Mannréttindabrot á palestínsku sjálfstjórnarsvæðunum

Íslandsdeild Amnesty International hefur sent samhljóða bréf til forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar og utanríkisráðherra Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Í bréfinu er vakin athygli á alvarlegu ástandi mannréttinda á palestínsku sjálfstjórnarsvæðunum og íslenskir ráðamenn hvattir til að taka upp mannréttindamál í viðræðum við Mahmoud Abbas.

Íslandsdeild Amnesty International hefur sent samhljóða bréf til forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar og utanríkisráðherra Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Í bréfinu er vakin athygli á alvarlegu ástandi mannréttinda á palestínsku sjálfstjórnarsvæðunum og íslenskir ráðamenn hvattir til að taka upp mannréttindamál í viðræðum við Mahmoud Abbas.

Forseti og utanríkisráðherra eru sérstaklega hvött til að fara þess á leit við Mahmoud Abbas að hann staðfesti ekki dauðadóm yfir hinum 23 ára gamla Tha´er Mahmoud Husni Rmailat og komi þannig í veg fyrir yfirvofandi aftöku hans.

Lestu skyndiaðgerðabeiðni um mál Tha´er Mahmoud Husni Rmailat

Lestu um ástand mannréttinda á palestínsku sjálfstjórnarsvæðunum

 

Hér að neðan er bréf Íslandsdeildar Amnesty International til utanríkisráðherra Íslands. Samhljóða bréf var sent til forseta Íslands.

 

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra

Utanríkisráðuneytið

Rauðarárstíg 25

150 Reykjavík                                                        Reykjavík 21.apríl 2008

 

 

Háttvirti ráðherra

 

Vegna heimsóknar  Mahmoud Abbas forseta palestínsku heimastjórnarinnar vill Íslandsdeild Amnesty International vekja athygli á þeim mannréttindabrotum sem viðgangast á sjálfstjórnarsvæðum Palestínumanna. Samtökin hafa miklar áhyggjur af þeim brotum sem yfirvöld bæði á Gaza og Vesturbakkanum bera ábyrgð á.

Átökin á síðustu misserum milli stuðningsmanna Fatah og Hamas tengjast að hluta þeirri lögleysu og því refsileysi sem hefur viðgengist á sjálfstjórnar-svæðunum. Stríðandi fylkingar Fatah og Hamas hafa gerst sekar um alvarleg mannréttindabrot og brot á alþjóðalögum. Bæði Fatah og Hamas verða að stöðva hefndaraðgerðir, árásir og mannrán og tryggja að öryggissveitir og vopnaðar sveitir undir þeirra stjórn, hvort sem er á Vesturbakkanum eða á Gaza  svari til saka vegna mannréttindabrota.

Amnesty International hefur gagnrýnt Hamas fyrir að grípa í sífellt ríkari mæli til geðþóttahandtaka og pyndinga síðan samtökin komust til valda á Gaza í júní  á síðasta ári.  Hamas samtökin eru einnig ásökuð um að leyfa sveitum sínum að ráðast á friðsamlega mótmælendur og fréttamenn. Amnesty International hefur einnig greint frá því að sveitir á vegum Mahmoud Abbas forseta beri ábyrgð á  geðþóttahandtökum þúsunda stuðningsmanna Hamas. Amnesty International hefur gagnrýnt harðlega það refsileysi sem felst í því að ekki er gripið til  neinna aðgerða gegn Fatah-liðum sem eru ábyrgir fyrir mannránum, íkveikjum og annars konar árásum.

Amnesty International krefst þess að leiðtogar bæði Fatah og Hamas grípi til aðgerða til að binda enda á vítahring refsileysis sem kyndir undir brot eins og geðþóttahandtökur, mannrán, pyndingar og illa meðferð að hálfu hersveita þeirra. 

Fjöldi Palestínumanna sem grunaðir eru um að hafa aðstoðað ísraelsku leynilögregluna hefur verið tekinn af lífi án dóms og laga af vopnuðum palestínskum hópum. Yfirvöld á palestínsku sjálfstjórnarsvæðunum hafa látið undir höfuð leggjast að rannsaka þessi morð. Palestínsk yfirvöld hafa ekki sýnt neinn vilja til að tryggja virðingu fyrir lögum og rétti. Amnesty International hefur

ítrekað farið fram á að palestínsk yfirvöld rannsaki fjölda „mannshvarfa“ og mannrána sem viðgangast, sérstaklega á Gaza-svæðinu. Yfirvöld hafa hundsað þær beiðnir og enginn hefur verið sóttur til saka. Það refsileysi sem umlykur aðgerðir vopnaðra hópa á palestínsku sjálfstjórnarsvæðunum er mikið áhyggjuefni. Refsileysið sem vopnaðir hópar njóta viðheldur og ýtir undir ofbeldi og glæpi á svæðinu en yfirvöld hafa ekki tryggt lög og rétt. Refsileysismenningin

þarf að víkja fyrir skýrri ábyrgðarskyldu og virðingu fyrir mannréttindum.  

Öryggissveitir og vopnaðir hópar sem tengjast Fatah bera ábyrgð á alvarlegum mannréttindabrotum. Hundruð einstaklinga sem grunaðir eru um stuðning við Hamas hafa verið handteknir, pyndaðir og haldið án dóms og laga,

Íslandsdeild Amnesty International hvetur yður til að taka þessi mál upp í viðræðum yðar við Mahmoud Abbas og stuðla þannig að því að stjórn hans vinni gegn refsileysi, bindi enda á pyndingar, tryggi lögfestu og afnemi dauðarefsingar.

Með þessu bréfi fylgir nýleg skýrsla Amnesty International ásamt aðgerðabeiðni vegna yfirvofandi aftöku hins 23 ára gamla Tha´er Mahmoud Husni Rmailat. Íslandsdeild Amnesty International hvetur yður til að taka upp mál hans í viðræðum við Mahmoud Abbas og fara þess á leit að hann staðfesti ekki dauðadóminn og stöðvi aftökur á Vesturbakkanum.

Virðingarfyllst

 

Jóhanna K. Eyjólfsdóttir

Framkvæmdastjóri

Íslandsdeildar Amnesty International