Íslensk stjórnvöld nýta ekki tækifæri til forystu í mannréttindamálum

Mannréttindasamtök fögnuðu þann 25. september undirskrift fjölmargra ríkja við valfrjálsa bókun, alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

Myndband um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi

 

Mannréttindasamtök fagna í dag undirskrift fjölmargra ríkja við valfrjálsa bókun, alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi[1]. Það eru mikil vonbrigði að Ísland er ekki í þeim hóp. Íslandsdeild Amnesty International hafði vonað að Ísland yrði í fararbroddi og veitti öðrum ríkjum mikilvægt fordæmi í mannréttindavernd.

Með undirskriftunum viðurkenna ríkin algildi mannréttinda. Tuttugu ríki: Argentína, Belgía, Chile, Ekvador, Finnland, Gabon, Gana, Gvatemala, Lúxemborg, Mali, Svartfjallaland, Holland, Portúgal, Senegal, Slóvakía, Slóvenía, Salómonseyjar, Spánn, Úkraína og Úrúgvæ skrifuðu undir bókunina.

Bókunin er mikilvægt skref í þeirri viðleitni að tryggja aðgang að réttlæti fyrir þolendur mannréttindabrota. Fólk sem lifir í sárri fátækt og hópar sem eru á jaðri samfélaga sætir alvarlegustu brotunum á efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum, þar með talið réttinum til húsnæðis, fæðis, vatns og hreinlætis, svo og réttinum til heilsu og menntunar. Ríkin tuttugu viðurkenna með undirskrift sinni að öll mannréttindi eru innbyrðis háð og skuldbinda sig til að uppfylla öll mannréttindi.

 

[1] Valfrjálsa bókunin sem allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna samþykkti hinn 10. desember 2008 mun tryggja að einstaklingar, sem halda því fram að brotið hafi verið á þeim, geti lagt erindi fyrir sérstaka nefnd Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Nefndin mun taka mál til umfjöllunar og koma sjónarmiðum sínum á framfæri við ríkið sem í hlut á og einstaklinginn eða þann hóp sem leggur fram málið.