Fyrrum samviskufangi heimsækir Ísland

Rússneski blaðamaðurinn og umhverfissinninn Grigory Pasko er væntanlegur til landsins þann 4.október næstkomandi en hann kemur í boði Íslandsdeildar Amnesty International.

Rússneski blaðamaðurinn og umhverfissinninn Grigory Pasko er væntanlegur til landsins þann 4.október næstkomandi en hann kemur í boði Íslandsdeildar Amnesty International en Háskólinn á Bifröst á einnig þátt í að gera heimsókn hans mögulega.

Haldið verður málþing í Norræna húsinu honum til heiðurs og til minningar um samstarfskonu Pasko í blaðamennsku, Önnu Politkovskaju, en hún var myrt þann 7.október fyrir tveimur árum.

Málþingið er öllum opið og hefst það klukkan 8:30 að morgni þriðjudagsins 7.október og lýkur klukkan 10:30. Eru allir, félagar og aðrir, hvattir til að mæta.

Grigory Pasko hefur starfað sem blaðamaður í 25 ár og helgað skrif sín ástandi mannréttinda- og umhverfismála í Rússlandi. Á þessum tíma hefur hann upplifað miklar breytingar í kjölfar Perestrojku Gorbatsjovs og falls Sovétríkjanna, aukið frelsi fjölmiðla og síðan aftur hertar reglur í valdatíð Pútíns. Sjálfur þurfti hann að þola harða varðhalds og vinnubúðavistun til nokkurra ára í heimalandi sínu fyrir það eitt að nýta sér grundvallarmannréttindi til tjáningar.

Árið 1993 starfaði Pasko sem blaðamaður fyrir dagblaðið Vojeva Vachta (Varðturninn) sem Kyrrahafsflotadeild rússneska hersins gaf út. Á þeim tíma varð hann vitni að því þegar rússneski flotinn varpaði kjarnorkuúrgangi í Japanshaf, þvert á alþjóðalög og reglur, og ákvað Pasko að kvikmynda atburðinn. Í kjölfar sýningar á myndinni víða um heim var Pasko handtekinn við heimkomu frá Japan árið 1997 og sakaður um njósnir og föðurlandssvik í rússneskum fjölmiðlum. Þann 25. desember árið 2001 var hann svo dæmdur í fjögurra ára vinnubúðavist af herrétti Kyrrahafsflotans. Hann afplánaði tvo þriðju af þeim dómi en sjálfur segir Pasko að stuðningur Amnesty International í formi lögfræðihjálpar og bréfaskrifa félaga hafi ráðið miklu um frelsun hans.

Pasko skrifaði tvær merkilegar bækur, Rauða svæðið og Hunangskökuna, sem fjalla um dvöl hans í fangelsi og vinnubúðavistun, en hann hefur jafnframt nýlokið við gerð kvikmyndar sem fjallar um umdeilda lagningu Nord Stream á gasleiðslu í gegnum Eystrasalt, en hið ríkisrekna Gasprom á 51 prósent hlutdeild í verkefninu.

Grigory Pasko hefur m.a. fengið mannréttindaverðlaun Human Rights Watch árið 2002 og í september 2007 hlaut hann þýsk friðarverðlaun sem kennd eru við rithöfundinn Erich Maria Remarque.