Blóðbað og örvænting í Írak

Fimm árum eftir innrásina í Írak, undir forystu Bandaríkjanna, er landið enn í upplausn. Mannréttindaástandið er skelfilegt, refsileysi viðgengst, efnahagur er í molum og flóttamannavandinn eykst sífellt.

Fimm árum eftir innrásina í Írak, undir forystu Bandaríkjanna, er landið enn í upplausn. Mannréttindaástandið er skelfilegt, refsileysi viðgengst, efnahagur er í molum og flóttamannavandinn eykst sífellt.

Í nýrri skýrslu Amnesty International, sem ber heitið Carnage and Despair: Iraq five years on, segir að þrátt fyrir fjölmennt og þungvopnað lið bandarískra og íraskra hermanna, sé Írak enn eitt hættulegasta land í heimi, og að hundruð íraskra borgara séu drepnir í hverjum mánuði.

Vopnaðir hópar, þar á meðal hópar sem eru andsnúnir írösku stjórninni og fjölþjóðaliðinu undir forystu Bandaríkjanna, eru ábyrgir fyrir tilviljunarkenndum sprengjutilræðum, sjálfsmorðsárásum, mannránum og pyndingum.

Frá því snemma á árinu 2006 hefur ofbeldið færst í aukana. Vopnaðir hópar súnnía og sjía hafa ráðist gegn öðrum trúarhópum og neytt heilu trúarsamfélögin til að flytja af svæðum, þar sem áður bjó fólk af ólíku trúarlegu bergi brotið. Það hefur átt stóran þátt í að yfir fjórar milljónir manna hafa neyðst til að flýja heimili sín. Tvær milljónir þeirra eru nú flóttafólk í Sýrlandi og Jórdaníu.

Óbreyttir borgarar eru ekki óhultir fyrir herjum fjölþjóðaliðsins og íraskra öryggissveita heldur, en margir þeirra hafa fallið vegna mikillar hörku sveitanna í baráttu sinni; og tugþúsundir hafa verið hnepptir í varðhald án ákæru eða réttarhalda. Dauðarefsingin var leidd í lög að nýju árið 2004 og hundruð einstaklinga hafa verið dæmdir til dauða. Að minnsta kosti 33 einstaklingar voru teknir af lífi árið 2007, margir þeirra eftir óréttlát réttarhöld.

Lestu nánar um ástand mannréttinda og mannréttindabrot í Írak í nýrri skýrslu Amnesty International.