Í kjölfar hryðjuverkaárásanna í Bandaríkjunum 11. september árið 2001 hafa aðgerðir ríkisstjórna víða um heim leitt til þess að grundvallarmannréttindum er fórnað í nafni „öryggis“.
Í kjölfar hryðjuverkaárásanna í Bandaríkjunum 11. september árið 2001 hafa aðgerðir ríkisstjórna víða um heim leitt til þess að grundvallarmannréttindum er fórnað í nafni „öryggis“. Bandarísk stjórnvöld hafa verið í fararbroddi þeirra ólögmætu aðgerða sem hið svokallaða „stríð gegn hryðjuverkum“ hefur fætt af sér. Aðgerðirnar eru afleiðing stefnu sem ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur bæði veitt leyfi fyrir og réttlætt, undir forystu Bush forseta. Nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, hefur bæði vald og getu til snúa blaðinu við í þágu mannúðar og réttlætis.
Amnesty International skorar á Barack Obama að fylgja „gátlista“ samtakanna eftir á fyrstu 100 dögum sínum í embætti og:
Loka Gvantanamó og binda enda á ólögmæta varðhaldsvistun.
Staðfesta að Bandaríkin ætli endanlega að loka fangabúðunum í Gvantanmó og setja dagsetningu á lokun þeirra.
Gefa út tilskipun um að binda endi á framsal og leynilega varðhaldsvist á vegum bandarískra yfirvalda hvar sem er í heiminum.
Nema úr gildi tilskipun frá 20. júlí 2007 sem veitir Leyniþjónustu Bandaríkjanna áframhaldandi leyfi til að stunda leynilegar yfirheyrslur og reka leynilegar varðhaldsstöðvar.
Nema úr gildi forsetatilskipun til hersins frá 13. nóvember árið 2001 sem lýtur að varðhaldsvistun svonefndra „ólögmætra bardagamanna”, meðferð þeirra í varðhaldi og réttarhöldum yfir þeim, í hinu svokallaða, „stríði gegn hryðjuverkum“.
Binda enda á herdómsstóla og sérstakar úrskurðarnefndir innan hersins sem eru óháðar öllum kvöðum sem lagðar eru á borgaralega dómstóla.
Tilkynna áætlun um réttláta málsmeðferð á Gvantanamó föngum og ákæru á hendur þeim og fela þá almenna réttarvörslukerfinu í Bandaríkjunum; að öðrum kosti skal sleppa þeim tafarlaust úr haldi og tryggja þeim fulla vernd gegn frekari mannréttindabrotum. Jafnframt skal tryggt að þessari áætlun sé nægilega fjármögnuð.
Tryggja að þeir Gvantanamó fangar sem eiga á hættu að sæta frekari mannréttindabrotum í heimalandi sínu, snúi þeir aftur þangað, fái tækifæri til að búa í Bandaríkjunum ef þeir svo óska. Einnig ætti nýkjörinn forseti Bandaríkjanna að vinna með ríkisstjórnum annarra landa að því marki að tryggja öðrum sambærilegum föngum samskonar vernd.
Skuldbinda ríkisstjórn Bandaríkjanna til að hverfa frá handahófskenndri frelsissviptingu og binda tafarlaust endi á andstöðu stjórnvalda við að tryggja Gvantanamó föngum þann grundvallarrétt að geta skotið handtöku sinni til dómstóla og fengið skorið úr um lögmæti hennar (habeas corpus).
Binda endi á pyndingar og aðra illa meðferð
Gefa út tilskipun þess efnis að Bandaríkin munu ekki undir nokkrum kringumstæðum grípa til pyndinga eða annars konar ómannúðlegrar eða vanvirðandi meðferðar, eins og slíkt er skilgreint í alþjóðalögum.
Tilkynna að bandarísk stjórnvöld muni ekki styðjast við upplýsingar sem fengnar eru með pyndingum eða annars konar illri meðferð, fyrir nokkrum dómi, nema gegn þeim sem sakaðir eru um pyndingar.
Skuldbinda sig til að vinna með þinginu að því að fjarlægja alla fyrirvara og takmarkandi túlkanir á pyndingum og annarri illa meðferð, eins og slíkir fyrirvarar og túlkanir koma fyrir í samþykktum Bandaríkjanna á mannréttindasamningum Sameinuðu þjóðanna. Þeirra á meðal eru alþjóðasamningur um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og samningur gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.
Aflétta leynd yfir öllum lagaálitum og öðrum gögnum þar sem fram koma sérstök leyfi og/eða fyrirskipanir um yfirheyrsluaðferðir fanga eða tilmæli um aðstæður þeirra í varðhaldi, og þar sem umræða kemur fram um hvort sú yfirheyrslutækni eða þær aðstæður sem getið er um í þessum gögnum séu í samræmi við alþjóðlegt bann gegn pyndingum eða annarri ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.
Binda enda á refsileysi
Tryggja opinbera rannsókn á áætlunum sem lúta að framsali og leynilegri varðhaldvist sem bandarísk stjórnvöld hafa ýtt úr vör eða stjórnvöld annarra landa fyrir Bandaríkin.
Hafna refsileysi fyrir glæpi sem bannaðir eru samkvæmt alþjóðalögum eins og pyndingar og önnur ill meðferð á föngum, eða þvinguð mannshvörf.
Tryggja að óháð nefnd sé sett á laggirnar sem rannsaki öll þau mál er tengjast leynilegu varðhaldi og yfirheyrslutækni, sem beitt hefur verið í hinu svokallaða „stríði gegn hryðjuverkum“.
Gera opinber nöfn, þjóðerni, dvalarstað, og aðstæður í varðhaldi allra þeirra sem þurft hafa að þola varðhaldsvist eða hafa verið fórnarlömb hvers kyns leynivarðhaldskerfa á vegum bandarískra yfirvalda.
Tilkynna að hin nýja ríkisstjórn muni tryggja að fórnarlömb mannréttindabrota sem bandarísk stjórnvöld hafa brotið á hljóti bætur, bæði í formi peninga og endurhæfingar.
Taktu þátt í aðgerð til að þrýsta á tilvonandi Bandaríkjaforseta að setja mannréttindi í öndvegi
