Bréf til utanríkisráðherra Íslands vegna Þúsaldarmarkmiða um þróun

Íslandsdeild Amnesty International vill vekja athygli á fyrirhuguðum fundi Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um Þúsaldarmarkmið um þróun. Hann verður haldinn dagana 20. til 22. september 2010.

Íslandsdeild Amnesty International sendi utanríkisráðherra bréf vegna fyrirhugaðs fundar Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um Þúsaldarmarkmiða um þróun.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra

Utanríkisráðuneytið

Rauðarárstíg 25

150 Reykjavík                                                    Reykjavík 02.03.2010

Háttvirti ráðherra,

Íslandsdeild Amnesty International vill vekja athygli á fyrirhuguðum fundi  Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um Þúsaldarmarkmið um þróun. Hann verður haldinn dagana 20. til 22. september 2010. Á fundinum er ætlunin að skoða ógnir, tækifæri, bestu leiðir og lærdóm sem leitt geta til raunhæfrar aðgerðaáætlunar til að uppfylla Þúsaldarmarkmiðin.

Á síðasta ári hleypti Amnesty International af stokkunum nýrri alþjóðlegri herferð sem ber heitið „Demand Dignity ” eða  Krefjumst virðingar.  Samtökin beina nú sjónum að réttindum þeirra sem búa við fátækt og tengslum mannréttindabrota við fátækt.  

Amnesty International leggur áherslu á að ríkisstjórnir allra landa tryggi að lög, reglugerðir og áætlanir sem ætlað er að draga úr fátækt séu í fullu samræmi við alþjóðlegar mannréttindakröfur.

Ísland hefur stutt yfirlýsingar og aðgerðaáætlanir á alþjóðavettvangi sem leggja áherslu á vernd mannréttinda sem forsendu þróunar. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur lýst  yfir mikilvægi þess að mannréttindi og þróunarmál haldist í hendur.  

Í ályktun Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2005 segir að grundvöllur allra framfara í þróun sé jafnrétti kynjanna, efling og vernd allra mannréttinda og grundvallarfrelsis.[1] Í Accra aðgerðaáætluninni um skilvirkt þróunarstarf er lögð áhersla  á að áætlanir um þróunarstarf séu í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar ríkja og tryggi kynja-jafnrétti, mannréttindi, sjálfbæra þróun og réttindi fatlaðra.[2]

En þrátt fyrir ofangreindar yfirlýsingar og þau mikilvægu skref sem Sameinuðu þjóðirnar og sum ríki hafa stigið til samþættingar mannréttinda og áætlana gegn fátækt er enn gjá á milli vilja og verka.  Mikilvægi mannréttinda er viðurkennt en þeim hefur ekki verið beitt í aðgerðum er lúta að uppfyllingu Þúsaldarmarkmiða um þróun.

Mannréttindabrotum sem grafa undan Þúsaldarmarkmiðunum um þróun eru ekki gefin nægilegur gaumur. Takmarkaður árangur hefur náðst í lækkun dánartíðni vegna barnsburðar (Þúsaldarmarkmið 5).  Í mörgum tilfellum má rekja slík dauðsföll til mannréttindabrota á borð við barnahjónabönd og ágalla í lagagerð um lágmarksaldur giftinga, svo og skort á virðingu fyrir kyn- og frjósemisréttindum.  Flestar áætlanir tengdar Þúsaldarmarkmiðunum um þróun byggja ekki á alþjóðlega viðurkenndum mannréttindum sem dregur úr líkum á raunverulegum árangri. Allar aðgerðir sem ætlað er að draga úr fátækt verða að  taka á mismunun, stuðla að jafnrétti og leggja fullnægjandi áherslu á lausnir fyrir þá sem lifa á jaðri samfélagsins. Amnesty International telur að setja skuli í forgang lágmarksviðmið efnahagslegra-, félagslegra- og menningarlegra réttinda og tryggja virka þátttöku fólks í ákvarðanatöku sem varða réttindi þeirra og lífsafkomu.

Íslandsdeild Amnesty International hvetur ríkisstjórn Íslands til að leggja sitt af mörkum til að fundurinn leiði til skilvirkari aðgerða til uppfyllingar Þúsaldarmarkmiðanna um þróun og að allar aðgerðir fram til ársins 2015 byggi á alþjóðlegum mannréttindum. Ítreka þarf að til að uppfylla megi Þúsaldarmarkmiðin um þróun er lykilatriði að byggt sé á kynjajafnrétti, eflingu og vernd allra mannréttinda, ábyrgð og aðgerðum gegn mismunun.  Öll ríki þurfa að skuldbinda sig til ítarlegs mats á aðgerðum og skoða hvað hefur áunnist, hverjar hindranirnar voru og hver ný tækifæri til uppfyllingar markmiðanna eru.

Að lokum vil ég þakka yður fyrir að gefa þessu mikilvæga málefni gaum.  

Virðingarfyllst

Jóhanna K. Eyjólfsdóttir

Framkvæmdastjóri

Íslandsdeildar Amnesty International

[1] http://www.un.org/summit2005/documents.html

[2] http://www.oecd.org/dataoecd/11/41/34428351.pdf