Fólk sem lifir við mikla fátækt og hópar sem eru á jaðri samfélaga sætir alvarlegustu brotunum á efnahagslegum, félagslegum og menningar-legum réttindum, þar með talið réttinum til húsnæðis, fæðis, vatns og hreinlætis, svo og réttinum til heilsu og menntunar.
Bréf sent til utanríkisráðherra þar sem hvatt er til að Ísland styðji valfrjálsan viðauka við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra
Utanríkisráðuneytið
Rauðarárstíg 25
150 Reykjavík Reykjavík 24.10.2008
Háttvirti ráðherra
Íslandsdeild Amnesty International hvetur yður til að tryggja að Ísland lýsi yfir stuðningi á yfirstandandi allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna við valfrjálsan viðauka við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Viðaukinn felur í sér tækifæri fyrir einstaklinga til að leita réttar síns ef brotið er á þessum réttindum og fá umsagnir frá nefnd Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Viðaukinn er mikilvægt skref í þeirri viðleitni að tryggja aðgang að réttlæti fyrir þolendur mannréttindabrota. Fólk sem lifir við mikla fátækt og hópar sem eru á jaðri samfélaga sætir alvarlegustu brotunum á efnahagslegum, félagslegum og menningar-legum réttindum, þar með talið réttinum til húsnæðis, fæðis, vatns og hreinlætis, svo og réttinum til heilsu og menntunar. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna voru árið 1966 samþykktir tveir alþjóðlegir samningar sem eru sú meginstoð sem öll mannréttindavernd byggir á. Sama ár var gerður valfrjáls viðauki við annan samninginn þ.e. alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, aftur á móti er það ekki fyrr en nú, árið 2008, sem sambærilegur viðauki hefur verið gerður við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Öll mannréttindi eru samofin og innbyrðis háð, eins og kemur skýrt fram bæði í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og Vínar-yfirlýsingunni sem samþykkt var á mannréttindaþinginu í Vínarborg árið 1993. Valfrjálsi viðaukinn sem nú bíður samþykktar Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna mun tryggja að einstaklingar, sem halda því fram að brotið hafi verið á þeim, geti lagt erindi fyrir sérstaka nefnd Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Nefndin mun taka mál til umfjöllunar og koma sjónarmiðum sínum á framfæri við ríkið sem í hlut á og einstaklinginn eða þann hóp sem leggur fram málið. Íslandsdeild Amnesty International hvetur yður einnig til að leita eftir stuðningi annarra ríkja við viðaukann.
Virðingarfyllst
Jóhanna K. Eyjólfsdóttir
Framkvæmdastjóri
Íslandsdeildar Amnesty international
