Víða um heim er 17. júlí haldinn hátíðlegur sem dagur alþjóðlegs réttlætis (World Day for International Justice ) en það var á þessum degi árið 1998 sem Rómarsamþykktinni um Alþjóðlega sakamáladómstólinn var ýtt úr vör.
Fjölmargar konur komu saman í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna til að fagna stofnun Alþjóðlega sakamáladómsstólsins. Að stórum hluta er það baráttu kvenna að þakka að samkvæmt Rómarsáttmálanum er nauðgun og aðrir kynferðisglæpir skilgreindir sem stríðsglæpir og glæpir gegn mannkyni
Víða um heim er 17. júlí haldinn hátíðlegur sem dagur alþjóðlegs réttlætis (World Day for International Justice ) en það var á þessum degi árið 1998 sem Rómarsamþykktinni um Alþjóðlega sakamáladómstólinn var ýtt úr vör. Alls sammæltust hundrað og tuttugu ríki á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um nauðsyn þess að setja á laggirnar sjálfstæðan og varanlegan dómstól sem viðbót við dómskerfi einstakra ríkja. Sameinuðu þjóðirnar höfðu að vísu lengi haft í hyggju að stofna alþjóðlegt lagalegt afl er hægt væri að beita til að draga einstaklinga fyrir dóm sem framið höfðu þjóðarmorð eða glæpi gegn mannkyni. Nϋrnberg réttarhöldin sem haldin voru í kjölfar stríðshörmunga seinni heimstyrjaldarinnar, á árunum 1945 til 1949 voru hugsuð sem slíkt afl en þá var réttað yfir helstu valdamönnum í fyrrum Þýskalandi nasismans. Hugsjón alþjóðasamfélagsins sem kristallast átti í Nϋrnberg réttarhöldunum átti hins vegar ekki eftir að rætast. Rúmlega hálfri öld eftir áheit um að skelfingar stríðsins yrðu aldrei endurteknar, hafa þjóðarmorð og stríðsglæpir af verstu gerð margendurtekið sig. Stofnun Alþjóðlega sakamáladómstólsins hefur hins vegar vakið vonina um að ríki heims brúi nú frekar bilið á milli loforða og efnda í þessum efnum.
Alþjóðlegi sakamáladómstólinn hefur aðsetur í Haag, Hollandi. Hlutverk dómstólsins er að dæma í málum einstaklinga sem grunaðir eru um alvarlegustu glæpi gegn mannkyninu, þ.e. þjóðarmorð, glæpi gegn mannkyni, og stríðsglæpi og þannig koma í veg fyrir það refsileysi sem valdhafar hafa notið.
Hlutverk Alþjóðlega sakadómstólsins
Alþjóðlega sakamáladómstólnum er ætlað að dæma í málum einstaklinga sem gerst hafa sekir um glæpi gegn mannkyninu, þjóðarmorð og stríðsglæpi og þannig sporna við því refsileysi sem margir valdhafar hafa notið.
Ákveðið var að dómstóllinn tæki til starfa tveim mánuðum eftir að 60 ríki höfðu fullgilt samþykkt dómstólsins – Rómarsamþykktina. Síðustu fullgildingarnar sem til þurfti, áttu sér stað þann 11. apríl 2002 en Ísland var tíunda ríkið til að fullgilda Rómarsamþykktina þann 25. maí 2000. Í dag hafa 106 ríki fullgilt samþykktina sem svarar til rúmlega helmings alþjóðasamfélagsins.
Dómstóllinn hefur sjálfvirka lögsögu í málum er undir hann heyra, þ.e. óháða sérstöku samþykki viðkomandi ríkja. Skilyrði er þó að annaðhvort þegnríki sakbornings eða ríkið þar sem hið meinta brot var framið sé aðili að samþykktinni. Aðildarríki er þó heimilt að undanþiggja sig lögsögu dómstólsins að því er stríðsglæpi varðar til allt að sjö ára frá því að samþykktin öðlast gildi að því er það varðar.
Sérstakur saksóknari starfar samkvæmt samþykktinni og getur hann að eigin frumkvæði eða eftir tilvísun frá aðildarríki eða öryggisráði Sameinuðu þjóðanna hafist handa við að rannsaka og gefa út ákæru í málum er undir dómstólinn heyra. Samkvæmt samþykktinni er óheimilt að hefja eða halda áfram rannsókn eða saksókn í máli á eins árs tímabili eftir að öryggisráðið hefur beint ósk þar að lútandi til dómstólsins í formi ályktunar samkvæmt VII. kafla sáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Lögsaga Alþjóðlega sakamáladómstólsins er til fyllingar lögsögu einstakra ríkja til að saksækja og dæma í þeim málum sem hér um ræðir. Lögsaga dómstólsins verður því aðeins virk að viðkomandi ríki hafi sökum skorts á getu eða vilja látið undir höfuð leggjast að grípa til viðeigandi ráðstafana. Eins og áður sagði er Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn varanlegur og hefur almenna lögsögu og er því frábrugðinn alþjóðastríðsglæpadómstólunum í málefnum fyrrum Júgóslavíu og Rúanda sem hafa takmarkaða lögsögu bæði í tíma og rúmi.
Aðeins hálfur sigurinn unninn
Enda þótt ýmislegt hafi áunnist með stofnun Alþjóðlega sakamáladómsstólsins er sigurinn hvergi nærri unninn. Helstu áskoranir dómstólsins eru eftirfarandi;
– Enn eiga um það bil 90 ríki eftir að fullgilda Rómarsamþykktina.
– Mörg þeirra 106 ríkja sem hafa fullgilt samþykktina hafa enn ekki innleitt lagasetningu sem tilskilur fullt samstarf með dómstólnum. Þær lagasetningar sem teknar hafa verið upp innan landslaga ýmissa ríkja eru stórlega gallaðar.
– Aðeins örfá ríki hafa gengist við samkomulagi dómstólsins um að flytja fórnarlömb mannréttindabrota í örugg hýbýli eða vernda vitni sem eiga á hættu að týna lífi sínu.
– Fjöldi einstaklinga, sem Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn hefur gefið út handtökuskipan á, hefur enn ekki verið handtekinn og færður fyrir dóm.
Það er von Amnesty International að allar þjóðir heims fullgildi Rómarsamþykktina að Alþjóðlega sakamáladómstólnum og standi þannig vörð um mannréttindi og alþjóðlegt réttlæti.
