Lýðveldið Kongó: hætta verður ofsóknum gegn baráttufólki fyrir mannréttindum

Amnesty International hvetur stjórnvöld í Lýðveldinu Kongó til að vernda baráttufólk fyrir mannréttindum, sem mega sæta geðþóttahandtöku öryggissveita og sífelldum líflátshótunum.

Amnesty International hvetur stjórnvöld í Lýðveldinu Kongó til að vernda baráttufólk fyrir mannréttindum, sem mega sæta geðþóttahandtöku öryggissveita og sífelldum líflátshótunum.

Í nýrri skýrslu, sem ber heitið „Human Rights Defenders under attack in the Democratic Republic of Congo“, skýrir Amnesty International frá ofsóknum á hendur átta þekktum baráttumönnum fyrir mannréttindum í Kongó. Búast má við að þær ofsóknir magnist í aðdraganda þing- og forsetakosninga árið 2011.

Stjórnvöld í Lýðveldinu Kongó verða að tryggja tjáningarfrelsi í landinu og vernda baráttufólk fyrir mannréttindum í landinu gegn hótunum, geðþóttahandtökum og árásum. Margt baráttufólk er handtekið fyrir það eitt að tala máli annarra.

 

Golden Misabiko, yfirmaður Katanga-deildar mannréttindasamtaka í landinu, var handtekinn af leyniþjónustu landsins í júlí 2009 eftir að samtökin birtu skýrslu þar sem því var haldið fram að liðsmenn öryggissveita landsins tengdust ólöglegum námagreftri á mjög geislavirku úrani og öðrum málmum í Shinkolobwe-námunni í Katanga-héraði.
Hann var í varðhaldi í næstum mánuð og síðan dæmdur í eins árs fangelsi, þar af átta mánuði skilorðsbundna, fyrir að hafa „birt ósannar upplýsingar“. Lögfræðingar Golden Misabiko reyna nú að fá þeim dómi hnekkt. Hann mátti þola miklar líkamlegar og andlegar kvalir vegna skelfilegra aðstæðna í fangelsinu.

 

Robert Ilunga

 

Leyniþjónusta landsins handtók Robert Ilunga, forsvarsmann mannréttindasamtaka í Kinshasa, og hélt honum í einangrun í níu daga í september 2009 eftir að samtök hans sendu út fréttatilkynningu þar sem vinnuskilyrði verkamanna í malarnámi í Kasangulu í Bas-Congo-héraði voru harðlega gagnrýnd.

Leyniþjónusta landsins handtekur oft baráttufólk fyrir mannréttindum í Lýðveldinu Kongó, hneppir það í varðhald og ógnar því. Amnesty International fær reglulega fréttir af pyndingum og annarri illri meðferð í varðhaldsmiðstöðvum leyniþjónustunnar.

Einn baráttumaður fyrir mannréttindum í Kongó sagði Amnesty International nýverið: „Ég veit ekki hversu mikið lengur ég get þolað álagið og andlegar þjáningar vegna þessara hótana, en ég stenst á hverjum degi þá freistingu að hverfa aftur til venjulegs lífs með fjölskyldu minni, af því að ég neita að láta þagga niður í mér með hótunum“.

Baráttufólk fyrir mannréttindum í Kongó hefur tjáð Amnesty International að árásum og handtökum hafi fjölgað mjög árið 2009. Eftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna (SÞ) í landinu hafa tekið undir þetta.

 

Mörg ríki hafa lýst áhyggjum vegna stöðu baráttufólks fyrir mannréttindum í Lýðveldinu Kongó og lagt tillögur fyrir stjórnvöld í landinu við alþjóðlegu reglubundnu endurskoðunina á Lýðveldinu Kongó á vegum Sameinuðu þjóðanna (UN’s Universal Periodic Review of the DRC) sem fram fór í Genf í desember 2009.

Sú endurskoðun er tækifæri fyrir Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna til að rannsaka ástand mannréttinda í öllum aðildarríkjum SÞ. Hvert land sætir endurskoðun á fjögurra ára fresti til að tryggja að ríki uppfylli allar mannréttindaskuldbindingar sínar.

 

Stjórnvöld í Kongó hafa gefið til kynna að þau styðji tillögur alþjóðlegu reglubundnu endurskoðunarinnar um frekari aðgerðir og betri löggjöf til að tryggja réttindi baráttufólks fyrir mannréttindum og fjölmiðlafólks í landinu.

 

Amnesty International hvetur stjórnvöld í landinu til að gera þær breytingar eins fljótt og auðið er.

 

LESTU MEIRA:

Democratic Republic of Congo: Human rights defenders under attack in the Democratic Republic of Congo: campaign digest