Amnesty International hvetur kínversk stjórnvöld til að leysa alla samviskufanga í landinu úr haldi, þeirra á meðal baráttumanninn Liu Xiaobo sem nýverið fékk friðarverðlaun Nóbels.
Amnesty International hvetur kínversk stjórnvöld til að leysa alla samviskufanga í landinu úr haldi, þeirra á meðal baráttumanninn Liu Xiaobo sem nýverið fékk friðarverðlaun Nóbels.
Liu Xiaobo, sem er 54 ára fræðimaður, fékk verðlaunin fyrir framúrskarandi starf í þágu mannréttinda. Hann afplánar nú 11 ára fangelsi í kjölfar óréttlátra réttarhalda fyrir að „hvetja til undirróðurs gegn ríkisvaldinu“.
Liu Xiaobo hefur staðið framarlega í flokki þeirra er gagnrýnt hafa kínversk stjórnvöld og kallað eftir mannréttindavernd og lýðræðisumbótum í Kína.
Liu Xiaobo er verðugur handhafi friðarverðlauna Nóbels og vona má að verðlaunin beini athygli að baráttunni fyrir grundvallarmannréttindum og mannréttindavernd í landinu sem Liu Xiaobo og margt annað baráttufólk í Kína vinnur að.
Verðlaunin munu þá og því aðeins hafa raunverulegt gildi ef þau verða til að auka alþjóðlegan þrýsting á Kína að leysa Liu Xiaobo og aðra samviskufanga úr haldi, sem sitja í fangelsi fyrir það eitt að nýta sér tjáningarfrelsi sitt.
Liu Xiaobo er einn höfunda Charter 08 yfirlýsingarinnar, sem hvetur til lagalegra og pólitískra umbóta í Kína svo að landið verði lýðræðisríki sem virðir mannréttindi. Upphaflega undirrituðu um 300 kínverskir fræðimenn, lögfræðingar og embættismenn yfirlýsinguna sem átti að birtast á alþjóðlega mannréttindadaginn, þann 10. desember 2008.
Liu Xiaobo var handtekinn þann 8. desember 2008 og yfirlýsingin birtist á netinu næsta dag. Síðan þá hafa margir þeirra sem upphaflega undirrituðu yfirlýsinguna sætt áreitni kínverskra yfirvalda. Um 12.000 manns hafa nú undirritað yfirlýsinguna á netinu.
Liu Xiaobo var dæmdur í 11 ára fangelsi þann 25. desember 2009, eftir réttarhöld sem stóðu yfir í tvo tíma.
Amnesty International hefur barist fyrir lausn hans, ásamt lausn annars baráttufólks sem skrifaði undir Charter 08, þeirra á meðal Liu Xianbin, sem var handtekinn í júní.
Nokkrir þeirra sem skrifuðu undir yfirlýsinguna hafa beðið um að fá að deila ábyrgðinni með Liu Xiaobo og hópur háttsettra félaga í Kommúnistaflokknum hafa dregið í efa lögmæti dómsins yfir honum.
Vaclav Havel og Dalai Lama, tveir fyrrum handhafar friðarverðlauna Nóbels, voru meðal þeirra sem studdu tilnefningu Liu Xiaobo. Vaclav Havel var einn höfunda Charter 77, yfirlýsingar frá 1977 sem hvatti til virðingar fyrir mannréttindum í Tékkóslóvakíu, en Charter 08 yfirlýsingin byggði á þeirri yfirlýsingu.
