ÁRSSKÝRSLA AMNESTY INTERNATIONAL 2008

Amnesty International skorar á þjóðarleiðtoga um heim allan að biðjast afsökunar á mannréttindabrotum í sex áratugi og helga sig á ný því verkefni að vinna að raunhæfum umbótum.

Amnesty International skorar á þjóðarleiðtoga um heim allan að biðjast afsökunar á mannréttindabrotum í sex áratugi og helga sig á ný því verkefni að vinna að raunhæfum umbótum.

Þörf er á tafarlausum aðgerðum á átakasvæðum heimsins, í Darfúr, Simbabve, Gasa, Írak og Mjanmar

 

Óréttlæti og ójafnrétti einkenna heim okkar um þessar mundir. Þeir sem brjóta mannréttindi eru ekki dregnir til ábyrgðar. Ríkisstjórnir verða að grípa til aðgerða strax til að brúa þá gjá sem er milli loforða og efnda.

 

Ársskýrsla Amnesty International 2008 sýnir að sextíu árum eftir að Sameinuðu þjóðirnar samþykktu Mannréttindayfirlýsinguna er fólk enn pyndað eða látið sæta illri meðferð í að minnsta kosti 81 landi, réttarhöld eru óréttlát í að minnsta kosti 54 löndum og fólk sætir skertu tjáningarfrelsi í að minnsta kosti 77 löndum.

Árið 2007 einkenndist af getuleysi vestrænna ríkisstjórna og tvöfeldni eða tregðu nývelda til að fást við ýmsa verstu mannréttindaneyð í heiminum, hvort sem um er að ræða langvarandi átök eða síaukið ójafnrétti þar sem milljónir manna eru afskiptar.

Amnesty International varar við því að versta ógnin við mannréttindi í framtíðinni er að sameiginlega sýn og forystu skortir.

 

Á árinu 2008 gefst einstakt tækifæri fyrir nýja leiðtoga, sem eru að komast til valda, og lönd, sem eru að komast til áhrifa á alþjóðavettvangi, að marka nýja stefnu og hafna þeirri þröngsýni sem hefur á undanförnum árum gert heiminn hættulegri og margklofnari.

Amnesty International hvetur stjórnvöld til að setja ný viðmið um sameiginlega forystu í málefnum er snerta meginreglur Mannréttindayfirlýsingarinnar.

 

Þeir sem valdið hafa verða að gefa gott fordæmi.

 

*   Kína verður að standa við loforð sín í mannréttindaefnum í tengslum við Ólympíuleikana og virða tjáningar- og fjölmiðlafrelsi og binda enda á „endurmenntun gegnum vinnu“[1].

*   Bandaríkin verða að loka Gvantanamó búðunum og leynilegum fangelsum á sínum vegum, sækja fanga sína til saka samkvæmt meginreglum um réttláta dómsmeðferð eða láta þá lausa, og hafna algjörlega að beita pyndingum og illri meðferð.

*   Rússland verður að umbera betur pólitískt andóf, og sýna ekkert umburðarlyndi gagnvart mannréttindabrotum í Tsjetsjeníu.

*   ESB verður að rannsaka aðild ríkja innan sambandsins að „framsali“ grunaðra hryðjuverkamanna og krefjast sömu virðingar fyrir mannréttindum af aðildarríkjum sínum og það gerir af öðrum ríkjum.

 

Þjóðarleiðtogar eru í afneitun, en aðgerðaleysi þeirra er dýrkeypt. Írak og Afganistan eru sönnun þess að mannréttindavandamál eru ekki einangraðir harmleikir, heldur eins og vírusar sem geta borið smit og breiðst út með skjótum hætti og stefnt okkur öllum í hættu.

Ríkisstjórnir verða núna að hafa sömu framtíðarsýn, hugrekki og staðfestu og þegar Sameinuðu þjóðirnar samþykktu Mannréttindayfirlýsinguna fyrir sextíu árum.

 

Krafa fólks um réttlæti, frelsi og jafnrétti verður sífellt háværari.

Þær myndir, sem hvað eftirminnilegastar eru frá 2007, sýndu munka í Mjanmar, lögfræðinga í Pakistan og kvenréttindakonur í Íran

Leiðtogar geta ekki horft fram hjá kröfum fólks um réttlæti, því ekki verður þaggað niður í öllu því fólki sem krefst mannréttinda.

Ársskýrsla Amnesty International 2008, kemur nú út á 60 ára afmæli  Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna sem samþykkt var þann 10. desember 1948.

Í ársskýrslunni er að finna  úttekt samtakanna á ástandi mannréttinda í heiminum og er þar fjallað um 150 lönd.

 

Ársskýrslan dregur upp mynd af eftirfarandi þróun:

 

*   Herir stjórnvalda og uppreisnarhópa ráðast gegn almenningi og sæta ekki refsingu fyrir;

*   Ofbeldi gegn konum er viðvarandi;

*   Pyndingar og ill meðferð eru viðurkenndar sem ásættanlegar aðferðir við upplýsingaöflun;

*   Andóf er bælt niður og árásir á fjölmiðlafólk og baráttufólk fyrir mannréttindum viðgangast; 

*   Flóttafólk, hælisleitendur og farandfólk nýtur ekki verndar;

*   Fólki er meinað að njóta efnahagslegra og félagslegra réttinda sinna; og

*   Fyrirtæki koma sér undan ábyrgð á mannréttindabrotum.

 

Amnesty International vekur einnig athygli á þeim árangri sem náðst hefur undanfarna sex áratugi, sérstaklega varðandi lagasetningu og nýjar stofnanir er lúta að mannréttindum; auknum stuðningi við afnám dauðarefsinga; réttarhöld alþjóðlega sakamáladómstólsins og dómstóla einstakra landa vegna ýmissa stríðsglæpa og glæpa gegn mannkyni.

[1] Endurmenntun gegnum vinnu er refsivist, sem lögregla getur beitt í allt að fjögur ár án undangenginnar ákæru, réttarhalda eða áfrýjunar í Kína.