Mannréttindabrot gegn ungu baráttufólki fyrir mannréttindum í Hvíta-Rússlandi

Ungt baráttufólk fyrir mannréttindum í Hvíta-Rússlandi sem dæmt var til „takmarkaðs frelsis“ fyrir að taka þátt í friðsamlegum mótmælum hefur sagt Amnesty International frá því hvernig stjórnvöld í landinu beittu sér gegn því og lögreglan reyndi að stjórna næstum öllu þeirra daglega lífi.

Tatyana Tishkevich, Ales Charnyshou, Mikhail Kryvau og Alyaksei Bondar © Private

Ungt baráttufólk fyrir mannréttindum í Hvíta-Rússlandi sem dæmt var til „takmarkaðs frelsis“ fyrir að taka þátt í friðsamlegum mótmælum hefur sagt Amnesty International frá því hvernig stjórnvöld í landinu beittu sér gegn því og lögreglan reyndi að stjórna næstum öllu þeirra daglega lífi.

Sjö ungt baráttufólk var í raun hneppt í stofufangelsi þegar það hlaut allt að tveggja ára dóma fyrir að taka þátt í friðsamlegum mótmælum til stuðnings litlum fyrirtækjum í Minsk í janúar 2008.

 

Fimm úr hópnum, þau Tatyana Tishkevich, Alyaksei Bondar, Mikhail Kryvau, Ales Straltsou og Ales Charnyshou hafa rætt við Amnesty International og tjáð hvernig yfirvöld meinuðu þeim að heimsækja vini og fjölskyldu og stunda menningar- eða félagslíf.

Hið „takmarkaða frelsi“  sem þau nutu var svo lítið frelsi í raun að þrír sjömenninganna hafa flúið Hvíta-Rússland.

 

„Ég þurfti alltaf að vera í íbúðinni minni nema þá átta tíma sem ég stundaði vinnu,“ sagði Mikhail Kryvau í bloggfærslu fyrir Amnesty International. „Ef lögreglan hringdi heim til mín og ég var einni mínútu of seinn að svara, fékk ég opinbera áminningu. Ef ég fengi þrjár slíkar áminningar beið mín fangelsisvist“.

Baráttufólkið var handtekið eftir að það mótmælti tilskipun forsetans um skatta og vinnulöggjöf fyrir lítil fyrirtæki. Mikhail Kryvau lýsir því á bloggi sínu hvernig hann var barinn áður en hann var dæmdur í 15 daga fangelsi.

„Við lágum á gólfinu með andlitin að gólfinu og lögreglan lamdi okkur og sparkaði í okkur hvað eftir annað með járnstyrktum stígvélunum. Við báðum lögreglumennina um að hætta en þeir gerðu það ekki. Þetta var hræðileg lífsreynsla.“

 

Tatyana Tishkevich flúði til Póllands eftir að henni var vikið úr háskóla fyrir stjórnmálastörf sín.

„Það var erfitt [að fara frá Hvíta-Rússlandi],“ segir hún. „Ég var lengi þunglynd, því ég vissi að ég myndi ekki hitta fjölskyldu mína og vini aftur. Einn kennarinn [í Póllandi] spurði mig hvernig ástandið væri í Hvíta-Rússlandi… ég gat engu svarað. Og ég gat ekki haldið aftur af tárunum.“

 

Alyaksei Bondar flúði til Moskvu fyrir meira en ári undan ofsóknunum. Hann sagði Amnesty International: „Ég er eftirlýstur og verð því að vinna ólöglega. Það er ekki mjög gaman að lifa svona og vita að ég geti verið handtekinn hvenær sem er fyrir þann „glæp“ að tjá skoðanir mínar með friðsamlegum hætti.“

Ef þetta baráttufólk snýr aftur til Hvíta-Rússlands á það á hættu að sæta allt að þriggja ára fangelsi fyrir að koma sér undan refsingu. Ales Charnyshou var um kyrrt í landinu og sætti afarkostum lögreglunnar.

„Ég var neyddur til að vera heima á hverjum degi eftir kl. 8 að kvöldi og allar helgar og opinbera frídaga; lögreglan hafði rétt til að koma hvenær sem er heim til mín eða í vinnuna til að athuga hvort ég væri þar.“ „Ef ég braut í minnsta gegn ákvæðum refsingarinnar, til dæmis með því að hitta vin yfir bjórglasi, fékk ég formlega áminningu.“

Þúsundir flykktust á götur út í Minsk þann 10. janúar 2008 til að mótmæla höftum Alyaksandr Lukashenka forseta gegn starfsemi smáfyrirtækja.

Upphaflega voru 14 dæmdir fyrir að „taka þátt í eða skipuleggja aðgerðir sem verulega raska almannareglu“. Sjö voru síðar náðaðir en dómar hinna eru enn í gildi.

Þó að dómari kveði upp úrskurð um „takmarkað frelsi“ getur viðkomandi lögreglumaður sem hefur málið til umsjónar ráðið skilyrðum frelsissviptingarinnar. Þetta leiðir oft til þess að skilyrðum er breytt að geðþótta lögreglunnar og erfitt er fyrir hinn dæmda að hlíta þeim.

 

„Takmarkað frelsi“ er ákveðið form fangelsisvistar og dómarnir gegn sjömenningunum brjóta gegn funda- og tjáningarfrelsi þeirra. Stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi verða nú þegar og skilyrðislaust að leysa Artsyom Dubski úr haldi og afnema allar frelsishömlur gegn hinu baráttufólkinu og leyfa þeim þremur er flúið hafa land að snúa aftur án þess að eiga á hættu að sæta frekari ákærum.

 

LESTU BLOGGFÆRSLUR BARÁTTUFÓLKSINS !

Read Mikhail Kryvau’s blog

 

Read Tatyana Tishkevich’s blog

 

Read Ales Charnyshou’s blog

 

Read Alyaksei Bondar’s blog