Hinn 6. desember árið 2006 var samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna ályktun 61/89, en með henni var hrundið af stað ferli sem miðar að gerð alþjóðasáttmála um vopnaviðskipti.
Hinn 6. desember árið 2006 var samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna ályktun 61/89, en með henni var hrundið af stað ferli sem miðar að gerð alþjóðasáttmála um vopnaviðskipti. Alls greiddu 153 lönd atkvæði sitt með samþykktinni sem vissulega var framfaraskref. Enn er þó langt í land og mikilvægt að minna ríkisstjórnir á að heimurinn fylgist grannt með framhaldinu, nú í aðdraganda fundar sem Afvopnunarnefnd Sameinuðu þjóðanna heldur á allsherjarþinginu í október næstkomandi.
Amnesty International birtir í dag skýrslu sem ber heitið, Blood at the Crossroads. Making the case for a global arms trade treaty. Í skýrslunni er brýnt fyrir leiðtogum heims að taka upp „Gullna reglu“ mannréttinda. Hún felur í sér kröfuna um að ríkisstjórnir komi í veg fyrir vopnaviðskipti þar sem hætta er á að vopn rati í hendur aðila sem virða að vettugi alþjóðleg mannréttinda- og mannúðarlög. Í skýrslunni er greint frá afleiðingum óhefts vopnafæðis til níu landa og gerð grein fyrir þeim áhrifum sem alþjóðasáttmáli um vopnaviðskipti getur haft til að koma í veg fyrir stórfelld mannréttindabrot. Skýrsla Amnesty International sýnir fram á að án skilvirkra mannréttindaákvæða mun alþjóðasáttmáli um vopnaviðskipti ekki ná að vernda þá sem eru berskjaldaðir fyrir mannréttindabrotum.
Gerð alþjóðlegs vopnaviðskiptasáttmála stendur nú á krossgötum. Ríkisstjórnir geta annað hvort haldið áfram að hunsa hinar skelfilegu afleiðingar ólöglegra vopnaviðskipta eða staðið við skyldur sínar með gerð alþjóðasáttmála um vopnaviðskipti sem byggir á hinni „Gullnu reglu“ mannréttinda. Með slíka reglu að leiðarljósi er alþjóðasamfélagið frekar í stakk búið að vernda líf fólks og afkomu.
Kína, Rússland og Bandaríkin eru meðal þeirra þjóða sem athyglinni er beint að í skýrslunni en þessar þjóðir stunda umfangsmikil vopnaviðskipti við lönd þar sem saga mannréttinda er blóði drifinn. Í skýrslunni eru tekin ítarleg dæmi frá Kólumbíu, Fílabeinsströndinni, Gvatemala, Gíneu, Írak, Mjanmar, Sómalíu, Súdan, Tsjad og Úganda, til að sýna fram á hvernig og hvers vegna „Gullna reglan“ er mikilvæg við gerð alþjóðasáttmála um vopnaviðskipti.
Nú þegar þykir ljóst að nokkur ríki, þeirra á meðal Kína, Egyptaland, Indland, Pakistan, Rússland og Bandaríkin, muni leggja sig í líma við að hindra gerð sáttmálans eða draga úr ýmsum mikilvægum ákvæðum hans. Þrátt fyrir að alþjóðasamfélagið sé að stærstum hluta hlynnt gerð alþjóðasáttmálans um vopnaviðskipti er enn til staðar sterkur minnihluti sem fer fram á óbreytt ástand þeirrar óreiðu sem gildir um eftirlit og reglur vopnaviðskipta
Tími sáttmála af þessu tagi er runnin upp. Í ár eru sextíu ár liðin frá því að Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt og af því tilefni ætti þjóðum heims að renna blóðið til skyldunnar að halda mannréttindi í heiðri. Árangursríkt samkomulag um hertar reglur og eftirlit með vopnaviðskiptum á alþjóðavettvangi yrði sannarlega stórt stökk í þá veru.
Hægt er að nálgast skýrsluna í heild sinni á http://www.amnesty.org/en/library/info/ACT30/013/2008/en
