Hu Jia, sem berst fyrir mannréttindum í Kína, hefur verið dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir „undirróður gegn ríkisvaldinu“.
Hu Jia, sem berst fyrir mannréttindum í Kína, hefur verið dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir „undirróður gegn ríkisvaldinu“.
Hu Jia var haldið mánuðum saman í stofufangelsi, en færður í varðhald þann 27. desember 2007. Hann var formlega ákærður þann 28. janúar 2008 og hófust réttarhöldin yfir honum þann 18. mars við héraðsdóm í Beijing.
Amnesty International álítur að dómurinn yfir honum sé refsing fyrir opinbera gagnrýni Hu Jia á mannréttindabrotum í Kína og sé ætlað að senda öðru baráttufólki skilaboð, sem þora að gagnrýna stjórnvöld opinberlega.
Fullyrðingar kínverskra embættismanna um að mannréttindi verði efld í aðdraganda Ólympíuleikanna hljóma hjákátlega í ljósi dómsins.
Áður en Hu Jia var handtekinn hafði hann opinberlega lýst áhyggjum sínum vegna mannréttindabrota lögreglunnar í Beijing, þar á meðal handtöku baráttufólks án tilskilinna réttarheimilda. Dæmi um slíkt voru handtökurnar á Yang Chunlin, sem berst fyrir landréttindum og mannréttindafrömuðinum Lu Gengsong, en báðir voru þeir handteknir fyrir undirróður.
Í varðhaldsvistinni var Hu Jia yfirheyrður 47 sinnum. Hann naut ekki lögfræðiaðstoðar, fékk ekki að hitta fjölskyldu sína eða fá læknisþjónustu, sem hann þarfnast vegna lifrarsjúkdóms í kjölfar lifrarbólgu-B smits. Eiginkona hans, Zeng Jinyan, er enn í stofufangelsi ásamt nýfæddu barni þeirra.
Amnesty International telur Hu Jia vera samviskufanga og krefst þess að hann verði tafarlaust leystur úr fangelsi og án skilyrða. Samtökin hvetja Alþjóðaólympíunefndina og þjóðarleiðtoga heimsins til að láta opinberlega í ljósi áhyggjur sínar vegna máls hans og fjölmargs annars baráttufólks fyrir mannréttindum í Kína, sem kínversk stjórnvöld hafa ráðist gegn í aðdraganda Ólympíuleikanna. Verði það ekki gert má segja að slíkt jafngildi þátttöku í „þagnarsamsæri“ sem kínversk stjórnvöld myndu álíta vera þögulan stuðning við slíka kúgun.
Hu Jia hóf mannréttindastarf sitt í baráttunni gegn alnæmi. Hann er annar stofnenda grasrótarsamtaka sem helga sig aðstoð við börn alnæmissmitaðra.
Aðgerðir hans og hispursleysi gerðu að verkum að lögregla áreitti og barði Hu Jia ítrekað. Zeng Jinyan, eiginkona hans sagði: „Þó að ekki sé talið með eitt skipti árið 2002, þegar lögregla hneppti Hu í varðhald meðan hann tók viðtal við íbúa í þorpi fyrir alnæmissmitaða, mun hann hafa setið í fangelsi fyrir ýmsar sakir í nákvæmlega fjögur ár þann 3. apríl 2008“.
Hu fór að horfa í fleiri áttir og segja frá margvíslegum öðrum mannréttindabrotum og eiga viðtöl við erlenda fjölmiðla. Í nóvember 2007 tók hann þátt í fundi Evrópuþingsins gegnum vefmyndavél, en þar fullyrti hann að Kína hefði ekki uppfyllt loforð sitt um að bæta ástand mannréttinda í landinu í aðdraganda Ólympíuleikanna.
Í grein á bloggi sínu frá því 10. september 2007 segir Hu Jia: „Allir ættu að vita að landið sem er um það bil að halda Ólympíuleikana heldur ekki lýðræðislegar kosningar, virðir ekki trúfrelsi, sjálfstæða dómstóla eða sjálfstæð verkalýðsfélög. Það bannar mótmæli og verkföll. Það er ríki sem stundar umfangsmiklar pyndingar, mismunun og heldur úti fjölmennu leynilögreglukerfi. Það er ríki sem brýtur í bága við alþjóðleg mannréttindaviðmið og lítilsvirðir mannhelgina og er ekki tilbúið að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar sínar“.
Á sameiginlegum fréttamannafundi með breska utanríkisráðherranum, David Miliband, þann 28. febrúar 2008 sagði kínverski utanríkisráðherrann, Yang Jiechi: „Enginn verður handtekinn fyrir að segja að mannréttindi séu mikilvægari en Ólympíuleikarnir. Það er ómögulegt.“
Amnesty International trúir að dómurinn yfir Hu Jia sýni fram á fáfengileika þeirrar fullyrðingar að kínverskir ríkisborgarar njóti tjáningarfrelsis og geti tjáð sig án þess að eiga afskipti ríkisins yfir höfði sér. Dómnum er ætlað að senda skilaboð til annars baráttufólks í Kína sem þorir að tjá sig um mannréttindi á opinberum vettvangi.
Sendu bréf og þrýstu á kínversk yfirvöld að láta Hu Jia lausan úr fangelsi.
Frekari upplýsingar:
What human rights legacy for the Beijing Olympics?
