Evrópuríki verða að hætta fyrir fullt og allt að reiða sig á loforð ríkja sem stunda pyndingar. Ný skýrsla Amnesty International: Dangerous Deals: Europe’s Reliance on ‘Diplomatic Assurances’ against Torture sýnir hvernig stjórnvöld í Evrópuríkjum reyna að senda útlendinga, sem þau telja hættulega þjóðaröryggi, til ríkja þar sem þeir eiga á hættu að sæta pyndingum eða illri meðferð.
Evrópuríki verða að hætta fyrir fullt og allt að reiða sig á loforð ríkja sem stunda pyndingar. Ný skýrsla Amnesty International: Dangerous Deals: Europe’s Reliance on ‘Diplomatic Assurances’ against Torture sýnir hvernig stjórnvöld í Evrópuríkjum reyna að senda útlendinga, sem þau telja hættulega þjóðaröryggi, til ríkja þar sem þeir eiga á hættu að sæta pyndingum eða illri meðferð. Í staðinn krefjast þau þess eins að fá „diplómatísk loforð“ um að þeir fái mannúðlega meðferð. Þau loforð eru óáreiðanleg og engin leið að sjá til þess að þeim sé framfylgt.
Ekki er hægt að treysta loforðum stjórnvalda sem iðulega stunda pyndingar og illa meðferð. Evrópsk stjórnvöld sem taka slík innantóm loforð góð og gild grafa undan algjöru banni við pyndingum.
Besta leiðin til að koma í veg fyrir pyndingar er að senda fólk ekki til landa þar sem hætta er á að það verði pyndað.
Skýrslan rannsakar notkun ýmissa stjórnvalda í Evrópuríkjum á diplómatískum loforðum til að réttlæta brottvísun úr landi, framsal eða aðra nauðungarflutninga á útlendingum sem teljast „ógn við þjóðaröryggi“.
Með vísan í slík loforð fullyrða stjórnvöld að mannréttindi séu tryggð í flutningunum.
Skýrslan sýnir fram á að diplómatísk loforð grafa undan alþjóðabanninu við pyndingum og annarri illri meðferð og að innbyggðar veilur í verklaginu hafi leitt til þess að sumir þeirra, er sætt hafa flutningum, hafi verið pyndaðir eða hlotið illa meðferð.
Skýrslan skoðar mál frá 12 löndum, þeirra á meðal Austurríki, Aserbaijan, Bosníu og Hersegóvínu, Danmörku, Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu, Rússlandi, Slóvakíu, Spáni, Svíþjóð og Bretlandi.
Stjórnvöld hafa aukið verulega notkun diplómatískra loforða frá árásunum í Bandaríkjunum 11. september 2001. Sum ríki hafa samþykkt sérstök lög eða reglur um þetta verklag.
Sami Ben Khemais Essid var vísað brott frá Ítalíu til Túnis í janúar 2008 á grundvelli loforða frá yfirvöldum í Túnis að hann myndi ekki sæta illri meðferð. Átta mánuðum eftir að hann kom aftur til Túnis fullyrti hann að hann hefði verið pyndaður við yfirheyrslur í innanríkisráðuneyti landsins. Sambærileg mannréttindabrot hafa verið framin á fólk sem flutt hefur verið nauðugt til annarra ríkja, þeirra á meðal Egyptalands og Rússlands.
Evrópsk stjórnvöld verða að ítreka stuðning sinn við grundvallarmannréttindi. Þau verða að verja fólk gegn brotum og standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar. Diplómatísk loforð eru ekki haldbær vörn og hætta þarf þegar í stað að treysta á þau.
