Bréf Íslandsdeildar til dómsmálaráðherra vegna hælisleitenda

Í fjórtándu grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna segir: „Rétt skal mönnum vera að leita og njóta griðlands erlendis gegn ofsóknum.“ Réttur flóttamanna er tryggður í fjölmörgum alþjóðasamningum og er þeirra mikilvægastur flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1951.

Íslandsdeild Amnesty International hefur sent dómsmálaráðherra bréf þar stjórnvöld eru hvött til að endurskoða ákvörðun um að taka ekki til efnislegrar meðferðar hælisbeiðnir fimm hælisleitenda. Í bréfinu eru yfirvöld hvött til að nýta ákvæði Dyflinnar-samkomulagsins sem heimila að umfjöllun um hælisbeiðnir fari fram hér á landi. Amnesty International telur að aðbúnaður hælisleitenda í Grikklandi og möguleikar á réttlátri málsmeðferð sé mjög ábótavant. Sjá nánar bréfið hér að neðan.

Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra

Dómsmálaráðuneytið

Skuggasundi

150 Reykjavík                                                                   Reykjavík 31.03.2009

Háttvirti dómsmálaráðherra

Í fjórtándu grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna segir: „Rétt skal mönnum vera að leita og njóta griðlands erlendis gegn ofsóknum.“  Réttur flóttamanna er tryggður í fjölmörgum alþjóðasamningum og er þeirra mikilvægastur flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1951.

Ríkisstjórnir Evrópuríkja hafa á undanförnum árum þróað með sér sameiginlega stefnu í málefnum flóttamanna og gert ýmsar ráðstafanir sem takmarka aðgang flóttafólks að yfirráðasvæði þeirra. Amnesty International hefur ítrekað bent á að hin evrópska samvinna í málefnum flóttamanna, þ.m.t. Dyflinnar-samkomulagið, hefur leitt til þess að almenn viðmið framkvæmdaráðs Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna eru ekki í heiðri höfð. Samtökin hafa hvatt ríkisstjórnir til að tryggja að aðgerðir þeirra og stefna grafi ekki undan þeirri vernd sem flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna og aðrir alþjóðlegir mannréttindasamningar veita.

Það er mikið áhyggjuefni að íslensk yfirvöld taka æ færri hælisumsóknir til efnislegrar meðferðar og senda þess í stað hælisleitendur til þriðja lands. Á árinu 2008 var 28 hælisleitendum birt ákvörðun Útlendingastofnunar um endursendingu á grundvelli Dyflinnar-samkomulagsins.

Íslensk yfirvöld hafa nú ákveðið að taka ekki til efnislegrar meðferðar hælisbeiðnir fimm hælisleitenda. Tveir þeirra koma frá Írak, einn frá Albaníu og tveir frá Afganistan. Á grundvelli Dyflinnar-samkomulagsins er gert ráð fyrir að þessir hælisleitendur verði sendir til Grikklands og mál þeirra tekin til umfjöllunar þar.  Fjölmargar stofnanir og samtök leggjast gegn því að hælisleitendur séu sendir til Grikklands, þ.á.m. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Amnesty International og ECRE (European Council on Refugees and Exiles). Andstaða þeirra byggir á rannsóknum sem leitt hafa í ljós slæman aðbúnað hælisleitenda í Grikklandi og skerta möguleika á réttlátri meðferð sinna mála.  Amnesty International hefur ítrekað lýst yfir áhyggjum vegna aðbúnaðar og meðhöndlunar hælisleitenda í landinu og krafið grísk yfirvöld um úrbætur.[1]

Íslandsdeild Amnesty International hvetur íslensk stjórnvöld til að endurskoða ákvörðunina og nýta ákvæði Dyflinnar-samkomulagsins sem heimila að umfjöllun um hælisbeiðnir fari fram hér á landi. Íslandsdeild Amnesty International vill einnig hvetja yfirvöld til að tryggja að þeir hælisleitendur sem hingað koma í leit að skjóli fái réttláta málsmeðferð og komið sé í veg fyrir að þeir séu sendir til landa þar sem öryggi þeirra og réttindum er ógnað.

Jóhanna K. Eyjólfsdóttir

Framkvæmdastjóri

Íslandsdeildar Amnesty International

[1] Greece: No place for an asylum-seeker AI Index: EUR 25/002/2008