Íslensk stjórnvöld hvött til að skrifa undir valfrjálsa bókun við alþjóðasamning

Íslandsdeild Amnesty International hvetur ríkisstjórnina til að tryggja að Ísland undirriti valfrjálsa bókun við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

Íslandsdeild Amnesty International hvetur ríkisstjórnina til að tryggja að Ísland undirriti valfrjálsa bókun við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

Íslandsdeild Amnesty International hefur sent forsætisráðherra, utanríkisráðherra, félags- og tryggingamálaráðherra, menntamálaráðherra og heilbrigðisráðherra samhljóða bréf þar sem farið er fram á að Ísland undirriti valfrjálsa bókun við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Bókunin er mikilvægt skref í þeirri viðleitni að tryggja aðgang að réttlæti fyrir þolendur mannréttindabrota. Fólk sem lifir í sárri fátækt og hópar sem eru á jaðri samfélaga sætir alvarlegustu brotunum á efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum, þar með talið réttinum til húsnæðis, fæðis, vatns og hreinlætis, svo og réttinum til heilsu og menntunar. Valfrjálsa bókunin sem allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna samþykkti hinn 10. desember 2008 mun tryggja að einstaklingar, sem halda því fram að brotið hafi verið á þeim, geti lagt erindi fyrir sérstaka nefnd Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Nefndin mun taka mál til umfjöllunar og koma sjónarmiðum sínum á framfæri við ríkið sem í hlut á og einstaklinginn eða þann hóp sem leggur fram málið

Aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna gefst nú kostur á að undirrita bókunina hinn 24. september 2009. Af því tilefni hvetur Íslandsdeild Amnesty International íslensk yfirvöld til að taka afstöðu með mannréttindum, undirrita og fullgilda bókunina og stuðla með því að aukinni vernd mannréttinda og virðingu fyrir þeim.

Til þess að bókunin gangi í gildi þurfa einungis tíu ríki að fullgilda hana. Íslandsdeild Amnesty International vonar að Ísland verði í farabroddi og veiti öðrum ríkjum mikilvægt fordæmi í mannréttindavernd.

Bréfið til íslenskra stjórnvalda:

 

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra

Forsætisráðuneytið

v/Lækjargötu

150 Reykjavík                                                           Reykjavík 03.09.2009

                                     

Efni: Undirritun Íslands við valfrjálsa bókun við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

                                                                     

Háttvirti ráðherra                                 

Íslandsdeild Amnesty International hvatti íslensk yfirvöld til að lýsa yfir stuðningi á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 2008 við gerð valfrjálsrar bókunar við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.[1] Það voru deildinni því mikil vonbrigði þegar þáverandi ríkisstjórn studdi ekki gerð þessa mikilvæga mannréttindaúrræðis. 

Bókunin gefur einstaklingum kost á að leita réttar síns ef brotið er á ofangreindum réttindum og fá umsagnir frá nefnd Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Bókunin er mikilvægt skref í þeirri viðleitni að tryggja aðgang að réttlæti fyrir þolendur mannréttindabrota. Fólk sem lifir í sárri fátækt og hópar sem eru á jaðri samfélaga sætir alvarlegustu brotunum á efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum, þar með talið réttinum til húsnæðis, fæðis, vatns og hreinlætis, svo og réttinum til heilsu og menntunar.

Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna voru samþykktir tveir alþjóðlegir samningar árið 1966 sem eru sú meginstoð sem öll mannréttindavernd byggir á. Sama ár var gerð valfrjáls bókun við alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Ísland fullgilti þá bókun 22. ágúst 1979. Aftur á móti var það ekki fyrr en árið 2008 að sambærileg bókun var gerð  við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Öll mannréttindi eru samofin og innbyrðis háð, eins og kemur skýrt fram bæði í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og Vínaryfirlýsingunni sem samþykkt var á mannréttindaþinginu í Vínarborg árið 1993. Valfrjálsa bókunin sem allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna samþykkti hinn 10. desember 2008 mun tryggja að einstaklingar, sem halda því fram að brotið hafi verið á þeim, geti lagt erindi fyrir sérstaka nefnd Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Nefndin mun taka mál til umfjöllunar og koma sjónarmiðum sínum á framfæri við ríkið sem í hlut á og einstaklinginn eða þann hóp sem leggur fram málið. 

Aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna gefst nú kostur á að undirrita bókunina hinn 24. september 2009. Af því tilefni vill Íslandsdeild Amnesty International hvetja íslensk yfirvöld til að taka afstöðu með mannréttindum, undirrita og fullgilda bókunina og stuðla með því að aukinni vernd mannréttinda og virðingu fyrir þeim.

Til þess að bókunin gangi í gildi þurfa einungis tíu ríki að fullgilda hana. Íslandsdeild Amnesty International vonar að Ísland verði í farabroddi og veiti öðrum ríkjum mikilvægt fordæmi í mannréttindavernd.

 

Virðingarfyllst

Jóhanna K. Eyjólfsdóttir

Framkvæmdastjóri

Íslandsdeildar Amnesty International

 

 

 

 

 

Samhljóða bréf sent:

Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra

Ögmundi Jónassyni heilbrigðisráðherra

Katrínu Jakobsdóttur menntamálaráðherra

Árna Páli Árnasyni félags- og tryggingamálaráðherra

[1] Optional Protocol to the International Covenant on Economic, Social, and Cultural Rights