Myndin verður sýnd mánudaginn 18.maí í húsnæði Íslandsdeildar, Þingholtsstræti 27, þriðju hæð. Sýningin hefst klukkan klukkan 20. Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.
AMNESTY-BÍÓ. FÁTÆKT ER SKORTUR Á RÉTTLÆTI
„Fátækt er ekki náttúrulegt fyrirbæri, ekki frekar en þrælahald eða kynþáttaaðskilnaður. Fátækt verður til af manna völdum og það er á þeirra valdi að útrýma henni. Útrýming fátæktar er ekki góðverk heldur sjálfsagt réttlætismál. Þetta snýst um virðingu fyrir grundvallarmannréttindum, þ.e.a.s. réttinum til mannlegrar reisnar og mannsæmandi lífs.“
(Nelson Mandela, 2005)
Í tilefni af herferðinni, Krefjumst virðingar sem tekur á tengslum mannréttindabrota og fátæktar, ætlar Íslandsdeild Amnesty International að standa fyrir sýningu heimildamyndarinnar Poverty of Justice sem breska deild samtakanna lét framleiða fyrir skemmstu. Myndin verður sýnd mánudaginn 18.maí í húsnæði Íslandsdeildar, Þingholtsstræti 27, þriðju hæð. Sýningin hefst klukkan klukkan 20. Sýningin stendur öllum opin og er frítt inn.
Tilgangur myndarinnar er sá að sýna hvernig fátækt snýst um skort á réttlæti og heyra sögur raunverulegra einstaklinga er þolað hafa mannréttindabrot sem ýta undir og auka á fátækt.
Heimildarmyndin skiptist í þrjá hluta þar sem tekið er á ólíkum birtingarmyndum fátæktar og undirliggjandi mannréttindabrotum sem halda fólki í viðjum hennar. Meðlimir þriggja samfélaga sem búa á gerólíkum landsvæðum heimsins segja sögu sína með eigin röddu.
Fyrst er rætt við íbúa Djúp-sjávarbyggðar eða Deep Sea settlement sem lifa við sára fátækt í óformlegri byggð í Nairobi, höfuðborg Kenía, án aðgangs að grunnþjónustu. Íbúarnir þurfa iðulega að þola fyrirvararlausa nauðungarflutninga og eru jafnan hraktir af heimilum sínum að nóttu til, oft án þess að fá útvegað önnur húsaskjól.
Konur í Perú bíða við heilsugæslumiðstöð
Í Ccarhuacc-þorpinu í Perú deyr fjöldinn allur af konum á ári hverju af völdum vandkvæða á meðgöngu en mismunun í aðgengi að heilsugæslu er meginorsökin. Rætt er við meðlimi samfélagsins um þessa miklu vá sem auðveldlega er unnt að sporna við með pólitískum vilja, fjármagni og viðeigandi þjónustu.
Að síðustu er rætt við Lubicon Cree frumbyggja í Alberta-hérarði í Kanada sem glatað hafa lífsviðurværi sínu vegna olíu-og gasvinnslu fyrirtækja á landssvæði þeirra.
Herferð Amnesty International um tengsl fátæktar og mannréttindabrota
Í fyrstu grein Mannréttindayfirlýsingarinnar stendur að:
SÉRHVER MANNESKJA ER BORIN FRJÁLS OG JÖFN ÖÐRUM AÐ VIRÐINGU OG RÉTTINDUM.
Máttarstólpi hins alþjóðlega mannréttindakerfis hvílir í raun á þessum sannleika. Þó er þessi sannleikur ekki raunverulegur fyrir þá rúmlega 900 milljónir manna sem líður langvarandi hungur né heldur þann rúma miljarð sem býr í fátækrarhverfum eða óformlegum byggðum þar sem grunnþjónusta er engin. Eða þær 500.000 konur sem láta lífið á ári hverju af völdum vandkvæða á meðgöngu sem auðveldlega er unnt að sporna við ef aðgengi að bráðavakt er aðeins tryggt.
Og þetta er heldur ekki sannleikur fyrir rúmlega 100 milljónir barna (meira en helmingurinn eru stúlkur) sem hefur ekki aðgengi að grunnskólamenntun. Allt eru þetta mismunandi sjónarhorn á því að lifa í fátækt en sama lítilsvirðingin við mannlega reisn eða vöntun á virðingu. Fátækt er nefnilega skortur á réttlæti og þess vegna er fátækt mannréttindamál.
