Amnesty International fordæmir aftöku Shahla Jahed, sem fram fór í Teheran í morgun. Samtökin gagnrýna írönsk yfirvöld harðlega fyrir að taka hana af lífi.
Amnesty International fordæmir aftöku Shahla Jahed, sem fram fór í Teheran 1. desember. Samtökin gagnrýna írönsk yfirvöld harðlega fyrir að taka hana af lífi.
Amnesty International telur miklar líkur á að ákæran á hendur henni hafi ekki átt við rök að styðjast. Dauðarefsingar eru ómannúðlegar og aldrei réttlætanlegar.
Shahla Jahed var það sem kallast „tímabundin” eiginkona Nasser Mohammad-Khani, fyrrum landsliðsmanns í fótbolta. Hún var dæmd fyrir morð á „langtíma” eiginkonu hans.
Samkvæmt írönskum lögum geta karlar og konur gengið í tvenns konar hjónabönd, annars vegar „langtíma” og hins vegar „tímabundin”. Í „tímabundnum” hjónaböndum getur par ákveðið að vera gift um tíma, gegn ákveðinni greiðslu til konunnar. Að umsömdum tíma loknum er hjónabandið ógilt, en hægt er að framlengja það. Karlar geta átt allt að fjórar „langtíma” eiginkonur og ótakmarkaðan fjölda „tímabundinna” eiginkvenna. Konur geta einungis verið giftar einum manni á hverjum tíma
Allt bendir til að Shahla Jahed hafi ekki fengið réttláta málsmeðferð og að hún hafi verið þvinguð til játninga, en henni var haldið svo mánuðum skipti í einangrun. Hún dró játninguna til baka í réttarhöldunum. Þrátt fyrir það var játningin notuð sem sönnunargagn gegn henni og hæstiréttur staðfesti síðar dauðadóminn.
Í nóvember 2005 skipaði yfirmaður dómsmála að málið skyldi skoðað á ný en í september 2006 var dauðadómurinn staðfestur.
Í byrjun árs 2008 fór yfirmaður dómsmála fram á að ný rannsókn skyldi fara fram, þar sem misbrestir voru á fyrri rannsóknum málsins. Dómstóll felldi svo aftur dauðadóm yfir henni í febrúar 2009 og var hún tekin af lífi í morgun.
