Ísland standi vörð um mannréttindi: bréf til utanríkisráðherra vegna allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna

Íslandsdeild Amnesty International vill vekja athygli á 64. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem stendur fram til desemberloka. Amnesty International hvetur íslensk stjórnvöld til að stuðla í hvívetna að framgangi mannréttinda á þinginu

Íslandsdeild Amnesty International sendi nýverið bréf til utanríkisráðherra í aðdraganda allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna þar sem hann er hvattur til að stuðla að framgangi mannréttinda á þinginu.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra

Utanríkisráðuneytið

Rauðarárstíg 25

150 Reykjavík                                                                                   Reykjavík 18.09.2009

Háttvirti ráðherra

Íslandsdeild Amnesty International vill vekja athygli á 64. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem stendur fram til desemberloka. Amnesty International hvetur íslensk stjórnvöld til að stuðla í hvívetna að framgangi mannréttinda á þinginu. Samtökin vilja vekja sérstaka athygli á nokkrum málaflokkum sem verða til umfjöllunar og Amnesty International leggur áherslu á að nái fram að ganga. Ríkisstjórn Íslands er m.a. hvött til að styðja eftirfarandi mál bæði í ræðum og yfirlýsingum í sameiginlegu þingi svo og í einstökum nefndum.

Ísland leggi áherslu á að beitt verði mannréttindanálgun í allri viðleitni til að útrýma fátækt og ná fram þúsaldarmarkmiðum Sþ.  Slík nálgun felur m.a. í sér aukna ábyrgðaskyldu alþjóðastofnana, ríkisstjórna og fyrirtækja. Tryggja þarf að þeir sem búa við fátækt taki fullan þátt í gerð og framkvæmd aðgerðaáætlana sem tengjast þúsaldarmarkmiðunum. Íslandsdeild Amnesty International hefur nú þegar hvatt stjórnvöld til að skrifa undir valfrjálsa bókun við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi sem ríkjum gefst kostur á að skrifa undir hinn 24. september. Fullgilding þeirrar bókunar er mikilvægur áfangi í baráttunni gegn fátækt.

Starf Sameinuðu þjóðanna í þágu kvenna verði styrkt, bæði skipulags- og fjárhagslega.

Ísland tryggi að málum einstakra landa verði ekki vísað frá í þriðju nefndinni. Þau lönd sem Amnesty International leggur sérstaka áherslu á að fjallað verði um eru Íran, Mjanmar og Srí Lanka.

Ísland er aðili að alþjóðlega sakamáladómstólnum og mikilvægt er að Ísland sýni dómstólnum og hlutverki hans stuðning með því að hvetja önnur ríki til að gerast aðilar að honum. Auk þess er mikilvægt að Ísland mótmæli öllum tilraunum til að grafa undan dómstólnum, þ.á.m. kröfum sem komið hafa fram um að dómstóllinn stöðvi rannsóknir á brotum.  

Ísland styðji tillögu þar sem pyndingar og önnur, grimmileg, ómannleg og vanvirðandi meðferð eða refsingar eru fordæmdar og bannaðar í öllum tilfellum. Auk þess leggur Amnesty International mikla áherslu á að virðing fyrir mannréttindum sé ætíð tryggð í öllum aðgerðum sem ætlað er að sporna gegn hryðjuverkum.

Ísland beiti sér fyrir skilvikum undirbúningi alþjóðlegs samnings um vopnaviðskipti og tryggi að hann verði byggður á alþjóðlegum mannréttinda- og mannúðarlögum. Markmið samningsins er að ríki heimili ekki flutning og sölu á vopnum til landa þar sem líklegt er að beiting þeirra leiði til alvarlegra brota á mannréttinda- og mannúðarlögum.

Ísland styðji tillögur sem lúta að óháðu og faglegu vali fulltrúa Mannréttindaráðsins. Til þess að ráðið geti uppfyllt skyldur sínar er óhjákvæmilegt að í það veljist einstaklingar sem uppfylla ýtrustu kröfur um þekkingu á mannréttindum og vernd þeirra.

Íslandsdeild Amnesty International vill auk þess vekja athygli á nauðsyn þess að öll viðbrögð alþjóðasamfélagsins við hinni svokölluðu fjármálakreppu byggi á mannréttindum.  Samtökin leggja áherslu á að á vettvangi Sþ verði gerður alþjóðlega bindandi samningur um ábyrgð fyrirtækja gagnvart mannréttindum og að komið verði á alþjóðlegu eftirlitskerfi með framferði alþjóðlegra fyrirtækja og fjármálastofnana gagnvart mannréttindum.

Það er ósk Íslandsdeildar Amnesty International að íslensk yfirvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að stuðla að aukinni mannréttindavernd. 

Virðingarfyllst

Jóhanna K. Eyjólfsdóttir

Framkvæmdastjóri

Íslandsdeildar Amnesty International