Evrópa í afneitun

Amnesty International hefur miklar áhyggjur af því að enn hafa Evrópuríki ekki gripið til nauðsynlegra ráðstafana til að koma í veg fyrir aðild að fangaflugi og leynilegu varðhaldi.

Amnesty International hefur miklar áhyggjur af því að enn hafa Evrópuríki ekki gripið til nauðsynlegra ráðstafana til að koma í veg fyrir aðild að fangaflugi og leynilegu varðhaldi. Samtökin hvetja öll Evrópuríki til að framkvæma óháðar rannsóknir á aðild Evrópuríkja að þessum grófu mannréttindabrotum.

Amnesty International hefur gefið út ítarlega skýrslu sem ber heitið „State of denial: Europe’s role in rendition and secret detention“. Í skýrslunni er varpað ljósi á umfang aðildar Evrópuríkja að fangaflugi og leynilegu varðhaldi sem Bandaríkjamenn stunda.  Einnig er í skýrslunni fjallað um hvernig Evrópuríki hafa komið sér undan nákvæmum rannsóknum á aðild þeirra að brotunum. 

Horft undan

Evrópskar ríkisstjórnir eru í afneitun og neita að horfast í augu við þann sannleika sem við blasir. Aðild þeirra að fangaflugi og leynilegu varðhaldi er í fullkominni andstöðu við yfirlýsingar Evrópuþjóða um að virða skuli mannréttindi í baráttunni gegn hryðjuverkum.

Í skýrslunni er greint frá sex málum, þar sem þrettán einstaklingar koma við sögu. Í henni kemur fram að Evrópuríki hafa heimilað flugvélum á vegum bandarísku leyniþjónustunnar að nota evrópska flugvelli og veitt leyfi til leynilegrar varðhaldsvistar. Amnesty International krefst  þess að Evrópuríki horfist í augu við aðild sína og tryggi að þessi alvarlegu brot endurtaki sig ekki.

Komist undan ábyrgð

Æ fleiri sönnunargögn hafa komið fram  um hlut Evrópuríkja í ólöglegu fangaflutningakerfi Bandaríkjamanna og Evrópuríki verða að bregðast við og koma í veg fyrir frekari samsekt. Allir þeir þolendur sem Amnesty International hefur talað við hafa greint frá pyndingum og annarri illri meðferð. Þeir sem bera ábyrgð á mannránum og ólöglegum flutningum fanga hafa ekki verið sóttir til saka né sætt ábyrgð. Í sumum tilfellum hafa aðstandendur ekki vitað neitt um hvar eða hvort ástvinir voru í haldi. Á sama tíma og fulltrúar Evrópuríkja tóku þátt í yfirheyrslum í erlendum fangelsum þögðu þeir yfir afdrifum hinna handteknu.

Áætlun til úrbóta

Amnesty International hefur sett fram sex liða áætlun sem miðar að því að stöðva aðild evrópskra ríkisstjórna að ólöglegum fangaflutningum og leynilegum fangelsum. Samtökin hvetja allar ríkistjórnir til að fordæma fangaflug og leynilegt varðhald, láta gera óháða rannsókn á öllum þeim málum sem tengjast Evrópulöndum, tryggja eftirlit með leynilögreglu og heimila ekki flutninga á föngum um landsvæði sín. Auk þess eru Evrópuríki hvött til að  greiða fórnarlömbum skaðabætur. Meðal annarra tilmæla samtakanna eru sú krafa að allar flugvélar sem leita heimilda til að fljúga um evrópska lögsögu greini frá því hvort ófrjálsir menn séu innanborðs og ef svo er þarf að skýra frá því hver lagaleg staða þeirra er, hver áfangastaður vélarinnar er og hvaða heimildir liggja fyrir um flutningana. 

Mannréttindi verður að virða

Amnesty International leggur áherslu á skyldu yfirvalda að vernda fólk fyrir hryðjuverkaárásum, en slík vernd verður að byggja á mannréttindum, lögfestu og alþjóðalögum. Ólöglegt fangaflug og leynifangelsi grafa undan möguleikum á að þeir sem ábyrgð bera á hryðjuverkum verði sóttir til saka.

Þær ríkisstjórnir sem athafna sig í skugga og utan laga og rétta, grafa undan lögum og reglu, sem er sá grunnur sem raunverulegt öryggi byggir á.