Amnesty International gagnrýnir hómófóbíska löggjöf í Litháen

Síðastliðið sumar samþykkti litháíska þingið afar umdeild lög um „verndun ungmenna gegn skaðlegum opinberum upplýsingum“ (Law on the Protection of Minors against the Detrimental Effects of Public Information).

Síðastliðið sumar samþykkti litháíska þingið afar umdeild lög um „verndun ungmenna gegn skaðlegum opinberum upplýsingum“ (Law on the Protection of Minors against the Detrimental Effects of Public Information).

Löggjöfin sem tók gildi 1. mars 2010 bannar meðal annars dreifingu á opinberum upplýsingum um réttindi samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og trans einstaklinga.

Amnesty International skorar á stjórnvöld í Litháen að fjarlægja allar takmarkanir, sem kveðið er á um í lögunum, á dreifingu upplýsinga um réttindi hinsegin fólks. Að mati Amnesty International stríða lögin bæði gegn alþjóðlegum og svæðisbundnum mannréttindasamningum. Lögin skerða tjáningarfrelsi og vanvirða bann við mismunun, auk þess sem þau kynda undir fordóma í garð samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og trans einstaklinga. Evrópuþingið hefur gagnrýnt lögin og líta má á þau sem alvarlega tímaskekkju í ljósi reglna Evrópusambandsins um bann við mismunun.

Í sinni upphaflegu mynd lagði löggjöfin blátt bann við allri umfjöllun „sem rekur áróður samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og trans einstaklinga á opinberum vettvangi, í fjölmiðlum eða skólum, er skaða kunna eðlilegan þroska ungmenna undir 18 ára aldri“, eins og sagði í lögunum. Í framhaldi af alþjóðlegri gagnrýni og efasemdum sem forseti landsins vakti máls á var lögunum breytt þann 28. desember 2009. Allar beinar tilvísanir í bann við kynningu á samkynhneigð hafa verið fjarlægðar. Engu að síður banna lögin að upplýsingum sé komið á framfæri við börn undir 18 ára aldri, sem „kasta rýrð á fjölskyldugildi“ eða sem „ýta undir hugmyndir um hjónaband eða fjölskyldueiningu af öðrum toga en kveðið er á um í stjórnarskrá Litháen”.  Hjónaband er skilgreint sem eining karls og konu í litháískum lögum. Með nýju lögunum  er öll opinber kynning á sambúð samkynhneigðra eða stuðningur við jafnrétti til hjúskapar með öllu bönnuð.