Athugasemdir Amnesty International vegna hugmynda um upptöku rafbyssa

Um mitt ár 2007 fékk Íslandsdeild Amnesty International upplýsingar um að íslensk lögregluyfirvöld hefðu til athugunar að lögreglan tæki til notkunar rafbyssur hér á landi.

Athugasemdir Amnesty International á Íslandi til embættis Ríkislögreglustjóra vegna athugunar lögreglu á upptöku rafbyssa.

Jónas Ingi Pétursson

Embætti Ríkislögreglustjóra

Skúlagata 21

150 Reykjavík

Reykjavík 21.10.2008

Um mitt ár 2007 fékk Íslandsdeild Amnesty International upplýsingar um að íslensk lögregluyfirvöld hefðu til athugunar að lögreglan tæki til notkunar rafbyssur hér á landi.

Í ljósi alvarlegra athugasemda Amnesty International við beitingu slíkra vopna sendu samtökin bréf hinn 10. júlí 2007 til Haraldar Johannessen ríkislögreglustjóra, Stefáns Eiríkssonar lögreglustjóra og Sveins Ingibergs Magnússonar formanns Landssambands lögreglumanna. Með bréfinu fylgdu tvær rannsóknarskýrslur Amnesty International: European Union: Stopping the Trade in Tools of Torture Pol 34/011/2007 og USA: Amnesty International´s continuing concerns about taser use AMR 51/030/2006.

Í umræddu bréfi var hvatt til þess að tekið yrði fullt tillit til niðurstaðna rannsókna Amnesty International við ákvörðun á notkun rafbyssa hér á landi.

Hinn 16. apríl 2008 sendi Íslandsdeild Amnesty International Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra bréf þar sem vakin var athygli hans á rannsóknum Amnesty International og gögnum um dauðsföll þar sem rafbyssur hafa komið við sögu einnig bentu samtökin í bréfinu á þá miklu hættu sem er á misnotkun rafbyssa

af hálfu lögreglu. Með bréfinu fylgdu fjórar rannsóknarskýrslur samtakanna:

European Union: Stopping the Trade in Tools of Torture Pol 34/011/2007,

USA: Amnesty International´s continuing concerns about taser use AMR 51/030/2006, USA: Amnesty International´s concerns about taser use: Statement to the U.S Justice Department inquiry into deaths in custody AMR 51/151/2007 og Canada: Inappropriate and exessive use of tasers, AMR 20/002/2007.

Hinn 17. september 2008 átti Jóhanna K. Eyjólfsdóttir framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International fund með Jónasi Inga Péturssyni hjá Ríkislögreglustjóraembættinu þar sem athugasemdir Amnesty International voru skýrðar. Þar var greint frá því að helstu rannsóknir samtakanna á notkun rafbyssa hafi beinst að notkun þeirra í Bandaríkjunum annars vegar og Kanada hins vegar. Greint var frá yfirstandandi rannsókn samtakanna sem nær til mun fleiri landa, en niðurstöðu þeirrar rannsóknar er að vænta síðar á þessu ári. Á fundinum kom fram beiðni um að Íslandsdeildin gerði skriflega grein fyrir helstu áhyggjuefnum Amnesty International. Íslandsdeildin hefur tekið saman helstu atriði sem samtökin hafa lýst áhyggjum yfir en ítreka nauðsyn þess að yfirvöld kynni sér ítarlegar skýrslur samtakanna sem vísað er í hér að ofan.

Íslandsdeild Amnesty International hvetur íslensk yfirvöld eindregið til að taka tillit til athugasemda Amnesty International við notkun rafbyssa og innleiða ekki notkun þeirra við löggæslustörf lögreglu á Íslandi fyrr en farið hefur verið að tilmælum alþjóðasamtakanna Amnesty International, sem koma fram í skýrslum samtakanna, um að fram fari ítarleg og óháð rannsókn á notkun rafbyssa og áhrifum þeirra.

Virðingarfyllst

Jóhanna K. Eyjólfsdóttir

Framkvæmdastjóri

Íslandsdeildar Amnesty International