Mannréttindasamtökin Amnesty International tóku á heimsþingi samtakanna árið 2003 ákvörðun um að andmæla notkun, vörslu, framleiðslu og flutningi á kjarnavopnum.
Um frumvarpið á vef Alþingis
Umsögn Íslandsdeildar Amnesty International um frumvarp um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja
Sent til Alþingis 30. mars 2009
Mannréttindasamtökin Amnesty International tóku á heimsþingi samtakanna árið 2003 ákvörðun um að andmæla notkun, vörslu, framleiðslu og flutningi á kjarnavopnum.
Samtökin hafa mótmælt notkun allra handahófskenndra vopna, svo sem jarðsprengja og klasasprengja. Kjarnavopn falla undir þá skilgreiningu en slík vopn þyrma engum sem fyrir þeim eða geislum frá þeim verður. Einnig hafa samtökin lagt áherslu á að gerður verði alþjóðlegur samningur sem tryggi að ríkara eftirlit verði með sölu og dreifingu vopna, með það að markmiði að koma í veg fyrir að vopn séu seld til landa þar sem hætta er á að þeim verði beitt í andstöðu við alþjóðleg mannréttinda-og mannúðarlög.
Íslandsdeild Amnesty International fagnar því framkomnu frumvarpi sem hefur það m.a. að markmiði að gera allt íslenskt yfirráðasvæði kjarnorkuvopnalaust og að stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu.
Íslandsdeild Amnesty International vill að gefnu tilefni hvetja Alþingi og ríkisstjórn til að taka með virkum hætti þátt í gerð alþjóðlegs vopnaviðskiptasamnings á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og tryggja að samningurinn endurspegli alþjóðlega viðurkennd mannréttinda- og mannúðarlög.
Virðingarfyllst
Jóhanna K. Eyjólfsdóttir
Framkvæmdastjóri
Íslandsdeildar Amnesty International
