Amnesty International hefur enn á ný hvatt kínversk yfirvöld til að binda enda á ritskoðun á netinu eftir að netfyrirtækið Google vakti athygli á því að brotist hefði verið inn í netföng baráttufólks fyrir mannréttindum.
Amnesty International hefur enn á ný hvatt kínversk yfirvöld til að binda enda á ritskoðun á netinu eftir að netfyrirtækið Google vakti athygli á því að brotist hefði verið inn í netföng baráttufólks fyrir mannréttindum.
Google segir að tölvuþrjótar hafi ráðist gegn netföngum kínversks baráttufólks fyrir mannréttindum og hefur kallað eftir fundi eins fljótt og auðið er með stjórnvöldum í Kína til að ræða ritskoðun og áætlanir fyrirtækisins um að fjarlægja síunarhugbúnað úr kínverskri leitarvél fyrirtækisins.
Mörg netfyrirtæki í Kína, þar á meðal Google, hafa áður gengist undir skilyrði stjórnvalda um ritskoðun, sem fela meðal annars í sér að ýmis „viðkvæm“ vefsvæði koma ekki upp við netleit.
Það er mikið áhyggjuefni að reynt skuli hafa verið að brjótast inn á netföng baráttufólks, en Google hefur tekið skref í rétta átt með því að koma fram opinberlega með áhyggjur fyrirtækisins af brotum gegn friðhelgi einkalífs og tjáningarfrelsi viðskiptavina þeirra. Einnig er gleðiefni að fyrirtækið hafi bent á að fólk þarf að geta fengið óritskoðaðar upplýsingar. Amnesty International vonar að önnur fyrirtæki muni einnig stíga fram og gagnrýna ritskoðun stjórnvalda í Kína.
Samtökin hafa áður hvatt fyrirtæki sem starfa í Kína að virða tjáningarfrelsi netnotenda og eiga ekki í samvinnu við yfirvöld um að ritskoða netið og takmarka upplýsingaflæði.
Kína rekur umfangsmikið ritskoðunarkerfi þar sem ákveðin orð og viðkvæm málefni sæta vefsíun, sem veldur því að ekki er hægt að leita að upplýsingum um ákveðin efni. Einnig loka kínversk stjórnvöld algerlega á aðgang að mörgum stórum vefsíðum, þar á meðal mannréttindasíðum eins og Amnesty International, sem fjalla um efni er stjórnvöld telja pólitískt viðkvæm.
Baráttufólk fyrir mannréttindum og aðrir einstaklingar hafa sætt löngum fangelsisdómum fyrir að setja upplýsingar á netið.
Baráttumaðurinn Liu Xiaobo var dæmdur í 11 ára fangelsi fyrir stjórnmálaskrif og fyrir þátttöku í Charter 08, netáskorun um lýðræðisumbætur og virðingu við mannréttindi í Kína.
Í apríl 2005 var kínverski blaðamaðurinn Shi Tao Shi Tai dæmdur í 10 ára fangelsi fyrir að „koma upplýsingum um ríkisleyndarmál á ólöglegan hátt til erlendra aðila. Kínversk yfirvöld fengu upplýsingar um Shi Tao úr tölvupóstum hans sem Yahoo veitti aðgang að og notuðu þær til að ákæra Shi Tao.
Mikilvægt er að netleitarfyrirtækið viðurkennir að ritskoðun kínverskra stjórnvalda er ekki í þágu viðskiptavina fyrirtækisins og eflir ekki tjáningarfrelsi og rétt til upplýsinga.
