Íslandsdeild Amnesty International hefur sent utanríkisráðherra bréf vegna þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
Íslandsdeild Amnesty International hefur sent utanríkisráðherra bréf vegna þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
Bréfið er hér að neðan:
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra
Utanríkisráðuneytið
Rauðarárstíg 25
150 Reykjavík Reykjavík 09.06.2010
Efni:
Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna og mannréttindi
Valfrjáls bókun við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.
Háttvirti ráðherra,
Íslandsdeild Amnesty International vill vekja athygli yðar á nýrri skýrslu samtakanna sem ber heitið „From Promises to Delivery”. Í skýrslunni eru Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna skoðuð út frá mannréttindaskyldum ríkja. Sjónum er m.a. beint að jafnrétti kynjanna, mæðraheilsu og fátækrahverfum og ljósi varpað á gjána milli Þúsaldarmarkmiðanna og alþjóðlegra mannréttinda-viðmiða.
Í skýrslunni er þeim skrefum lýst sem ríkisstjórnir verða að stíga til að ná fram raunverulegum árangri í framfylgni við Þúsaldarmarkmiðin og útrýmingu fátæktar. Ef mannréttindi eru ekki miðlæg í baráttunni gegn fátækt er mikil hætta á að hinir fátæku verði áfram útilokaðir og vonlitlir um betri framtíð. Skýrslan kallar á að stjórnvöld tryggi að öll átaksverkefni sem tengjast Þúsaldarmarkmiðunum samræmist mannréttindum.Ríki heims mega ekki hundsa mannréttindi í viðleitni sinni til að binda enda á fátækt.
Íslandsdeild Amnesty International hvetur yður til að kynna yður skýrsluna í aðdraganda fundar Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um Þúsaldarmarkmiðin sem fram fer dagana 20. til 22. september 2010. Á fundinum er ætlunin að skoða ógnir, tækifæri, bestu leiðir og lærdóm sem leitt getur til raunhæfrar aðgerðaáætlunar til að uppfylla Þúsaldarmarkmiðin. Lykilatriðið er að byggt sé á kynjajafnrétti, eflingu og vernd allra mannréttinda og ábyrgð og aðgerðum gegn mismunun. Skilaboð Amnesty International til leiðtoga heimsins eru skýr: þeir verða að grípa til aðgerða strax og byggja alla viðleitni til að bæta líf þeirra sem búa við fátækt á mannréttindum.
Mannréttindabrotum sem grafa undan Þúsaldarmarkmiðunum um þróun er ekki gefin nægilegur gaumur. Flestar áætlanir tengdar Þúsaldarmarkmiðunum um þróun byggja ekki á alþjóðlega viðurkenndum mannréttindum en það dregur úr líkum á raunverulegum árangri. Amnesty International telur að setja skuli í forgang lágmarksviðmið efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda og tryggja virka þátttöku fólks í ákvarðanatöku sem varða réttindi þeirra og lífsafkomu.
Íslandsdeild Amnesty International vill auk þessa hvetja íslensk yfirvöld til að undirrita og fullgilda valfrjálsa bókun við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Bókunin gefur einstaklingum kost á að leita réttar síns ef brotið er á ofangreindum réttindum og fá umsagnir frá nefnd Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Bókunin er mikilvægt skref í þeirri viðleitni að tryggja aðgang að réttlæti fyrir þolendur mannréttindabrota. Fólk sem lifir í sárri fátækt og hópar sem eru á jaðri samfélaga sætir alvarlegustu brotunum á efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum, þar með talið réttinum til húsnæðis, fæðis, vatns og hreinlætis, svo og réttinum til heilsu og menntunar.
Til þess að bókunin gangi í gildi þurfa einungis tíu ríki að fullgilda hana. Íslandsdeild Amnesty International vonar að Ísland verði í farabroddi og veiti öðrum ríkjum mikilvægt fordæmi í mannréttindavernd.
Virðingarfyllst
Jóhanna K. Eyjólfsdóttir
Framkvæmdastjóri
Íslandsdeildar Amnesty International
Hjálagt:
FROM PROMISES TO DELIVERY, PUTTING HUMAN RIGHTS AT THE HEART OF THE MILLENIUM DEVELOPMENT GOALS, IOR/41/012/2010
