Amnesty International hvetur bandarísk stjórnvöld til að rannsaka hvað starfsmenn bandarískra yfirvalda vissu um pyndingar og aðra illa meðferð á fólki í varðhaldsvist íraskra öryggisyfirvalda, eftir að ný gögn birtust í skjölum sem Wikileaks samtökin birtu þann 22. október.
Iraq wikileaks
Amnesty International hvetur bandarísk stjórnvöld til að rannsaka hvað starfsmenn bandarískra yfirvalda vissu um pyndingar og aðra illa meðferð á fólki í varðhaldsvist íraskra öryggisyfirvalda, eftir að ný gögn birtust í skjölum sem Wikileaks samtökin birtu þann 22. október.
Upplýsingarnar virðast styðja mjög nákvæmlega við niðurstöður skýrslu Amnesty International, New Order, Same Abuses: Unlawful Detentions and Torture in Iraq, sem birt var í september 2010, þar sem lýst er umfangsmiklum pyndingum og annarri illri meðferð íraskra öryggissveita, sem sæta engri ábyrgð vegna mannréttindabrota sinna.
Þúsundir Íraka, sem höfðu verið í haldi bandarískra hersveita, voru færðir í hendur íraskra yfirvalda frá því snemma árs 2009 til júlí 2010 samkvæmt samkomulagi milli Bandaríkjanna og Írak sem kveður ekki á um að mannréttindi þeirra, sem sæta varðhaldsvist, séu virt.
Bandaríkin eru aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, sem skyldar öll ríki til að banna pyndingar og færa fólk í varðhaldi ekki í hendur yfirvalda í öðru ríki, þar sem það getur átt á hættu að sæta pyndingum.
Amnesty International berst áfram fyrir því að þeir sem sættu pyndingum bandarískra hermanna í Írak, á stöðum eins og í Abu Ghraib fangelsi, sæti ábyrgð.
Bandarískum yfirvöldum, eins og öllum öðrum stjórnvöldum, ber skylda að alþjóðalögum til að tryggja að hersveitir þeirra stundi ekki pyndingar og færi ekki fólk sem er í haldi bandarískra hersveita í hendur annarra stjórnvalda sem eru líkleg til að pynda það.
Bandarísk yfirvöld hafa ekki virt þetta ákvæði í Írak, þrátt fyrir ítarlegar sannanir úr mörgum áttum fyrir því að íraskar öryggissveitir stundi umfangsmiklar pyndingar og sæti ekki refsingu.
Upplýsingarnar í þessum gögnum undirstrika þörfina á því að íraska ríkisstjórnin grípi til raunhæfra aðgerða til að binda enda á pyndingar, tryggja öryggi allra í varðhaldi, og finna og draga til ábyrgðar þá sem eru ábyrgir fyrir pyndingum og öðrum alvarlegum mannréttindabrotum, hversu hátt settir sem þeir eru.
LESTU MEIRA
New Order, Same Abuses: Unlawful Detentions and Torture in Iraq (Report, 13 September 2010)
