verði þar á um kveðið að virðing fyrir mannréttindum sé hluti af markmiðum og hlutverki skólanna.

Amnesty International leggur áherslu á að börn og unglingar fái nauðsynlega kennslu sem miði að því að efla með þeim virðingu fyrir mannréttindum og skilning á mikilvægi þeirra. Slík kennsla  veitir þeim nauðsynlegan undirbúning til að taka virkan og ábyrgan þátt í samfélagi sem grundvallast á lýðræði og gildum réttarríkisins.  Grundvallarmannréttindi eru varin í íslensku stjórnarskránni og er, að mati Íslandsdeildar Amnesty International, eðlilegt og óhjákvæmilegt að gera þá kröfu til ríkisins að það tryggi öllum sem skólaskyldir eru fræðslu um þau réttindi eftir því sem aldur þeirra og þroski leyfir.  Markmið menntunar á að  beinast að fullum þroska mannlegs persónuleika og meðvitund um göfgi mannsins og skal stuðla að virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsi.

Íslandsdeild Amnesty International hvetur því Alþingi til að gera nauðsynlegar breytingar á umræddum frumvörpum til að tryggja að kennsla í mannréttindum fari fram á öllum skólastigum.

[1] Samningur um réttindi barnsins (1990) gr. 28 og 29

Alþjóðasamningur um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi (1966) gr.13

Samningur um afnám allrar mismununar gagnvart konum (1979) gr. 10

Samningur um afnám alls kynþáttamisréttis (1969) gr. 7

Evrópuráðið: Samningsviðauki nr. 1 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis (1954) gr. 2