Amnesty International skorar á kínversk yfirvöld að greina opinberlega frá fjölda aftaka í landinu og hversu margir hafa verið dæmdir til dauða.
Amnesty International skorar á kínversk yfirvöld að greina opinberlega frá fjölda aftaka í landinu og hversu margir hafa verið dæmdir til dauða. Í yfirlitsskýrslu Amnesty International um dauðarefsingar 2009 er gefið yfirlit yfir þau lönd sem enn beita dauðarefsingum.
Í skýrslunni, Death Sentences and Executions in 2009, er sagt frá því að 714 einstaklingar að minnsta kosti, voru teknir af lífi í 18 löndum og að lágmarki 2001 einstaklingur var dæmdur til dauða í 56 löndum í fyrra.
Í þessum tölum koma ekki fram þúsundir aftaka sem líklegt er að hafi átt sér stað í Kína á síðasta ári,þar sem upplýsingar um dauðarefsingar í Kína eru enn ríkisleyndarmál.
Í áskorun til kínverskra yfirvalda krefjast samtökin þess að leyndinni verði aflétt og yfirvöld tryggi gagnsæi. Amnesty International hefur ákveðið að birta ekki eigin lágmarkstölur um aftökur og dauðarefsingar í Kína á árinu 2009, þar sem tölurnar endurspegla ekki raunverulegt umfang aftaka í landinu. Upplýsingar samtakanna byggja á takmörkuðum tiltækum opinberum gögnum og endurspegla ekki raunveruleikann um hversu margir eru teknir af lífi eða dæmdir til dauða.
Dauðarefsingin er grimmileg, vanvirðandi og stríðir gegn mannlegri reisn.
Kínversk yfirvöld halda því fram að aftökum hafi fækkað. Ef þetta er rétt, hvers vegna vilja þau ekki greina umheiminum frá því hve marga ríkið lætur taka af lífi.
Rannsóknir Amnesty International sýna að lönd sem enn framkvæma aftökur eru undantekning fremur en regla. Auk Kína, eru verstu þjóðirnar Íran með að minnsta kosti 388 aftökur, Írak með að minnsta kosti 120, Sádi Arabía að minnsta kosti 69 og Bandaríkin með 52 aftökur.
Á síðasta ári var dauðarefsingum mikið beitt í Kína, Íran og Súdan til að senda pólitísk skilaboð og þagga niður í pólitískum andstæðingum.
Í Íran er vitað um að 112 hafi verið líflátnir á átta vikna tímabili milli forsetakosninganna 12. júní 2009 og embættistöku Mahmoud Ahmadinejad sem forseta landsins þann 5. ágúst 2009.
Skýrslan greinir frá því hvernig dauðarefsingunni er oft beitt í kjölfar óréttlátra réttarhalda. Einnig kemur fram í skýrslunni að henni er óhóflega beitt gegn fátækum og minnihlutahópum.
Tölurnar sýna einnig að heimurinn mjakast í átt að afnámi dauðarefsinga. Fjöldi ríkja sem hafa afnumið dauðarefsinguna algjörlega úr lögum hefur aukist eftir að Búrúndí og Tógó afnumdu dauðarefsingu fyrir alla glæpi. Í dag eru 95 ríki sem ekki heimila dauðarefsingar.
Engar aftökur voru framkvæmdar í Evrópu á árinu 2009, í fyrsta sinn frá því að Amnesty International hóf skráningar. Hvíta-Rússland er eina landið í álfunni sem enn beitir dauðarefsingum. Bandaríkin voru eina landið í Ameríkuríkjum sem framkvæmdi aftökur 2009.
Færri lönd en nokkru sinni áður taka fólk af lífi. Á sama hátt og þrælahaldi og aðskilnaðarstefnu var hafnað er heimurinn nú í æ ríkara mæli að hafna þessari grimmilegu og niðurlægjandi refsingu, refsingu sem er í andstöðu við helgi lífsins og mannúð. Við færumst nær heimi án dauðarefsinga, en fram að þeim degi verður að mótmæla hverri aftöku og reyna að koma í veg fyrir þær.
Svæðasamantekt:
Asía: Líklegt er að þúsundir hafi verið líflátnir í Kína þar sem upplýsingar um dauðarefsingar eru enn ríkisleyndarmál. Vitað er um 26 aftökur í sjö öðrum Asíu löndum, Bangladess, Japan, Norður-Kóreu, Malasíu, Singapúr, Taílandi og Víetnam.
