Mannréttindabrot í Tíbet

Kínverska lögreglan hefur ráðist inn á heimili í Lhasa í leit að fólki sem tók þátt í nýlegum mótmælum í borginni. Ró virðist ríkja á götum höfuðborgar Tíbet og fáir á ferli. En fréttir berast af ólgu í nálægum héruðum Kína, þar sem mikill fjöldi Tíbeta býr.

Kínverska lögreglan hefur ráðist inn á heimili í Lhasa í leit að fólki sem tók þátt í nýlegum mótmælum í borginni.

Ró virðist ríkja á götum höfuðborgar Tíbet og fáir á ferli. En fréttir berast af ólgu í nálægum héruðum Kína, þar sem mikill fjöldi Tíbeta býr. Samkvæmt fréttum Tíbetsku miðstöðvarinnar fyrir mannréttindi og lýðræði hafa hundruð Tíbeta farið út á götur í Kardze-umdæmi í Sichuan-héraði, og andrúmsloftið þar spennuþrungið. Einnig voru fréttir af mótmælum í Gansu-héraði.

Sumir hafa sagt að andrúmsloftið í Lhasa sé „skelfilegt“; lögregla og hermenn fari hús úr húsi og hneppi fólk í varðhald. Mikill ótti ríkir um örlög þeirra, sem hafa verið hnepptir í varðhald.

Ríkisstjórnin gaf fólki, sem tók þátt í mótmælunum, frest til miðnættis mánudagsins 17. mars til að gefa sig fram, og hótaði að „refsa harðlega“ þeim sem ekki gerðu það. Sjónarvottar hafa sagt að fólk hafi verið dregið af heimilum sínum og Tíbetar sem hafa myndir af Dalai Lama á vegg hjá sér hafa verið handteknir.

Kínversk yfirvöld segja að tíbetskir mótmælendur hafi drepið 13 „saklausa borgara“. Heimildamenn í tíbetska útlagasamfélaginu segja að vopnaðir lögreglumenn hafi drepið 99 Tíbeta.

Kínversk stjórnvöld hafa takmarkað nærri allan fréttaflutning frá Tíbet og nærliggjandi svæðum. Stjórnvöld hafa einnig skorið á internettengingar og farsímatengingar í Tíbet. Þegar frásagnir erlendra fréttaveita af ástandinu í Tíbet birtast á skjánum í Kína eru þær ritskoðaðar – og sjónvarpsskjárinn verður svartur.

Amnesty International hefur krafist þess að kínversk stjórnvöld sýni ekki óþarfa valdbeitingu við að koma á reglu á ný.

 

Amnesty International hvetur kínversk stjórnvöld til að:

Bjóða eftirfarandi hópi innan innan Mannréttindaráðsins að heimsækja Tíbet og gefa ráðinu skýrslu á 8.fundinum; sérlegum erindreka framkvæmdastjórans um mannréttindafrömuði; sérlegum fulltrúa um aftökur án dóms og laga; vinnuhópi um geðþóttahandtökur; sérlegum fulltrúa um trúfrelsi; sérlegum fulltrúa um tjáningarfrelsi; óháðum sérfræðingi um réttindi minnihlutahópa. Flestir þeirra sem hér hafa verið nefndir hafa áður sótt um leyfi til að heimsækja Kína en ekki enn fengið leyfi til þess;

Bjóða mannréttindafulltrúa SÞ að veita forstöðu sendinefnd sem kannar ástandið á svæðinu; fulltrúinn myndi síðan gefa Mannréttindaráðinu skýrslu um förina;

Virða réttinn til tjáningar, fundahalda og félagsskapar með því að handtaka ekki þá, sem hafa í frammi friðsamleg mótmæli;

Sleppa þeim úr haldi sem handteknir hafa verið fyrir að nýta sér rétt sinn til friðsamlegra mótmæla;

Forðast óhóflega valdbeitingu við að koma á lögum og reglu, sérstaklega forðast að nota skotvopn nema í neyðartilvikum þegar líf eru í hættu;

Gera fulla grein fyrir öllum sem hafa verið hnepptir í varðhald og tryggja að þeir verði ekki pyndaðir, eða látnir sæta annarri illri meðferð, að þeir hafi aðgang að lögfræðingi og læknisþjónustu, og verði færðir fram fyrir óháðan dómstól og eigi þess kost að fá varðhaldsvist sinni hnekkt;

Tryggja að þeir, sem hafa verið hnepptir í varðhald, verði ákærðir fyrir sakir, sem eru alþjóðlega viðurkenndar og yfir þeim réttað í réttarhöldum sem fullnægi alþjóðlegum viðmiðum um sanngjörn réttarhöld;

Leyfa fjölmiðlafólki og öðru óháðu eftirlitsfólki fullan og óskilyrtan aðgang að Tíbet og öðrum tíbetskum svæðum. Slíkt væri í samræmi við loforð kínverskra stjórnvalda um fullt fjölmiðlafrelsi fyrir þá sem fjalla um Ólympíuleikana (Tíbet er hluti þess landsvæðis, sem Ólympíukyndillinn fer um [19-21. júní] og því er eðlilegt og nauðsynlegt að fjölmiðlafólk geti sinnt fréttaflutningi frá Tíbet);

Leyfa sjálfstæða rannsókn Sameinuðu þjóðanna á atburðum síðustu viku, þar á meðal fullan aðgang að átakasvæðum, sjónarvottum og þeim, sem hnepptir voru í varðhald; og leyfa sjálfstæðum eftirlitsaðilum, þeirra á meðal fjölmiðlafólki og mannréttindasamtökum óhindraðan aðgang.

Taka á undirliggjandi umkvörtunarefnum Tíbetbúa og þeirri langtímastefnu sem hefur valdið andúð íbúanna.

 

Frekari upplýsingar:

 

Fear of torture and other ill-treatment (Skyndiaðgerðabeiðni, 18 mars 2008)

UN scrutiny of Tibet crisis required (Fréttir, 18 mars 2008)