Ársskýrsla Amnesty International 2010 greinir frá mannréttindabrotum í 159 ríkjum. Í henni kemur fram að áhrifamiklar ríkisstjórnir telja sig ekki skuldbundnar til að framfylgja alþjóðlegum mannréttindalögum.
Ársskýrsla Amnesty International 2010 greinir frá mannréttindabrotum í 159 ríkjum. Í henni kemur fram að áhrifamiklar ríkisstjórnir telja sig ekki skuldbundnar til að framfylgja alþjóðlegum mannréttindalögum. Voldug ríki standa í vegi fyrir framfylgd þeirra með því að verja bandamenn gegn gagnrýni og grípa einungis til aðgerða þegar það er pólitískir hagsmunir eru að veði.
Vegna skorts á réttlæti lifa milljónir við kúgun, misnotkun og fátækt.
Ríkisstjórnir verða að viðurkenna að enginn er hafinn yfir lögin og tryggja aðgang allra að réttlátri málsmeðferð.
Svo lengi sem réttlætinu er fórnað vegna pólitískra hagsmuna verður frelsi frá ótta og frelsi frá skorti áfram draumsýn fyrir flesta jarðarbúa.
Amnesty International hvetur ríkisstjórnir til að taka ábyrgð á eigin gjörðum, viðurkenna lögsögu alþjóðlega sakamáladómstólsins og tryggja að hægt sé að sækja til saka hvar sem er í heiminum þá sem grunaðir eru um brot á alþjóðlegum mannréttindalögum.
Handtökuskipun alþjóðlega sakamáladómstólsins á hendur forseta Súdan, Omar Hassan Al Bashir, fyrir glæpi gegn mannkyninu og stríðsglæpi, sýnir að jafnvel sitjandi þjóðhöfðingjar eru ekki hafnir yfir lög. Ákvörðun Afríkusambandsins að synja samstarfi við dómstólinner nærtækt dæmi um hvernig ríkisstjórnir setja stjórnmál ofar réttlæti. Afríkusambandið horfir framhjá þeirri martröð ofbeldis og mannréttindabrota sem mörg hundruð þúsund manns í Darfúr hafa þolað.
Alþjóðasamfélagið brást fórnarlömbum með aðgerðaleysi Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna vegna alvarlegra mannréttindabrota og mögulegra stríðsglæpa á Srí Lanka. Glæpa sem bæði herlið ríkisstjórnar Srí Lanka og lið Tamílsku tígranna bera ábyrgð á.
Tillögur Goldstone skýrslu Mannréttindaráðsins þar sem kallað er eftir ábyrgð vegna átakanna á Gasa hafa enn ekki komið til framkvæmda hvorki af hálfu Ísraela né Hamas.
Skortur á réttlæti um heim allan viðheldur kúgun og misrétti.
Rannsóknir Amnesty International sýna að pyndingar og önnur ill meðferð viðgengst í að minnsta kosti 111 löndum, óréttlát réttarhöld fóru fram í að minnsta kosti 55 löndum, í að minnsta kosti 96 löndum voru takmarkanir á tjáningarfrelsi og í að minnsta kosti 48 löndum var samviskuföngum haldið í fangelsum.
Mannréttindasamtök og baráttufólk fyrir mannréttindum urðu fyrir árásum í mörgum löndum. Ríkisstjórnir hafa reynt að koma í veg fyrir starfsemi þeirra og/eða látið hjá líða að tryggja vernd þeirra.
Yfirvöld líða ekki gagnrýni í löndum eins og Sádí Arabíu, Sýrlandi og Túnis og kúgun í Íran fer vaxandi.
Kínversk yfirvöld bregðast harkalega við allri gagnrýni og fangelsa og áreita baráttufólk fyrir mannréttindum. Þúsundir hafa flúið alvarlega kúgun og efnahagslega erfiðleika í Norður-Kóreu og Mjanmar.
Frá mótmælum í Íran 2009
Hert var að tjáningarfrelsi í hluta Evrópu og Mið-Asíu, í Rússlandi, Tyrklandi, Túrkmenistan, Aserbaídsjan, Hvíta-Rússlandi og Úsbekistan.
Ríki Ameríku voru þjökuð af ólögmætum drápum öryggissveita, þar á meðal í Brasilíu, Jamaíku, Kólumbíu og Mexíkó. Enn ríkir algjört refsileysi vegna brota sem tengjast aðgerðum Bandaríkjamanna gegn hryðjuverkum.