Í Afganistan, Indónesíu, Mongólíu og Pakistan voru ekki framkvæmdar aftökur á árinu 2009. Fyrsta aftökulausa árið í þeim löndum á síðari tímum.
Mið-Austurlönd og Norður-Afríka: Að minnsta kosti 624 aftökur fóru fram í sjö löndum: Egyptalandi, Íran, Írak, Líbíu, Sádi-Arabíu, Sýrlandi og Jemen. Sádi-Arabía og Íran tóku af lífi sjö einstaklinga undir 18 ára aldri á þeim tíma sem meint brot átti sér stað, sem brýtur í bága við alþjóðalög er banna aftökur ungmenna.
Nokkur lönd, Alsír, Líbanon, Marokkó / Vestur-Sahara og Túnis hafa viðhaldið aftökustoppi.
Evrópa: Engar aftökur áttu sér stað í Evrópu árið 2009. Hvíta-Rússland er eina landið sem beitir dauðarefsingum í álfunni. Þó var enginn tekinn af lífi í Hvíta-Rússlandi 2009. Aftur á móti voru tvær aftökur í landinu í mars 2010.
Afríka sunnan Sahara:Aðeins tvö lönd tóku fanga af lífi: Botsvana og Súdan. Mestu umskiptin urðu í Kenía, þegar stjórnvöld tilkynntu að dauðadómum yfir rúmlega 4000 föngum yrði breytt í fangelsisvist.
Aftökur sem vitað er um á árinu 2009:
Bangladess (3), Botsvana (1), Kína (+), Egyptaland (a.m.k. 5), Íran (a.m.k. 388), Írak (a.m.k. 120), Japan (7), Líbía (a.m.k 4), Malasía ( +), Norður-Kórea (+), Sádi Arabía (a.m.k. 69), Singapore (1), Súdan (a.m.k. 9), Sýrland (a.m.k. 8), Taíland (2), Bandaríkin (52), Víetnam (a.m.k.9), Jemen (a.m.k. 30).
Ríkin sem enn beita dauðarefsingum notuðu ýmsar aftökuaðferðir. Fólk var hengt, skotið, afhöfðað, grýtt, tekið af lífi með rafmagni og gefnar banvænar sprautur.
Dauðadómar sem vitað er um á árinu 2009:
Að minnsta kosti 2001 manns voru dæmdir til dauða í 56 löndum árið 2009.
Raunverulegar tölur eru miklu hærri: Afganistan (a.m.k. 133), Alsír (a.m.k. 100), Bahamaeyjar (a.m.k. 2), Bangladess (a.m.k. 64), Hvíta-Rússland (2), Benín (a.m.k. 5), Botsvana (2 ), Búrkína Fasó (a.m.k. 6), Tsjad (+), Kína (+), Lýðveldið Kongó (+), Egyptaland (a.m.k. 269), Eþíópía (a.m.k 11), Gambía (a.m.k. 1), Gana (a.m.k. 7), Gvæjana (3), Indland (a.m.k. 50), Indónesía (1), Íran (+), Írak (a.m.k. 366), Jamaíka (2), Japan (34), Jórdanía (a.m.k. 12 ), Kenía (+), Kúveit (a.m.k. 3), Líbería (3), Líbía (+), Malasía a.m.k. 68), Malí (a.m.k. 10), Máritanía (a.m.k. 1), Marokkó / Vestur Sahara ( 13), Mjanmar (a.m.k. 2), Nígería (58), Norður-Kórea (+), Pakistan (276), Palestínsku sjálfsstjórnarsvæðin (17), Katar (a.m.k. 3), Sádi-Arabía (a.m.k. 11), Síerra Leóne ( a.m.k. 1), Singapúr (a.m.k. 6), Sómalía (12, sex þeirra í Puntland og sex innan lögsögu Transitional Federal Government), Suður-Kórea (a.m.k. 5), Srí Lanka (108), Súdan (a.m.k. 60), Sýrland (a.m.k. 7), Taívan (7), Tansanía (+), Taíland (+), Trínidad og Tóbagó (a.m.k. 11), Túnis (að a.m.k. 2), Úganda (+), Sameinuðu arabísku furstadæmin (a.m.k. 3), Bandaríkin (a.m.k. 105), Víetnam (a.m.k. 59), Jemen (a.m.k. 53), Simbabve (a.m.k. 7)
“+” Merkir að við vitum af aftökum eða dauðadómum í viðkomandi landi árið 2009 en ekki nákvæma tölu þeirra.
