Þann 7. október 2006 var Anna Politkovskaja myrt. Hún starfaði sem blaðamaður og hafði skrifað um mannréttindabrot í Tétsníu fyrir rússneska dagblaðið Novaya Gazeta frá 1999.
Þann 7. október 2006 var Anna Politkovskaja myrt. Hún starfaði sem blaðamaður og hafði skrifað um mannréttindabrot í Tétsníu fyrir rússneska dagblaðið Novaya Gazeta frá 1999.
Laugardaginn 7. október 2006 var Anna Politkovskaja skotin þegar hún ætlaði að fara inn í lyftu í fjölbýlishúsinu í miðborg Moskvu þar sem hún bjó. Hún hafði áður sætt margvíslegum hótunum og lagt sig í hættu til að sinna starfi sínu. Hún var skotin af stuttu færi þegar hún kom heim úr innkaupaferð í matvöruverslun.
Talið er að morðingi hennar gangi enn laus. Lögfræðingar fjölskyldu Önnu Politkovskaju óttast að yfirvöld skorti vilja til að rannsaka mál hennar af fullri alvöru.
Réttarhöld vegna morðsins á Önnu Politkovskaju hófust í október 2008 í Moskvu. Þrír menn voru ákærðir fyrir aðild að morðinu á henni.
Réttarhöldin hófust á hneyksli; dómarinn í málinu fullyrti að kviðdómendur hefðu beðið um að réttarhöldin væru haldin fyrir luktum dyrum. En einn kviðdómenda sagði á óháðu útvarpsstöðinni Ekho Moskvy að kviðdómendur væru ekki hræddir og hefðu ekkert við opið réttarhald að athuga.
Við réttarhöldin voru margvísleg myndbönd sýnd frá síðustu dögum Önnu Politkovskaju, fjöldi símtalslista lagður fram, ýmist af þeim símtölum sem hún hafði hringt eða þeir sem ákærðir voru fyrir morðið á henni. En kviðdómurinn gat ekki komist að niðurstöðu um sekt hinna ákærðu og í febrúar 2009 voru þeir sýknaðir. Í september 2009 skipaði hæstiréttur Rússlands fyrir um nýja rannsókn á morðinu. Nú, ári síðar, hafa engin ný sönnunargögn komið fram í málinu.
Á sama tíma hafa fleiri blaðamenn og baráttumenn fyrir mannréttindum verið drepnir. Aðrir hafa sætt hótunum.
Amnesty International heldur áfram að krefjast réttlætis vegna morðsins á Önnu Politkovskaju. Samtökin krefjast þess einnig að yfirvöld leyfi sjálfstætt starfandi blaðamönnum og baráttufólki fyrir mannréttindum að halda áfram lögmætu starfi sínu án þess að þurfa að óttast um velferð sína.
