Yfir hundrað Palestínumenn hafa látist í loftárásum og stórskotaliðsárásum Ísraelshers á Gasa svæðinu síðustu daga, þar á meðal tugir barna og aðrir óbreyttir borgarar.
Yfir hundrað Palestínumenn hafa látist í loftárásum og stórskotaliðsárásum Ísraelshers á Gasa svæðinu síðustu daga, þar á meðal tugir barna og aðrir óbreyttir borgarar. Þrír Ísraelsmenn hafa látist, tveir hermenn og almennur borgari sem lést af völdum eldflaugar sem skotið var af vopnuðum hópi Palestínumanna.
Margir þeirra Palestínubúa sem létust voru viðriðnir árásir á Ísrael, en aðrir voru óvopnaðir borgarar sem tóku engan þátt í átökunum, þar af um 25 börn. Erfitt er að nálgast nákvæmar tölur yfir látna.
Ísraelsmenn halda þvi fram að 90 prósent þeirra Palestínumanna sem látist hafa hafi verið vopnaðir vígamenn, en heimildir frá Sameinuðu þjóðunum og frá Gasa herma að um helmingur hinna látnu hafi verið óbreyttir borgarar. Yfir 250 manns hafa særst, þar með talinn fjöldinn allur af óbreyttum borgurum.
Áður en herlið Ísraela var dregið til baka þann 3. mars höfðu hús og aðrar eignir verið eyðilagðar víðsvegar um Gasa svæðið, þar af a.m.k. tvær heilsugæslustöðvar.
Amnesty International sagði á sunnudag að loft- og stórskotaliðsárásir Ísraelshers á Gasa svæðinu væru framkvæmdar af fullkomnu virðingarleysi við líf óbreyttra borgara, og kröfðust samtökin þess að endir væri bundinn á slíkar yfirdrifnar og gengdarlausar árásir. Samtökin benda á að Ísrael ber lagaleg skylda til að vernda óbreytta borgara Gasa. Hafa samtökin lýst því yfir að þessar árásir séu í engu hlutfalli við árásir Palestínumanna og nái langt út fyrir þær aðgerðir sem Ísraelsmönnum er lagalega heimilt að beita í kjölfar eldflaugaárása á vegum vopnaðra hópa Palestínumanna.
Til viðbótar við þessa hrinu drápa og eyðileggingar hafa 1.5 milljónir íbúa Gasa svæðisins þurft að kljást við mannúðarkreppu í kjölfar sífellt strangari hafta sem Ísraelsmenn hafa sett ibuum á Gasa svæðinu.
Spítalar og sjúkrastofnanir, sem nú þegar glíma við mikinn vanda vegna rafmagnsskorts og skorts á eldsneyti, tækjum og varahlutum vegna viðskiptabanns Ísraela, eiga í erfiðleikum vegna þess fjölda fólks sem til þeirra hefur leitað í kjölfar árása Ísraela undanfarna daga.
Landamæri Gasa eru lokuð og margir sjúklingar, sem þurfa á sérfræðiaðstoð að halda, er ekki fæst á Gasa, geta ekki komist þaðan og eiga á hættu að deyja.
Á síðustu tveimur mánuðum hefur Ísraelsher drepið yfir 230 Palestínumenn á Gasa, þeirra á meðal fjölda óbreyttra borgara, og sært fjölmarga til viðbótar. Á sama tíma hafa vopnaðir hópar Palestínumanna haldið áfram að skjóta qassam og öðrum eldflaugum með handahófskenndum hætti inn í Ísrael frá Gasa-svæðinu, mestanpart í átt að bænum Sderot, en í síðustu viku var flaugunum einnig beint að bænum Ashkelon.
Einn óbreyttur ísraelskur borgari hefur látið lífið og nokkrir særst í eldflaugaárásum vopnaðra hópa Palestínumanna frá Gasa inn í Sderot og önnur svæði.
Amnesty International hefur aftur beint þeim orðum til Hamas og palestínsku heimastjórnarinnar að þau tryggi að vopnaðir hópar Palestínumanna hætti nú þegar árásum sínum gegn Ísrael, og að þeir sem beri ábyrgð á árásunum verði dregnir til ábyrgðar.
Kominn er tími til að leiðtogar Hamas og palestínsku heimastjórnarinnar grípi til aðgerða sem duga til að koma í veg fyrir og refsa fyrir árásir á borgara í Ísrael. Aðgerðaleysi þeirra í þeim efnum réttlætir þó engan veginn loft- og stórskotaliðsárásir Ísraelsmanna.
Árásir vopnaðra hópa Palestínumanna, sem skjóta ítrekað eldflaugum frá Gasa inn í nærliggjandi bæi í Ísrael bera ekki einungis vott um virðingarleysi fyrir lífi óbreyttra borgara í Ísrael heldur setja þær palestínskan almenning á Gasa í hættu vegna árása Ísraela.
Amnesty International fordæmir allar árásir á óbreytta borgara, en ítrekar að ólögmætar árásir af hálfu annars aðila geta ekki réttlætt brot hins aðilans.
