Í nýrri skýrslu Amnesty International er greint frá neyð og stórfelldum mannréttindabrotum í óformlegum byggðum Nairobi.
Fylgstu með umfjöllun er herferðinni “Krefjumst virðingar” var hleypt af stokkunum
Í nýrri skýrslu Amnesty International er greint frá neyð og stórfelldum mannréttindabrotum í óformlegum byggðum Nairobi. Í skýrslunni, sem ber heitið Ósýnilegi meirihlutinn: tvær milljónir íbúa fátækrahverfa Nairobi (The Unseen Majority: Nairobi’s Two Million Slum Dwellers) er því lýst hvernig helmingur íbúa Nairobi býr í óformlegum byggðum á svæði sem nemur aðeins 5 prósentum af íbúabyggð í borginni og aðeins um 1 prósenti af öllu landsvæði borgarinnar.
Skýrslan er sú fyrsta í nýrri herferð samtakanna, Krefjumst virðingar (Demand Dignity), en herferðin, sem brýtur blað í sögu Amnesty International, miðar að því að afhjúpa og vinna gegn aðstæðum sem halda fólki í fátæktarfjötrum. Í Kenía er Amnesty International að virkja íbúa fátækrahverfanna til að „krefjast virðingar“ og sækja rétt sinn til viðunandi húsnæðis. Herferðin mun leggja þeim lið og krefjast aðgerða frá pólitískum leiðtogum Kenía.
Milljónir búa við ömurlegar aðstæður og njóta ekki grunnþjónustu, heldur sæta mismunun og lifa í óöryggi á jaðri samfélagsins.
Raddir þeirra heyrast ekki og þau eru ekki spurð eða jafnvel upplýst um ákvarðanir sem hafa áhrif á líf þeirra. Það er ekkert annað en mannréttindahneyksli.
Skýrslan lýsir því hvernig hver ríkisstjórn Kenía á fætur annarri hefur brugðist íbúum fátækrahverfanna og hvernig langvarandi vanræksla stjórnmálamanna hefur gert að verkum að óformlegar byggðir hafa þanist út og íbúar þeirra fallið í fátæktargildru. Amnesty International telur að mannréttindi séu lykillinn út úr þeirri gildru.
Í skýrslunni lýsa íbúar fátækrahverfanna lífi sínu, skortinum, hækkandi matvælaverði, skorti á heilsugæslu og menntun, yfirgangi stjórnvalda og stöðugri hættu á að vera bornir út af heimilum sínum. Fórnarlömbin segja að útburður fari oft fram að nóttu til eða í vondu veðri og ofbeldi sé oft beitt gegn íbúunum. Iðulega er lítill eða enginn fyrirvari að útburðinum og eigur fólks eyðilagðar um leið og heimili þeirra.
Í skýrslunni er greint frá því að 127.000 manns eiga yfir höfði sér að vera bornir út hvenær sem er í viðleitni stjórnvalda til að hreinsa vatnasvæði Nairobi-árinnar.
Þrátt fyrir að stjórnvöld hafi samþykkt nýja húsnæðisáætlun fyrir fjórum árum þar sem lofað var að innleiða réttinn til húsnæðis í áföngum hafa stjórnvöld enn ekki uppfyllt loforð sín um að sjá til þess að almenningur hafi aðgang að húsnæði á viðráðanlegu verði. Áætlanir um úrbætur í fátækrahverfum hafa tekið of langan tíma og skort fjármagn. Íbúar hverfanna segja að yfirvöld hafi ekki ráðfært sig nægilega við þá við innleiðingu þeirra.
Íbúar fátækrahverfa búa við mannréttindaneyð: þeir sæta fjárhagslegu ofríki leigusala, hótunum lögreglu, kúgun glæpagengja, njóta ekki grunnþjónustu, búa við öryggisleysi og hafa lítil áhrif á eigin framtíð. Amnesty International hvetur kenísk stjórnvöld til að:
• hætta með öllu að bera fólk út með valdi;
• innleiða viðmið í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög til að tryggja öryggi íbúa og koma í veg fyrir að þeir sæti geðþóttaákvörðunum um útburð;
• ráðfæra sig við íbúa fátækrahverfanna;
• auka samhæfingu stjórnarstofnana er fást við húsnæðismál og jarðnæði.
Löngu er kominn tími til að tryggja öllum íbúum óformlegra byggða og fátækrahverfa í Kenía fullnægjandi húsnæði og grunnþjónustu.
