Árlegt bréfamaraþon Amnesty International var haldið í sjötta sinn um land allt dagana 12. til 15. desember síðastliðinn. Skemmst er frá að segja að bréfamaraþonið var mjög vel sótt og heppnaðist vonum framar.
Árlegt bréfamaraþon Amnesty International var haldið í sjötta sinn um land allt dagana 12. til 15. desember síðastliðinn. Skemmst er frá að segja að bréfamaraþonið var mjög vel sótt og heppnaðist vonum framar og skrifuðu þátttakendur um 3.000 bréf og póstkort. Víða tvöfaldaðist fjöldi þátttakenda sem skrifuðu bréf og kort; ýmist til yfirvalda sem brotið hafa mannréttindi eða til þolenda mannréttindabrota.
Í Reykjavík fór viðburðurinn meðal annars fram á skrifstofu Íslandsdeildar samtakanna og var hvert borð fullskipað. Góð stemming skapaðist meðal þátttakenda sem skrifuðu hátt í 1.200 bréf og kort á meðan veitinga og jólatónlistar var notið.
Frá bréfamaraþoninu á Akureyri
Á Akureyri var bréfamaraþonið haldið í fjórða sinn og fór það fram á Amtsbókasafninu eins og á síðasta ári. Að sögn skipuleggjanda var viðburðurinn einkar vel heppnaður og lagði fjöldi fólks leið sína á Amtsbókasafnið þar sem tónlistarmaðurinn Kristján Edelstein kom og spilaði jólatónlist á gítar sem skapaði skemmtilega stemmingu við skriftirnar. Akureyringar sýndu sannarlega stuðning sinn í verki við mannréttindabaráttu Amnesty International en á sjöundahundrað bréf og kort voru send þaðan í ár sem er tvöföldun frá því í fyrra.
Á Egilstöðum var bréfamaraþonið haldið á Jólakettinum í Barra 12. desember en fjöldi fólks sem lagði leið sína á markaðinn þennan dag tók þátt í ritun bréfa. Jafnframt bauðst tónleikagestum í Egilsstaðakirkju að skrifa undir bréf og kort á alþjóðlega mannréttindadaginn þann 10. desember síðastliðinn. Í það heila söfnuðust 250 undirskriftir á bréf og kort sem er hundrað prósent aukning frá því sem var árinu áður.
Sömu sögu má segja um þátttökuna á Ísafirði og í Höfn á Hornafirði sem fór fram úr björtustu vonum.
Á annan tug almenningsbókasafna víða um landið lögðu bréfamaraþoni samtakanna einnig lið, mörg hver í annað sinn þetta árið. Samkvæmt safnstjórum þeirra bókasafna sem tóku þátt voru gestir ánægðir með framtakið og skrifaði fjöldinn allur á aðgerðakort sem send verða til stjórnvalda sem brjóta á mannréttindum landa sinna. Bókasafnið í Kópavogi sló met þetta árið .
Íslandsdeild Amnesty International sendi öllu því góða fólki um land allt sem stóð að framkvæmd bréfamaraþonsins og þeim mikla fjölda sem tók þátt, innilegustu þakkarkveðjur fyrir að láta sig mannréttindi svo miklu varða.
Skoðaðu fleiri myndir frá bréfamaraþoninu !
