Japan: geðsjúkir teknir af lífi

Stjórnvöld í Japan halda áfram að taka geðsjúka fanga af lífi, samkvæmt nýrri skýrslu Amnesty International.

Stjórnvöld í Japan halda áfram að taka geðsjúka fanga af lífi, samkvæmt nýrri skýrslu Amnesty International.

Skýrslan, sem ber heitið: Á bláþræði: geðheilsa og dauðarefsingin í Japan (Hanging by a thread: mental health and the death penalty in Japan) skoðar fimm mál þar sem geðsjúkir fangar bíða aftöku á dauðadeild.

Ekki er vitað hve margir fangar á dauðadeild þjást af geðsjúkdómum. Leyndarhjúpurinn kringum dauðarefsinguna og heilsu fanganna, ásamt því að óháðir geðlæknar fá ekki að leggja mat á ástand þeirra, hefur leitt til þess að menn neyðast til að styðja sig við vitnisburð annarra og skýrslur til að meta geðheilsu fanga á dauðadeild í landinu.

Stjórnvöld hafa þá stefnu að leyfa ekki heimsóknir til fanga á dauðadeild og neituðu Amnesty International um aðgang að föngunum þegar samtökin fóru fram á það.

Skýrsla Amnesty International leggur áherslu á mikilvægi þess að bæta aðbúnað í fangelsunum til að koma megi í veg fyrir að fangar verði alvarlega geðsjúkir meðan þeir bíða aftöku á dauðadeild.

Japan hefur skrifað undir alþjóðlega samninga sem banna að geðsjúkir séu teknir af lífi. Stjórnvöld í landinu brjóta gegn skuldbindingum sínum vegna þess að þau koma ekki í veg fyrir að geðsjúkir fangar séu teknir af lífi.

Fangelsi í Tókýó sem hýsir dauðadæmda

Þann 3. september 2009 voru 102 fangar á dauðadeild í Japan og biðu þess að stjórnvöld í landinu létu taka þá af lífi. Þegar öllum málarekstri fyrir dómstólum er lokið geta fangarnir verið teknir af lífi með nokkurra klukkustunda fyrirvara. Hver dagur getur orðið þeirra síðasti dagur.

Sumir fangar búa við þessar aðstæður ár eftir ár, stundum í áratugi.

Það jafngildir grimmilegri, ómannúðlegri og vanvirðandi refsingu að láta fanga búa við það um langa hríð að eiga aftöku yfir höfði sér hvenær sem er. Rannsóknir Amnesty International um heim allan sýna að geðsjúkir eiga sérstaklega á hættu að lenda á dauðadeild.

Geðsjúkdómar geta leitt fólk í afbrot, gert þann sem leiddur er fyrir rétt vanhæfari en aðra til að verja sig í réttarsal, og hafa umtalsverð áhrif á það hvort fangar ákveða að áfrýja máli sínu. Í Japan er einnig umtalsverð hætta á að fangar á dauðadeild verði alvarlega geðsjúkir meðan þeir eru í haldi á dauðadeild.

Í skýrslunni segir að Japan brjóti gegn skuldbindingum sínum samkvæmt samningnum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi með meðferð sinni á föngum á dauðadeild. Aðstæður í fangelsum eru erfiðar og fangar á dauðadeildum eiga sérstaklega á hættu að verða geðsjúkir vegna þess að þeim er haldið í einangrun og þeir eiga lítil samskipti við aðrar manneskjur.

Amnesty International hefur áhyggjur af því að föngum er ekki leyft að tala hver við annan. Fjölskyldur fanganna, lögfræðingar þeirra og aðrir fá oft ekki að hitta þá lengur en í fimm mínútur í hvert sinn.

Að frátöldum ferðum á salernið mega fangar ekki ganga um fangelsisklefann og verða að sitja. Fangar á dauðadeild hafa minna aðgengi en aðrir að fersku lofti og sólarljósi og líklegri en aðrir til að þola viðbótarrefsingar vegna hegðunar sem brýtur gegn þeim ströngu reglum sem þeim er gert að hlíta.

Aðstæður fanganna eru ómannúðlegar og auka kvíða og þjáningar þeirra og gera þá oft geðsjúka.

Í skýrslunni eru stjórnvöld í Japan hvött til að gefa út yfirlýsingu um aftökustopp og leggja drög að afnámi dauðarefsingarinnar. Stjórnvöld eru einnig hvött til að endurskoða öll mál þar sem geðsjúkir koma við sögu, tryggja að geðsjúkir fangar séu ekki teknir af lífi og bæta skilyrði fanga þannig að geðheilsa fanga líði ekki fyrir aðstæður í fangelsum.

Gríptu til aðgerða: geðsjúkir á dauðadeild í Japan