Þrýstingur félaga í skyndiaðgerðaneti Amnesty ber árangur: tölur frá 2008

Skyndiaðgerðabeiðnum Amnesty International fjölgaði um nítján á milli áranna 2007 og 2008 en alls voru 350 beiðnir til varnar fórnarlömbum mannréttindabrota gefnar út af Amnesty International.

Skyndiaðgerðabeiðnum Amnesty International fjölgaði um nítján á milli áranna 2007 og 2008 en alls voru 350 beiðnir til varnar fórnarlömbum mannréttindabrota gefnar út af Amnesty International. Líkt og undangengin ár tengdust flestar skyndiaðgerðarbeiðnirnar mannréttindabrotum í Íran eða 51 talsins, og bar þar hæst dauðarefsingar, handahófskenndar handtökur og grun um pyndingar eða aðra illa meðferð. Mexíkó og Bandaríkin fylgdu fast á hæla Íran hvað fjölda aðgerðabeiðna varðar. Í fyrra bárust 32 beiðnir vegna Mexíkó til félaga í skyndiaðgerðaneti Amnesty International, að megninu til vegna einstaklinga eða hópa sem bjuggu við ógn. Skyndiaðgerðabeiðnir vegna Bandaríkjanna voru 25 talsins árið 2008 og lutu flestar að dauðarefsingunni.

Fjöldi einstaklinga og hópa

Skyndiaðgerðabeiðnir vegna 12.770 manns voru sendar út til félaga Amnesty International árið 2008 en margir tilheyrðu hópum sem liðið höfðu mannréttindabrot. Má þar nefna hóp 147 einstaklinga í Rússlandi er sættu nauðungarflutningum, hóp 1400 einstaklinga sem fluttir voru nauðugir frá Egyptalandi til Erítreu og 400 manna hóp í Ísrael og á hernumdu svæðum Palestínumanna sem bjuggu við skert ferðafrelsi.

Langflestar skyndiaðgerðabeiðnirnar snertu þau mannréttindabrot sem Amnesty International hefur lengst af beitt sér gegn, það er dauðarefsingunni, fangelsun samviskufanga, einangrunarvist og pyndingum eða annarri illri meðferð. Nýleg viðfangsefni Amnesty International sem lúta að tengslunum á milli mannréttinda og fátæktar voru ekki fyrirferðamikil í skyndiaðgerðabeiðnum samtakanna árið 2008. Vonast er til að herferð um tengsl mannréttinda og fátæktar sem fyrirhugað er að ýta úr vör í maí á þessu ári, muni skapa vettvang fyrir skyndiaðgerðateymið til að beita sér enn frekar gegn mannréttindabrotum á sviði efnahagslegra-og félagslegra réttinda.

Áhrifamáttur skyndiaðgerða

Samkvæmt upplýsingum frá Amnesty International fengu samtals 78 skyndiaðgerðir jákvæða úrlausn eða því sem samsvarar 20% þeirra beiðna sem samtökin höfðu á sínum snærum árið 2008. Þar á meðal voru frestun á aftöku, náðun og lausn úr fangelsi. Áköll sem félagar í skyndiaðgerðaneti sendu út vegna 48 mála báru þó því miður ekki tilskilin árangur, þ.e.a.s. 13% beiðna féll í grýttan jarðveg og líflátsdómum var fylgt eftir.

Enda þótt úrbætur náist ekki alltaf í þeim málum sem skyndiaðgerðanetið fæst við er ljóst að áhrifamáttur skyndiaðgerða er mikill. Ekki má gleyma að á bak við hverja tölu um jákvæðan árangur skyndiaðgerðabeiðna er einstaklingur sem tekist hefur að forða frá mannréttindabrotum.

Góðar fréttir af einstaklingum

UA 323/08 (AMR 51/152/2008)

Bandaríkin: Darold J. Stenson

Dauðadómi yfir Darold J. Stenson var skotið á frest í Bandaríkjunum en fyrirhugað var að taka hann af lífi þann 3. desember síðastliðinn. Stenson hefur varið 14 árum á dauðadeild, en hann er sakaður um að hafa framið tvö morð árið 1993 í Clallam County, Washington.

Darold Stenson hefur haldið fram sakleysi sínu og sóst eftir því að dauðadómi yfir honum verði frestað á meðan að DNA rannsókn fer fram á vettvangi glæpsins. Dómarar í máli Stenson hafa boðað til réttarhalda í tengslum við erfðarannsóknina en áætlað er að þau fari fram þann 28. janúar næstkomandi.

Króatía: Drago Hedl

UA 329/08 (EUR 64/007/2008)

Þann 4. desember síðastliðinn beindist rannsókn lögreglu í Króatíu að manni sem grunaður er um að hafa sent morðhótanir til króatíska blaðamannsins Drago Hedl. Málið er til frekari rannsóknar hjá saksóknara í Osijek.

Drago Hedl nýtur ekki lengur lögregluverndar þar sem hann er ekki lengur talinn vera í bráðri hættu.

Íran: Reza Alinejad

UA 63/07 (MDE 13/173/2008)

Unglingurinn Reze Alinejad var leystur úr haldi þann 3. desember síðastliðinn en hann sat í varðhaldi í Adelabad fangelsinu í Shiraz, í suðvesturhluta Íran. Reza Alinejad var ákærður fyrir morðið á Esmail Daroudi í desember árið 2002, þegar sá fyrrnefndi var 17 ára gamall. Alinejad hefur alla tíð haldið því fram að hann hafi ekki myrt Daroudi af ásettu ráði.