Í tilefni alþjóðadags til minningar um hina horfnu og ættingja þeirra, er vert að vekja athygli á þessu grófa mannréttindabroti sem teygir anga sína um allan heim.
„Þetta er það versta sem hent getur nokkra manneskju. Ef ástvinur deyr þá syrgir þú og góðvinir hughreysta þig. Smám saman lærir þú að sætta þig við missinn. Allt öðru máli gegnir hins vegar um ástvin sem horfið hefur sporlaust? það er sárasta kvölin.“
Þannig lýsir Amina Janjua frá Pakistan þeirri lamandi angist sem fylgir því þegar ástvinur er látinn hverfa og ættingum gert að lifa í algerri óvissu um afdrif hans. Eiginmaður Aminu, Masood Ahmed Janjua „hvarf“ í júlí 2005 fyrir tilverknað Pervez Musharraf, fyrrum forseta landsins, og ekkert hefur spurst til hans síðan. Tilfelli Masood er eitt 50.000 þvingaðra mannshvarfa sem vinnuhópur á vegum Sameinuðu þjóðanna hefur skráð frá árinu1980.[1] Það þýðir að fimm einstaklingar eru að meðaltali fórnarlömb þvingaðra mannshvarfa á degi hverjum.
Í tilefni alþjóðadags[2] til minningar um hina horfnu og ættingja þeirra, er vert að vekja athygli á þessu grófa mannréttindabroti sem teygir anga sína um allan heim.
Leyndin greiðir fyrir yfirhylmingu á frekari mannréttindabrotum
Þvinguð mannshvörf eru meðal alvarlegustu mannréttindabrota heims en skýrt er kveðið á um bann við slíkum brotum í alþjóðalögum[3]. Það kallast „þvingað mannshvarf“ þegar stjórnvöld svipta fólk frelsi sínu, halda því í leynilegu varðhaldi og neita að upplýsa um örlög þeirra eða dvalarstað, eða svipta það lífi.[4] Lagaleg vernd nær því ekki til „horfinna“ fanga sem eru einangraðir frá umheiminum og algjörlega á valdi gæslumanna sinna. Þeir hafa engan aðgang að lögfræðingum, ættmennum eða læknum. Þeim er oft haldið í langvinnu varðhaldi sem jafnan byggir á geðþóttaákvörðunum, án þess að þeir sæti ákæru eða komi fyrir dóm. Lögmæti handtöku og varðhalds er ekki metið af dómara eða sambærilegu yfirvaldi og fangarnir geta ekki mótmælt því. Engir óháðir aðilar, innlendir eða alþjóðlegir hafa eftirlit með aðstöðu og meðferð fanga. Leyndin sem ríkir yfir varðhaldinu greiðir aftur fyrir yfirhylmingu á frekari mannréttindabrotum sem þeir líða fyrir, m.a. pyndingum eða illri meðferð, og gerir stjórnvöldum kleift að skorast undan ábyrgð.
Þvinguð mannshvörf og leynilegt varðhald telst til illrar meðferðar og pyndinga, og er þá tekið tillit til þjáningar fanga sem geta ekki haft samband við utanaðkomandi m.a. fjölskyldumeðlimi, og vita ekki hvort að þeir verði nokkurn tímann frjálsir eða fái að sjá fjölskyldur sínar á ný. Það sama á við þær þjáningar sem fjölskyldur „horfinna“ einstaklinga þurfa að líða þegar þeim er neitað um vitneskju um örlög ættingja sinna. Slíkt brýtur jafnframt gegn banni við pyndingum og illri meðferð. Fjölskylda og vinir bíða oft í árafjöld, á milli vonar og ótta, eftir fréttum sem aldrei berast af ástvini sínum. Þau vita ekki hvort horfinn ástvinur snúi nokkru sinni til baka og geta hvorki syrgt né aðlagast missinum. Stundum tilkynna fjölskyldur ekki einu sinni mannshvarfið, annars vegar af ótta við hefndaraðgerðir stjórnvalda og hins vegar vegna algerrar afneitunar yfirvalda á tilvist hins horfna.
Fyrir utan brot á réttinum að vera hlíft við pyndingum og annarri illri meðferð, brjóta þvinguð mannshvörf á fjölda annarra mannréttinda, samanber rétt einstaklings á viðurkenningu fyrir lögum, rétt til frelsis og persónuöryggis, rétt til fjölskyldulífs, rétt til mannúðlegra aðstæðna í varðhaldi og réttinum til lífs, í þeim tilfellum sem hinir horfnu eru líflátnir. Í mörgum tilvikum má líta á þvingað mannshvarf sem glæp gegn mannkyninu.