Ríkisstjórnir í Afríkuríkjum eins og Gíneu og Madagaskar brugðust við andófi með valdbeitingu og ólögmætum drápum. Í Eþíópíu, Úganda og fleiri Afríkuríkjum var gagnrýni bæld niður.
Algjör lítilsvirðing við óbreytta borgara einkenndi vopnuð átök. í Lýðveldinu Kongó, Srí Lanka og Jemen brutu vopnaðir hópar og herlið ríkisstjórna alþjóðalög. Í átökunum á Gasa og í Suður-Ísrael voru almennir borgarar drepnir af Ísraelsher og vopnuðum hópum Palestínumanna.
Þúsundir óbreyttra borgara hafa orðið fyrir vaxandi ofbeldi af hálfu Talíbana í Afganistan og Pakistan.
Óbreyttir borgarar bera hitann og þungann af átökum í Írak og Sómalíu.
Konur og stúlkur þjást vegna nauðgana og annarra ofbeldisverka sem bæði herlið stjórnvalda og vopnaðir hópar fremja í flestum átökum.
Önnur áhyggjuefni Amnesty International:
Nauðungarflutningar fólks frá heimilum sínum í ýmsum Afríkuríkjum, t.d. Angóla, Gana, Kenía og Nígeríu, steypa fólki í enn meiri fátækt.
Nauðganir, kynferðislegt ofbeldi, morð, limlestingar og annað ofbeldi gegn konum í Mexíkó, Gvatemala, El Salvador, Hondúras og Jamaíku.
Milljónir innflytjenda í Asíulöndum, þar á meðal Suður-Kóreu, Japan og Malasíu sæta mismunun, ofbeldi og misnotkun.
Mikil aukning á kynþáttahatri, útlendingahatri og umburðarleysi í Evrópu og Mið-Asíu.
Í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, í ríkjum eins og Írak og Jemen hefur öryggisleysi og ofbeldi aukist vegna árása vopnaðra hópa. Sumir þeirra virðast hafa tengsl við Al-Kaída.
Á heimsvísu hefur milljónum verið steypt í fátækt vegna fæðu, orku- og fjármála kreppunnar. Atburðir ársins sýndu enn og aftur hversu brýn þörf er á að bregðast við mannréttindabrotum og misnotkun sem hafa áhrif á fátækt.
Ríkisstjórnir þurfa að sýna ábyrgð vegna mannréttindabrota sem skapa, viðhalda og auka fátækt. Á væntanlegum fundi Sameinuðu þjóðanna um þúsaldarmarkmiðin um þróun, sem fram fer í september n.k. gefst stjórnvöldum tækifæri að viðurkenna lagalegar skuldbindingar um útrýmingu fátæktar.
Konur, sérstaklega hinar fátæku, báru hitann og þungann vegna vanefnda á þeim loforðum sem felast í þúsaldarmarkmiðunum um þróun.
Amnesty International hvetur G20 ríkin til að gerast aðilar að alþjóðlega sakamáladómstólunum, þ.m.t. Bandaríkin, Kína, Rússland,Tyrkland, Indland, Indónesíu og Sádi-Arabíu. Á alþjóðlegum fundi sem fram fer í Kampala í lok maí gefst ríkjum tækifæri til að sýna og sanna stuðning sinn við alþjóðlega sakamáladómstólinn.
Í Suður-Ameríku féllu dómar vegna mannréttindabrota. Fyrrverandi forseti Perú, Alberto Fujimori, hlaut dóm vegna glæpa gegn mannkyni og í Argentínu var Reynaldo Bignone, sem var forseti í tíð herforingjastjórnarinnar, dæmdur fyrir mannrán og pyndingar. Verið er að rétta í máli fyrrum forseta Líberíu, Charles Taylor. Í Síerra Leóne fóru fram réttarhöld vegna þeirra alvarlegu brota sem framin voru í borgarastríðinu þar.
Þörf á auknu réttlæti og tryggum aðgangi allra að dómstólum er sá lærdómur sem síðasta ár færir okkur. Réttlæti tryggir sanngirni og sannleika til handa þeim sem hafa sætt mannréttindabrotum. Réttlæti kemur í veg fyrir frekari mannréttindabrot.
Frelsi frá ótta og frelsi frá skorti þarf ekki að vera draumsýn.
