Ný skýrsla Amnesty International og Omega rannsóknarstofnunarinnar (Omega Research Foundation) sýnir að evrópsk fyrirtæki taka þátt í alþjóðlegum viðskiptum með pyndingatól og -tæki. Meðal þeirra eru veggáhöld sem halda fólki í fjötrum, þumalskrúfur úr málmi, og rafermar sem gefa frá sér 50.000 volta rafstuð.
Ný skýrsla Amnesty International og Omega rannsóknarstofnunarinnar (Omega Research Foundation) sýnir að evrópsk fyrirtæki taka þátt í alþjóðlegum viðskiptum með pyndingatól og -tæki. Meðal þeirra eru veggáhöld sem halda fólki í fjötrum, þumalskrúfur úr málmi, og rafermar sem gefa frá sér 50.000 volta rafstuð.
Í skýrslunni „Frá orðum til athafna” (FROM WORDS TO DEEDS, MAKING THE EU BAN ON THE TRADE IN “TOOLS OF TORTURE” A REALITY) er sýnt fram á að þessi starfsemi hefur haldið áfram þrátt fyrir lög frá 2006 sem banna verslun með allan löggæslu- og öryggisbúnað sem hannaður er fyrir pyndingar og illa meðferð. Þá voru einnig settar reglur um viðskipti með annan búnað sem hefur verið notaður víða um heim við pyndingar.
Gaddakylfa til sölu á sýningu með öryggistæki í Kína 2007
Mannréttindasamtök hafa í mörg ár barist fyrir banni á verslun og viðskiptum með pyndingatæki. Reglur Evrópusambandsins frá 2006 voru því mikilvægt skref. Það er því miður að sum Evrópuríki hafa ekki framfylgt lögunum og önnur nýtt sér gloppur í þeim.
Í skýrslunni kemur fram að nokkur aðildarríki Evrópusambandsins, þ.m.t Þýskaland og Tékkland, hafa frá árinu 2006 heimilað útflutning á löggæslu- vopnum og tækjum til að minnsta kosti níu landa þar sem Amnesty International hefur staðfest að slík tæki eru notuð við pyndingar. Í skýrslunni kemur einnig fram að einungis sjö ríki uppfylla lagalegar skyldur um birtingu útflutningsskýrsla. Amnesty International óttast að sum ríki taki ekki lagalegar skyldur sínar alvarlega.
Evrópusambandið hefur skuldbundið sig til að berjast gegn pyndingum og því verða aðildarríkin nú að sýna í verki að þeim sé alvara. Ríkin verða að koma á árangursríku eftirliti með viðskiptum og sölu alls löggæslu- og öryggisbúnaðar, þannig að tryggt sé að tækin endi ekki í „verkfærakassa” pyndara.
Helstu niðurstöður skýrslunnar eru:
• Milli 2006 og 2009 voru veitt útflutningsleyfi í Tékklandi fyrir hlekki, rafstuðsvopn og efnaúða. Í Þýskalandi voru veitt útflutningsleyfi á fótjárnum og efnaúðum. Leyfin heimiluðu flutning til níu landa þar sem lögregla og öryggissveitir höfðu áður notað slíkan búnað við pyndingar og illa meðferð.
• Á Ítalíu og Spáni hefur verið tilkynnt um sölu á „rafermum” sem gefa frá sér 50.000 volta raflost og eru notaðar á fanga. Gloppur í löggjöfinni gera söluna mögulega þó að beiting svipaðra tækja þ.e. rafbelta sé bönnuð með öllu innan Evrópusambandsins og inn- og útflutningur þeirra bannaður.
• Einungis sjö af tuttugu og sjö ríkjum Evrópusambandsins hafa birt opinberlega skýrslur um útflutning á löggæslu- og öryggistækjum sem reglugerðin nær yfir.
• Í skýrslunni er einnig lögð áhersla á umfang viðskipta innan Evrópusambandsins og fjallað um mikilvægi þess að aðildarríkin uppfylli skyldur sínar og komi í veg fyrir framleiðslu og verslun með tæki og tól sem beita má við pyndingar. Tryggja þarf að evrópsk fyrirtæki fari ekki í kringum lögin með því að láta framleiða tækin utan Evrópu. Í Finnlandi, Ítalíu og Belgíu hafa fyrirtæki kynnt í fjölmiðlum og á vefsíðum sínum tæki sem falla undir reglugerðina.
Amnesty International og Omega rannsóknarstofnunin skora á framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og aðildarríki þess að tryggja að banninu sé framfylgt til hins ýtrasta.
