Íslandsdeild Amnesty International hefur sent dómsmála- og mannréttindaráðherra, Rögnu Árnadóttur, bréf þar sem fram kemur krafa um að Ísland stöðvi nú þegar allan flutning hælisleitenda til Grikklands.
Íslandsdeild Amnesty International hefur sent dómsmála- og mannréttindaráðherra, Rögnu Árnadóttur, bréf þar sem fram kemur krafa um að Ísland stöðvi nú þegar allan flutning hælisleitenda til Grikklands.
Sjá nánar
Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra
Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið
Skuggasundi
150 Reykjavík Reykjavík 23.03.2010
Háttvirti dómsmála- og mannréttindaráðherra
Íslensk yfirvöld hafa á undanförnum árum vísað hælisleitendum á grundvelli Dyflinnar-reglugerðarinnar til Grikklands. Fjölmargar stofnanir og samtök hafa lagst gegn því að hælisleitendur séu sendir til Grikklands, þ.á.m. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Amnesty International og ECRE (European Council on Refugees and Exiles). Andstaða þeirra byggir á rannsóknum sem leitt hafa í ljós slæman aðbúnað hælisleitenda í Grikklandi og skerta möguleika á réttlátri meðferð sinna mála. Amnesty International hefur ítrekað lýst yfir áhyggjum vegna aðbúnaðar og meðhöndlunar hælisleitenda í landinu og krafið grísk yfirvöld um úrbætur. Samtökin hafa nú birt skýrslu, Dyflinnar gildran. Í henni kemur m.a. fram að einstaklingar sem sendir eru til Grikklands á grundvelli Dyflinnar-reglugerðarinnar eiga á hættu að verða fyrir margvíslegum mannréttindabrotum, þar með talið að vera fluttir nauðugir til staða þar sem þeir eiga á hættu ofsóknir.
Í skýrslunni er að finna ítarlega úttekt á áhrifum Dyflinnar-reglugerðarinnar á réttindi hælisleitenda og nákvæma skoðun á aðstæðum hælisleitenda í Grikklandi.
Íslandsdeild Amnesty International hvetur íslensk stjórnvöld til að stöðva með öllu flutning hælisleitenda til Grikklands og hvetur stjórnvöld til að nýta ákvæði Dyflinnar-reglugerðarinnar sem heimila að umfjöllun um hælisbeiðnir fari fram hér á landi. Íslandsdeild Amnesty International vill einnig hvetja yfirvöld til að tryggja að þeir hælisleitendur sem hingað koma í leit að skjóli fái réttláta málsmeðferð og komið sé í veg fyrir að þeir séu sendir til landa þar sem öryggi þeirra og réttindum er ógnað.
Virðingarfyllst
Jóhanna K. Eyjólfsdóttir
Framkvæmdastjóri
Íslandsdeildar Amnesty International
