Íslandsdeild Amnesty International hefur sent Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra bréf þar sem farið er fram á að íslensk yfirvöld endurskoði ákvörðun sína um að taka ekki til efnislegrar meðferðar mál Paul Ramses Odour frá Kenía sem sótti um hæli hér á landi.
Íslandsdeild Amnesty International hefur sent Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra bréf þar sem farið er fram á að íslensk yfirvöld endurskoði ákvörðun sína um að taka ekki til efnislegrar meðferðar mál Paul Ramses Odour frá Kenía sem sótti um hæli hér á landi. Með bréfinu fylgdi ítarleg skýrsla Amnesty International um aðbúnað hælisleitenda á Ítalíu. Skýrsluna er hægt að nálgast á slóðinni http://amnesty.org/en/library/info/EUR30/004/2005/en
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra
Dómsmálaráðuneytið
Skuggasundi
150 Reykjavík Reykjavík 03.07.2008
Háttvirti dómsmálaráðherra
Í ár eru sextíu ár liðin frá því að Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt. Í fjórtándu grein hennar segir: „Rétt skal mönnum vera að leita og njóta griðlands erlendis gegn ofsóknum.“ Réttur flóttamanna er tryggður í alþjóðasamningum og er þeirra mikilvægastur flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1951.
Ríkisstjórnir Evrópuríkja hafa á undanförnum árum þróað með sér sameiginlega stefnu í málefnum flóttamanna og gert ýmsar ráðstafanir sem takmarka aðgang flóttafólks að yfirráðasvæði þeirra. Amnesty International hefur ítrekað gagnrýnt að hin evrópska samvinna í málefnum flóttamanna þ.m.t. Dyflinnar-samkomulagið hefur leitt til þess að almenn viðmið framkvæmdaráðs Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna eru ekki í heiðri höfð. Samtökin hafa hvatt ríkisstjórnir til að tryggja að aðgerðir þeirra og stefna grafi ekki undan þeirri vernd sem flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna og aðrir alþjóðlegir mannréttindasamningar veita.
Það er mikið áhyggjuefni að íslensk yfirvöld taka æ færri hælisumsóknir til efnislegrar meðferðar og senda þess í stað hælisleitendur til þriðja lands. Á árinu 2007 voru 24 ákvarðanir teknar um endursendingu hælisleitenda á grundvelli Dyflinnar-samkomulagsins.
Íslensk yfirvöld hafa nú ákveðið að taka ekki til efnislegrar meðferðar beiðni Paul Ramses Odour frá Kenía sem sótt hefur um hæli hér á landi. Hann hefur nú verið sendur til Ítalíu, en aðbúnaður hælisleitenda þar hefur m.a. verið gagnrýndur af Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og Amnesty International.
Íslandsdeild Amnesty International hvetur íslensk stjórnvöld til að endurskoða ákvörðunina ekki síst í ljósi þess að með endursendingu Paul Ramses Odour til ítalíu hafa íslensk yfirvöld gengið á rétt nýfædds sonar hans til að njóta umönnunar beggja foreldra.
Virðingarfyllst
Jóhanna K. Eyjólfsdóttir
Framkvæmdastjóri
Íslandsdeildar Amnesty International
Hjálagt:
1) Temporary stay-Permanent rights: The treatment of foreign nationals detained in ´temporary stay and assistance centres´ (CPAs) EUR 30/004/2005
