Íslandsdeild Amnesty International barst ekki beiðni frá Alþingi um gerð umsagnar við ofangreint frumvarp. Amnesty International eru alþjóðleg samtök fólks sem berst fyrir vernd og framgangi mannréttinda.
Umsögn Íslandsdeildar Amnesty International
um
frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum nr. 19
12. febrúar 1940, með síðari breytingum
(upptaka, hryðjuverk, skipulögð brotastarfsemi, mansal og peningaþvætti).
(Lagt fyrir Alþingi 135. löggjafarþing 2007-2008)
Þskj. 197 – 184. mál
I Inngangur
Íslandsdeild Amnesty International barst ekki beiðni frá Alþingi um gerð umsagnar við ofangreint frumvarp. Amnesty International eru alþjóðleg samtök fólks sem berst fyrir vernd og framgangi mannréttinda. Í fumvarpinu er að finna lagaákvæði er varða mansal og hryðjuverk. Baráttan gegn mansali er eitt af viðfangsefnum Amnesty International og eins hefur Amnesty International lagt ríka áherslu á að í baráttunni gegn hryðjuverkum sé ekki vegið að eða grafið undan mannréttindum. Með vísan til framangreinds vill Íslandsdeild Amnesty International koma eftirfarandi á framfæri við Alþingi.
Í frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, um hryðjuverk, peningaþvætti og mansal og að lögfestur verði nýr kafli um upptöku eigna auk nýs ákvæðis um skipulagða brotastarfsemi. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að með breytingum þessum sé að því stefnt að uppfylla skilyrði til að unnt sé að fullgilda tvo Evrópuráðssamninga, annars vegar um varnir gegn hryðjuverkum og hins vegar um aðgerðir gegn mansali og samning Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri brotastarfsemi (Palermó-samning) og bókun um að koma í veg fyrir, berjast gegn og refsa fyrir verslun með fólk, einkum konur og börn.
II Aðgerðir gegn mansali
Af athugasemdum með frumvarpinu má ráða að með því sé einungis verið að uppfylla þær kröfur Evrópuráðssamningsins um aðgerðir gegn mansali er lúta að fullnægjandi refsiákvæðum í lögum. Amnesty International hefur lagt áherslu á að Evrópuríki fullgildi umræddan samning sem allra fyrst og hefur Íslandsdeild samtakanna hvatt íslensk stjórnvöld til þess. Íslandsdeildin vill því taka fram að hún fagnar því að frumvarp þetta hafi verið lagt fram en með því eru tekin fyrstu skrefin til að unnt sé að fullgilda samninginn. Deildin hvetur jafnframt íslensk stjórnvöld til að gera svo skjótt sem verða má aðrar nauðsynlegar lagabreytingar til að uppfylla kröfur samningsins en þær lúta einkum að beinni aðstoð, vernd og stuðningi við þolendur mansals. Í því sambandi er brýnt að fest verði í lög ákvæði um vernd fórnarlamba , vitnavernd, fyrirbyggjandi aðgerðir og skaðabætur. Einnig leggur deildin til að í íslenskum lögum verði að finna skilgreiningu á mansali sem endurspegli þá skilgreiningu sem er að finna í 1. kafla 4. gr. samningsins. Amnesty International leggur ríka áherslu á að tryggt verði að lagaumhverfið og framkvæmd þess verði þannig að þolendur mansals geti óttalaust leitað stuðnings yfirvalda án þess að eiga á hættu að lenda í aðstæðum sem eru jafnslæmar eða verri en þær sem þeir eru í fyrir.
III Aðgerðir gegn hryðjuverkum og vernd mannréttinda
Á undanförnum árum hefur í nafni baráttunnar gegn hryðjuverkum verið vegið að alþjóðlegri mannréttindavernd með mjög alvarlegum hætti. Amnesty International vill því taka skýrt fram og árétta að allar aðgerðir sem gripið er til í því skyni að koma í veg fyrir hryðjuverk verða að standast alþjóðlegar mannréttindakröfur og mega alls ekki grafa undan grundvallarréttindum sem áunnist hafa og réttarríkið byggist á. Amnesty International telur of mikinn vafa leika á hvort orðalag Evrópuráðssamningsins um varnir gegn hryðjuverkum og lagafrumvarps þess sem hér er til umfjöllunar standist þær kröfur. Amnesty International telur að ákvæði samningsins veiti ekki fullnægjandi tryggingu fyrir því að fólk verði ekki sótt til saka fyrir lögmæta andstöðu við stjórnvöld. Afar mikilvægt er að hugtakið „hryðjuverk“ fái ekki svo víða skilgreiningu í lögum, að ekki sé greint með skýrum hætti á milli ólöglegra aðgerða og andstöðu við stjórnvöld sem er lögleg og varin af alþjóðlega viðurkenndum mannréttindareglum. Í þessu sambandi vill Íslandsdeild Amnesty International einnig vekja athygli á tilmælum Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá því í mars 2005. Sú nefnd hefur eftirlit með að ríki virði skyldur sínar samkvæmt alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Í tilvitnuðu áliti lýsti nefndin áhyggjum sínum vegna skilgreiningar íslenskra hegningarlaga á hryðjuverkum sem finna má í a-lið 100. gr. laganna. Í áliti nefndarinnar kemur fram að í ákvæðinu sé „að finna óljósa og víðtæka skilgreiningu á hryðjuverkum, sem gæti náð til lögmæts athæfis í lýðræðisþjóðfélagi og stefnt því í hættu, einkum þátttöku í opinberum mótmælum”. Íslandsdeild Amnesty International telur að fyrirhugaðar breytingar á 100. gr. samræmist ekki áliti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og áréttar mikilvægi þess að íslensk stjórnvöld fari að tilmælum hennar.[1]
[1] Concluding Observations of the Human Rights Committee: Iceland. 25/04/2005, CCPR/CO/83/ISL, Office of the High Commissioner for Human Rights, 25. apríl 2005.
