Nýlega sendi Íslandsdeild Amnesty International utanríkisráðherra Íslands bréf, þar sem íslensk stjórnvöld eru hvött til að styðja áfram gerð alþjóðlegs vopnaviðskiptasamnings á vettvangi SÞ.
Nýlega sendi Íslandsdeild Amnesty International utanríkisráðherra Íslands bréf, þar sem íslensk stjórnvöld eru hvött til að styðja áfram gerð alþjóðlegs vopnaviðskiptasamnings á vettvangi SÞ.
Bréfið er hér að neðan:
—————————–
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra
Utanríkisráðuneytið
Rauðarárstíg 25
150 Reykjavík Reykjavík 25.06.2009
Háttvirti ráðherra
Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna starfar nú vinnuhópur að undirbúningi alþjóðlegs sáttmála um vopnaviðskipti, (The UN Open-Ended Working Group (OEWG)). Vinnuhópurinn, sem er opinn öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna, kemur næst saman dagana 13.til17. júlí í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York.
Ísland er eitt þeirra ríkja sem studdi á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna tillögu um gerð alþjóðlegs sáttmála um vopnaviðskipti.
Dag hvern um heim allan verður Amnesty International vitni að misbeitingu vopna, misbeitingu sem nærir átök, fátækt og mannréttindabrot, og tekur mikinn toll í mannslífum, afkomumöguleikum og tækifærum til að losna úr fátækt.
Á undanförnum árum hafa komið fram mjög alvarlegir vankantar á eftirliti og reglum um vopnaviðskipti. Farið er í kringum vopnaviðskiptabönn og vopn rata í hendur aðila sem virða að vettugi alþjóðleg mannréttinda- og mannúðarlög. Alþjóðasáttmáli um vopnaviðskipti mun skapa umgjörð sem stuðlar að því að vopn verði ekki seld til landa þar sem mannréttindabrot eru í hámarki og hætta á vopnuðum átökum.
Á fyrsta fundi vinnuhópsins, sem fram fór dagana 2. til 6. mars 2009, var hafist handa við að útfæra nánar umfang og gerð þeirra vopna sem sáttmálinn á að ná til svo og meginreglur sáttmálans. Við gerð þessa sáttmála getur skipt sköpum að þau ríki sem styðja gerð hans taki virkan þátt í öllum undirbúningi þannig að sáttmálinn þjóni örugglega þeim tilgangi sem vænst er af honum.
Íslandsdeild Amnesty International hvetur ríkisstjórn Íslands til að taka virkan þátt í gerð sáttmálans með þátttöku í vinnuhópnum. Amnesty International leggur megináherslu á að sáttmálinn byggi á mannréttinda- og mannúðarlögum og telja samtökin mikilvægt að Ísland taki þátt í gerð sáttmálans með þá áherslu að leiðarljósi.
Fundur vinnuhópsins í júlí er mikilvægt skef í átt að alþjóðlegum sáttmála um vopnaviðskipti. Íslandsdeild Amnesty International treystir því að íslensk stjórnvöld vinni með öðrum ríkjum að öflugum og áhrifaríkum sáttmála sem miðar að því að vernda almenna borgara með því að koma í veg fyrir flutning á vopnum og skotfærum til svæða þar sem líklegt er að þau stuðli að alvarlegum brotum á alþjóðalögum, sérstaklega mannréttinda- og mannúðarlögum.
Með þessu bréfi fylgir ítarleg skýrsla Amnesty International.[1] Í henni er að finna nánari útfærslur á tillögum samtakanna. Íslandsdeild Amnesty International vekur sértaka athygli á „Gullnu reglunni um mannréttinda- og mannúðarlög” sem samtökin telja að sáttmálinn verði að byggja á eigi hann að þjóna tilgangi sínum.
Virðingarfyllst,
Jóhanna K. Eyjólfsdóttir
Framkvæmdastjóri
Íslandsdeildar Amnesty International
[1] BLOOD AT THE CROSSROADS, MAKING THE CASE FOR A GLOBAL ARMS TRADE TREADY,
ACT 30/011/2008
—————————–
