Þúsundir mótmælenda sættu ofbeldi þegar þeir gengu um götur í Íran að loknum forsetakosningum, sem haldnar voru í landinu þann 12. júní síðastliðinn.
Þúsundir mótmælenda sættu ofbeldi þegar þeir gengu um götur í Íran að loknum forsetakosningum, sem haldnar voru í landinu þann 12. júní síðastliðinn. Mótmælendur andæfðu sigri sitjandi forseta, Mahmoud Ahmadinejad. Amnesty International hefur hvatt írönsk stjórnvöld til að hefja tafarlausa rannsókn á ofbeldi öryggissveita gegn mótmælendum.
Amnesty International hefur fregnir frá Íran að öryggissveitir klæddar sem óbreyttir borgarar hafi lamið friðsama mótmælendur með kylfum og hrakið þá á flótta. Margir slösuðust í aðgerðum öryggissveitanna.
Miklu skiptir að ofbeldi öryggissveitanna verði tafarlaust rannsakað og þeir, sem ábyrgð bera á mannréttindabrotum, látnir sæta ábyrgð.
Að minnsta kosti 170 voru handteknir eftir átök öryggissveita og mótmælenda við byggingu innanríkisráðuneytisins og önnur svæði í miðborg Teheran. Meðal hinna handteknu voru framámenn í stjórnmálum landsins, sem yfirvöld segja að hafi „skipulagt“ mótmælin. Sumir þeirra hafa nú verið leystir úr haldi.
Amnesty International hvetur írönsk yfirvöld til að tryggja að allir Íranir fái notið tjáningar-, fundar- og félagafrelsis síns. Engan á að handtaka fyrir að draga í efa niðurstöður forsetakosninganna og írönsk yfirvöld verða að bregðast við með augljósum hætti vegna áhyggna margra Írana um að svik hafi verið viðhöfð í forsetakosningunum.
Þó að háskólum hafi verið lokað hefur Amnesty International fregnir af því að um 100 óeirðalögreglumenn, með hjálma og skildi, hafi ráðist gegn um 300-400 stúdentum á svæði háskólans í Teheran. Öryggissveitir notuðu líka piparúða og táragas gegn mótmælendum á stúdentagörðum í Pol-e Gisha í Teheran og í Shiraz.
Annars staðar lömdu lögreglumenn á mótorhjólum fylgismenn forsetaframbjóðandans Mir Hossein Mousavi, sem fóru í setuverkfall á Vanak-torgi í Teheran til að mótmæla úrslitum forsetakosninganna.
Í kjölfar mótmælanna var aðgangur lokaður að YouTube, Facebook og öðrum sambærilegum vefmiðlum, sem og að ýmsum fréttaveitum á netinu. Talið er að sms-þjónusta hafi einnig verið takmörkuð. Á mörgum þessara miðla var fjallað um ágalla á framkvæmd kosninganna og að niðurstöðum þeirra hafi verið hagrætt.
Amnesty International telur að í stað þess að loka fyrir upplýsingaveitur eins og YouTube og Facebook eigi stjórnvöld að svara áhyggjum og gagnrýni margra íbúa Íran á gagnsæjan hátt.
Amnesty International hefur hvatt yfirvöld til að tryggja að dagblöð sem tengjast öðrum forsetaframbjóðendum fái leyfi til að birta yfirlýsingar þeirra og harmar að nýtt kjörtímabil hefjist með margvíslegum brotum. Samtökin telja alla þá, sem handteknir hafa verið fyrir það eitt að krefjast gagnsæis og draga í efa niðurstöður kosninganna, vera samviskufanga og að þá beri að leysa úr haldi tafarlaust og án skilyrða.
LESTU MEIRA
Iran’s presidential election amid unrest and ongoing human rights violations (News, 5 June 2009)
