Keníska baráttukonan Wilter Nyabate fjallar um mannréttindabaráttu sína

Þann 21. júní næstkomandi heimsækir keníska baráttukonan Wilter Nyabate Ísland. Wilter Nyabate heldur fyrirlestur í Norræna húsinu, mánudaginn 21. júní klukkan 17:00, þar sem hún mun fjalla um mannréttindabaráttu sína í Kíbera í Naíróbí.

Þann 21. júní næstkomandi heimsækir keníska baráttukonan Wilter Nyabate Ísland. Wilter Nyabate heldur fyrirlestur í Norræna húsinu, mánudaginn 21. júní klukkan 17:00, þar sem hún mun fjalla um mannréttindabaráttu sína í Kíbera í Naíróbí.

Wilter Nyabate býr í Austur-Soweto í Kíbera í Naíróbí, en Kíbera er stærsta fátækrahverfi Naírobí. Hún á tvö börn og er eini matvinnungurinn á heimilinu, en starfar engu að síður að því að vekja athygli á óþolandi aðstæðum í samfélaginu. Tæplega 25.000 manns búa í Austur-Soweto. Íbúar búa í lélegu húsnæði með litlu aðgengi að hreinu vatni, skólplögnum, heilsugæslu, menntun eða annarri grunnþjónustu. Þó að vatnslagnir liggi gegnum Kíbera og beini vatni að efnaðri hverfum í kring, geta íbúar fátækrahverfisins ekki nýtt sér vatnið. Þeir búa einnig stöðugt við hættuna á þvinguðum brottflutningi úr því fábrotna húsnæði sem er heimili þeirra. Wilter Nyabate er óþreytandi í baráttu sinni fyrir því að komið verði til móts við óskir íbúanna.

Keníska ríkisstjórnin hratt átaki úr vör árið 2008 til að bæta húsnæðismál í Kíbera (the Kenya Slum Upgrading Programme) og ýmislegt jákvætt hefur gerst. En stjórnvöld hafa einnig brugðist á ýmsum sviðum.

Íbúar fá ekki nægilegar upplýsingar um verkefnið og hafa ekki átt kost á að taka þátt í ákvörðunum um framkvæmd verkefnisins. Stjórnvöld hafa heldur ekki gefið tryggingu fyrir því að íbúar verði ekki bornir út af heimilum sínum vegna átaksins. Íbúar óttast að nýju húsin muni ekki henta þeim og verði of dýr og að þeir muni því missa allt húsnæði vegna umbótanna.

Heimsókn Wilter Nyabate til Íslands er liður í alþjóðlegri herferð Amnesty International Vertu með í vörninni…gegn mannréttindabrotum, en hún tengir saman Heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem fram fer í Suður-Afríku og baráttuna fyrir mannréttindum. Á meðan landslið í knattspyrnu berjast um heimsmeistaratitilinn hefur annað lið stillt sér upp til að berjast gegn mannréttindabrotum um heim allan. Liðið er Stand Up United og skipar 11 leikmenn sem allir keppa að sama marki: jafnrétti, virðing og réttlæti fyrir alla.

Wilter Nyabate er einn liðsmanna í keppnisliði mannréttinda.

Meðal baráttumála Amnesty International er að stöðva mannréttindabrot sem ýta undir og viðhalda fátækt. Samtökin upplýsa um tengsl mannréttindabrota og fátæktar og krefjast þess að ríkisstjórnir, fyrirtæki og aðrir sem hafa áhrif hlusti á raddir þeirra sem búa við fátækt og viðurkenni og verndi réttindi þeirra.

Nánar