Yfirvöld í Georgíu verða að tryggja að fólk, sem hraktist á flótta í átökunum á tíunda áratug síðustu aldar og í stríðinu við Rússland í ágúst 2008, fái meira en þá algeru lágmarksaðstoð sem það fær núna.
Yfirvöld í Georgíu verða að tryggja að fólk, sem hraktist á flótta í átökunum á tíunda áratug síðustu aldar og í stríðinu við Rússland í ágúst 2008, fái meira en þá algeru lágmarksaðstoð sem það fær núna.
Ný skýrsla Amnesty International, sem ber heitið In the waiting room: Internally displaced people in Georgia, lýsir því hvernig þúsundir, sem hröktust á flótta í átökunum, þurfa að berjast fyrir aðgengi að lágmarksþjónustu.
Fólk á flótta þarf meira en þak yfir höfuðið. Stjórnvöld þurfa að tryggja vinnu fyrir fólkið, aðgengi að heilsugæslu og aðra þjónustu. Ræða þarf við það og gefa því kost á að hafa áhrif á ákvarðanir sem varða líf þess.
Um 6 prósent íbúa Georgíu (um 246.000 manns) eru á flótta í eigin landi. Um 220.000 þeirra flúðu í átökunum á tíunda áratug síðustu aldar.
Um 128.000 manns flúðu Suður-Ossetíu og Abkasíu meðan á stríði Georgíu og Rússlands stóð í ágúst 2008. Meirihluti þeirra hefur snúið aftur til heimila sinna, en um 26.000 eru enn á flótta og munu ekki geta snúið aftur í fyrirsjáanlegri framtíð.
Stjórnvöld í Georgíu hófu byggingu varanlegs húnsæðis fyrir flóttafólk árið 2007 og nutu til þess alþjóðlegs stuðnings.
Flóttafólk í Georgíu býr við bágbornar aðstæður
En margir þeirra sem flúðu heimili sín fyrir nærri tveimur áratugum búa enn á spítölum eða í herskálum, þar sem þrifnaði er ábótavant og næði lítið.
Aðstoð stjórnvalda nær enn ekki til þeirra sem búa hjá fjölskyldumeðlimum eða leigja húsnæði. Margt flóttafólk kvartar yfir því að enginn hafi ráðfært sig við það um ákvarðanir sem snerta líf þess.
Atvinnuleysi er mikið meðal flóttafólksins og stjórnvöld hafa enn ekki ráðist í úrbætur til að aðstoða flóttafólkið við að fá vinnu.
Bágar aðstæður og fátækt grafa undan heilsufari flóttafólksins og upplýsingaskortur og kostnaður við læknisþjónustu gerir því enn erfiðara um vik að sækja sér læknisaðstoð.
Iza, flóttakona sem býr í flóttamannamiðstöð í Kutaisi, sagði í samtali við Amnesty International: „Fyrir sautján árum, þegar stríðið braust út, var ég málanemi við ríkisháskólann, en lauk aldrei náminu. Nú er sonur minn í menntaskóla en ég hef engin efni á að kosta háskólanám hans. Ég get ekki skapað mér nýja framtíð, kannski mun ég aldrei aftur fá atvinnu, en ég bið stjórnvöld um að veita börnum mínum að minnsta kosti von um betri framtíð“.