Alþjóðlegur samningur gegn þvinguðum mannshvörfum
Á síðustu tuttugu og fimm árum, eða allt frá því að skráningar á þvinguðum mannshvörfum hófust, hafa pólitískar og félagslegar aðstæður ríkja verið breytilegar. Nú á dögum er algengt að þvinguð mannshvörf eigi sér stað meðal ríkja sem glíma við átök heima fyrir, samanber Kólumbíu, Sri Lanka, Nepal, Rússland, Filipseyjar , Íran,Úganda, Serbíu og Írak, svo fáein dæmi séu tekin. Þá má síst gleyma aðgerðum Bandaríkjamanna í hinu svonefndu „stríði gegn hryðjuverkum“ sem fela í sér þvinguð mannshvörf um allan heim, ólöglegt fangaflug í Evrópu og leynilega varðhaldsvistun á „svörtum stöðum“, þar sem pyndingum og annarri illri meðferð er beitt á kerfibundinn hátt. Meðal samstarfslanda Bandaríkjanna í stríðinu gegn hryðjuverkum er Pakistan en samkvæmt nýútkominni skýrslu Amnesty International, Denying the undeniable: Enforced disappearances in Pakistan[5], hafa a.m.k. 563 einstaklingar horfið frá júlí 2008, þeirra á meðal börn allt niður í níu ára gömul. Þetta er aðeins brotabrot af þeim fjölda sem þolað hefur þvinguð mannshvörf í Pakistan frá því stuðningur þarlendra stjórnvalda hófst við aðgerðir Bandaríkjamanna árið 2001.
En þessi dæmi eru engin nýmæli. Allt frá seinni helmingi tuttugustu aldar hafa þjóðir heims orðið uppvísar að þvinguðum mannshvörfum. Skýrasti vitnisburður þessarar sögu er Þýskaland nasismans þegar kanslari Þriðja ríkisins fyrirskipaði sérsveitum sínum að ryðja öllum andstæðingum úr vegi, bæði heimafyrir og í hernumdu löndum Evrópu. Þessi aðgerð var nefnd Nacht und Nebel á frummálinu með vísan í alla þá sem hurfu án viðvörunar við handtöku nasista. Sumir voru líflátnir á staðnum, en flestir voru sendir í hinar alræmdu útrýmingarbúðir Hitlers til að mæta þar örlögum sínum. Rúmum tuttugu árum síðar, á áratugnum 1970 til 1980, beittu hægri herforingjastjórnir ýmissa ríkja í Suður-Ameríku (Argentínu, Chile, Brasilíu, Bólívíu, Úrígvæ og Paragvæ) ámóta aðferðum í þeim tilgangi að losna við pólitíska andstæðinga og aðra þá er stjórnvöld töldu ógna öryggi ríkisins. Talið er að í aðgerðum þessum, sem nefndust Operation Condor, hafi tugum þúsunda einstaklinga verið rænt, þar á meðal börnum, þeir pyndaðir, haldið í leynilegu varðhaldi og/eða líflátnir. Margir ættingja fórnarlambanna fengu aldrei að vita um örlög þeirra og fáir herforingjanna voru dregnir til saka. Á níunda áratugnum tóku hins vegar margir ættingjanna saman böndum og stofnuðu frjáls félagasamtök til að þrýsta á um gerð alþjóðlegs samnings til verndar öllum gegn þvinguðum mannshvörfum. Baráttuhugur og þrotlaus vinna slíka samtaka, auk rannsóknarvinnu Amnesty International og fleiri félagasamtaka, skilaði sér loks í samþykkt alþjóðlegs samnings gegn þvinguðum mannshvörfum, á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þann 20.desember árið 2006.[6] Alls hafa sjötíu og þrjár þjóðir skrifað undir samninginn en meðal þeirra eru Argentína, Chile og Brasilía.
Samningurinn miðar að því að koma í veg fyrir þvinguð mannshvörf, sporna við refsileysi og tryggja fórnarlömbum og ættingjum þeirra skaðabætur. En samningurinn einn og sér mun ekki sporna við eða útrýma þvinguðum mannshvörfum. Til að hljóta fullgildingu verða a.m.k. tuttugu þjóðir að fullgilda samninginn en til þessa hafa aðeins fjögur ríki fylgt því eftir, þ.e. Albanía, Argentína, Mexíkó and Hondúras.
Ef vinna á gegn þessu grófa mannréttindabroti sem þvinguð mannshvörf eru og lina þjáningar fórnarlamba og fjölskyldna þeirra, verða þjóðir heims að sýna einhug og fullgilda hann án tafar. Íslensk stjórnvöld ættu að fylgja Danmörku og Svíþjóð að máli með því að undirrita alþjóðlegan samning gegn þvinguðum mannshvörfum og fullgilda hann hið fyrsta.
[1] Sjá frétt, UN News Center, http://www.un.org/apps/news/story.aps?NewsID=1996&cr=Disappeared&Crl=
[2] The International Day of the Disappeared
[3] Sjá meðal annars UN Declaration on the Protection of All Persons from Enforced Disappearance frá 1992.
[4] Alþjóðalög skylda ríki til að halda fólki sem svipt er frelsi sínu í opinberlega viðurkenndum fangelsum.
[5] http://www.amnesty.org/en/library/asset/ASA33/018/2008/en/d3e8181d-631c-11dd-9756-f55e3ec0a600/asa330182008eng.html
[6] The International Convention for the Protection of All Persons from Enforced Disappearance
