Í júní á síðasta ári gaf Amnesty International út skýrsluna Nigeria: Petroleum, Pollution and Poverty in the Niger Deltaen hún greinir m.a. frá gífurlegri olíumengun og umhverfisspjöllum sem hlotist hafa af starfsemi Shell á óseyrum Nígerfljóts.
Í júní á síðasta ári gaf Amnesty International út skýrsluna Nigeria: Petroleum, Pollution and Poverty in the Niger Deltaen hún greinir m.a. frá gífurlegri olíumengun og umhverfisspjöllum sem hlotist hafa af starfsemi Shell á óseyrum Nígerfljóts. Olíumengunin hefur alvarleg heilsuspillandi áhrif á íbúana og ógnar lífsviðurværi þeirra, þar á meðal fiskveiði og landbúnaði. Afleiðingarnar eru aukin fátækt og örbirgð. Þrátt fyrir að olíuvinnsla Shell hafi skilað ríkinu auknum tekjum (95% af útflutningstekjum landsins byggja á olíu-og gasvinnslu) lifa 70% almennra borgara undir fátækramörkum.
Í framhaldi af útgáfu skýrslunnar stóðu nokkrar deildir Amnesty International, Íslandsdeildin þeirra á meðal, fyrir táknrænni aðgerð á fjölda Shell bensínstöðva til að vekja athygli á umhverfisspjöllum og mannréttindabrotum Shell á óseyrum Nígerfljóts. Aðgerðakortum var dreift til viðskiptavina Shell á Íslandi en í þeim kom fram krafa til framkvæmdastjóra Shell í Nígeríu (Shell Petroleum Developement) Mutiu Summonu og nýkjörins framkvæmdastjóra Shell í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Hollandi, Peter Voser um að hefja nýjan kafla í starfsemi Shell á óseyrum Nígerfljóts, þar sem ábyrgð og gagnsæi eru sett á oddinn og mannréttindi virt. Jafnframt kom fram sú krafa í aðgerðakortunum að menguð svæði verði hreinsuð að fullu, lögboðið og reglubundið mat á áhrifum olíumengunar á mannréttindi íbúa tryggt og fullur aðgangur íbúa að því mati.
Íslandsdeild Amnesty International hefur dreift hátt í 6000 aðgerðakortum vegna þessarar aðgerða. Margir þeirra sem þátt tóku í aðgerðinni, bæði hér á Íslandi og erlendis, fengu sent staðlað svarbréf frá forsvarsmönnum Shell. Þar er m.a. sagt að Amnesty International taki ekki nægilegt tillit til þess að aðstæður á óseyrum Nígerfljóts eru flóknar. Samtökin vísa þessu alfarið á bug enda er sérstök áhersla lögð í skýrslunni á að skoða rætur þess flókna vanda sem blasir við samfélaginu. Þær eru meðal annars olíumengun og umhverfisspjöll á óseyrunum í hálfa öld, skortur á skýrri ábyrgðarskyldu og skaðabótum til íbúa vegna umhverfismengunar og mannréttindabrota, og ógagnsæi í upplýsingagjöf til íbúa um áhrif olíuvinnslu Shell. Þetta eru meginhvatar átaka og fátæktar á svæðinu.
Í svarbréfum Shell vísa forsvarsmenn fyrirtækisins þrálátlega í „hinar flóknu aðstæður á óseyrum Nígerfljóts“. Þeir virðast reiða fram staðlað svar um „flóknar aðstæður“ á svæðinu til forðast ábyrgð. Shell sakar vígamenn á óseyrum Nígerfljóts um að bera ábyrgð á olíuleka á svæðinu og skellir skuldinni á þá fyrir að meina starfsmönnum fyrirtækisins aðgang að svæðinu til hreinsunar. Þetta er hins vegar aðeins brot af heildarmyndinni. Slæm framganga Shell við olíuvinnslu á svæðinu er ein meginskýring vandans. Ennfremur hófust umrædd skemmdarverk eftir áratuga umhverfisspjöll af völdum starfsemi Shell á óseyrum Nígerfljóts. Þá hefur Shell ekki staðið við loforð sem fyrirtækið gaf árið 2008 um umbætur og ábyrgari starfshætti.
Hér má lesa svarbréf frá talsmanni Shell í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Hollandi
Hér má lesa svör Amnesty International við þeim athugasemdum sem fram koma í svarbréfi Shell
